30.10.1978
Neðri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

39. mál, kjaramál

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að kveðja mér aftur hljóðs við þessa umr., en síðustu tvær ræður gera það að verkum að ég tel nauðsynlegt að koma nokkuð inn á þær.

Hv.12. þm. Reykv. flutti brtt. við frv. Við upplestur í fljótu bragði finnst mér hún skipta ákaflega litlu máli. Hún kemur auðvitað örfáum aðilum til góða, en engan veginn að öllu leyti þeim hópi fólks, sem á að leiðrétta þessa agnúa hjá.

Það er ekki rétt hjá hv. þm., að ég hafi ekki minnst á öryrkja, þó að það kæmi ekki fram í till. minni. Í framsöguræðu minni fyrir brtt., sem ég flutti, óskaði ég eftir því, að n. athugaði sérstaklega stöðu öryrkja og þeirra hlutur yrði ekki fyrir borð borinn. En á því að taka öryrkja alfarið inn í slíka till. eru margir agnúar, vegna þess að þeir, sem njóta örorkulífeyris, eru stundum tekjuhátt fólk, alveg eins og þar er einnig tekjulaust fólk að öðru leyti en því, að það nýtur örorkulífeyris. Þess vegna var óeðlilegt að setja þetta alfarið inn í slíka till. Það var þó á engan hátt ætlun mín að öryrkjum yrði gleymt, því að ég lagði á það ríka áherslu í ræðu minni, að fjh.- og viðskn., sem fengi þetta frv, til meðferðar, athugaði það og kannaði ítarlega að till. næði einnig til öryrkja.

Ég vil vekja sérstaka athygli hv. þm. á því, að með þessari till. erum við ekki að gera ellilífeyrisþega undanþegna þeim gjöldum, sem eru á fasteignum þeirra, hvorki til sveitarfélaga né ríkis. Það eru háir skattar, sem þetta fólk þarf að greiða eins og aðrir landsmenn. Ég held, að hv. Alþfl.-menn, sem hér hafa talað, megi ekki gleyma því, að þessir illræmdu skattar eru viðbót á skatta sem þessi flokkur hefur í mörg ár talað um að væru svo ranglátir og gengju svo langt að það þyrfti að lækka þá, en ekki hækka. Það er þetta, sem hv. síðasti ræðumaður þyrfti að muna. Maður ætlast til þess að menn á þessum aldri gleymi ekki svona augljósum hlutum. Ekki gæfi ég mikið fyrir slíka menn eftir 30–40 ára þingsetu.

Það, sem hér er um að ræða, er sú svívirðing að koma aftan að fólki. Það er enginn að tala um að við, sem erum að vinna fyrir tekjum á árinu 1978, vitum að við eigum að borga ákveðna tekjuskatta og eignarskatta. En þegar búið er að leggja á fólkið í landinu þessa skatta, þá telur það að nú sé búið að leggja að fullu og öllu á þessar tekjur, en þá skeður það, þegar langt er komið að innheimta eftir þessari skattlagningu, að komið er í bakið á fólki með þessum brbl. Þessi brbl. voru ill ganga, fyrsta ganga fjmrh. Hann er ekki öfundsverður af sinni fyrstu göngu, sá maður.

Sama er með eignarskattsviðaukann. Hann kemur ofan á allt annað. Ég hef heyrt fulltrúa þessara flokka, sem nú hafa náð samvinnu um að stjórna í þessu landi, tala um hvað allir þessir skattar væru ranglátir og hvað þyrfti að lækka þá. Það hefur ekki farið minna fyrir Alþb. en öðrum á undanförnum árum er þeir hafa talað um það, hvað tekjuskattslögin væru ranglát í alla staði og þar þyrfti sannarlega að gera uppskurð. En uppskurðurinn varð þá með þeim hætti að bæta gráu ofan á svart. Það er eins og það megi löngum bæta böggum á Brúnku. Þetta er nú ekki að vera sjálfum sér samkvæmur, eins og þessir menn hafa talað á undanförnum árum. Og þetta yfirklór Alþfl.-manna er ósköp máttlaust og fálmkennt, enda ekki við öðru að búast. Ég bjóst aldrei við neinu öðru og þetta kemur mér ekkert á óvart.

Það, sem hér er um að ræða, er ekki ágreiningur við stjórnarandstöðuna um þá skatta, sem lagðir hafa verið á, heldur það, að komið er í lok ársins 1978 og lagðir skattar á tekjur og eignir fólks, sem búið er að leggja á skatta áður. Á kannske að bæta áfram við eftir áramótin og taka svo afganginn af tekjunum frá árinu 1977, klára þær? Hvar stendur fólk yfirleitt frammi fyrir slíkum aðgerðum? Hver veit hvað hann á og hvað hann á ekki? Það, sem fólk á rétt á að vita, er hvað samfélagið ætlar að taka mikið af því af sköttum um leið og þeirra er aflað. Það á fólk heimtingu á að vita. En ekki er rétt að koma svona í bakið á því eins og gert er.

Ég sagði í fyrri ræðu minni í þessu máli, að ég hefði ekkert á móti því, að leitað yrði tekjuöflunar fyrir ríkissjóð með eyðslusköttum. Þó að þeim, sem brennivín kaupa, þyki það dýrt, þá ráða þeir sjálfir hvort þeir kaupa það eftir að það heftir hækkað hvað eftir annað. Það er skattur sem þeir sjálfir leggja á sig og ráða þá, hvort þeir kaupa brennivín eða ekki. Sama má segja um aðra eyðsluskatta. Ef við höfum ekki ráð á því að eyða, eftir að þessir skattar hækka eins og áður, þá drögum við úr kaupum. Við því er ekkert að segja. Það má della um hvort slíkir eyðsluskattar séu of háir eða ekki, en ekki verður deilt um að komið sé aftan að fólki þegar þeir eru lagðir á með þeim hætti.

Hvað beinu skattana snertir og þessa afturvirkni skatta, þá er deilt um að þeir komi í bakið á fólki. Það, sem er enn þá verra, er að með því að fara út í þessa skattheimtu er verið að draga úr viðleitni manna að afla tekna og leggja mikið á sig. Er það stefnan, að enginn megi fara yfir meðaltalið, heldur eigi að setja þar mörkin og svo niður úr, en að það eigi alls ekki að leggja neitt hart að sér? Það er ekki spurt að því, hversu lengi og hvað hart menn leggja að sér að afla þeirra tekna. Nei, það skal taka þetta af mönnum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.

Það er auðvitað ósköp erfitt að tala um ríkisfjármálin fyrr en hið margumtalaða fjárlagafrv. liggur fyrir Alþ. Fjmrh. sagði í síðustu viku að það kæmi á mánudag. Nú er mánudagur runninn upp og ekki bólar á fjárlagafrv. Það bólar ekki einu sinni á fjmrh. Hann var þó við í síðustu viku, en hann virðist vera kominn í geymslu með frv. Það hafa fyrr verið ríkisstjórnir í þessu landi sem þrír stjórnmálaflokkar hafa stutt, og þeir hafa reynt að koma sér saman um heildarramma fjárl. áður en fjárlagafrv. fari í prentun. Ég hef aldrei vitað fyrr, að fjárlagafrv. færi í prentun án þess að viðkomandi stjórnarflokkar legðu nokkurn veginn blessun sína yfir það, — þó að það væri ekki alveg fullgild blessun, þá væri það alltaf ákveðið að verulegu leyti. Nú virðist það vera þannig, að blessuð bókin er fullfrágengin og lokuð inni, en Alþ. fær ekki að sjá hana því að stuðningsflokkar ríkisstj. eru að keppast við að gera drög að uppkasti um fyrirvara hvers flokks fyrir sig við fjárlagafrv. Hefði nú ekki mátt flýta þessum fyrirvörum öllum og lofa Tómasarbókinni að koma fyrir almenningssjónir og Alþ. og standa nú við orðin í fyrri viku um að þessi blessuð bók kæmi fram á Alþ. á mánudag?

Það er alltaf verið að bíða. Eftir hverju er verið að bíða? Hvað er að? Getum við nokkuð hjálpað til í þessum efnum Við erum reiðubúnir. (Gripið fram í). Jú, við erum búnir með nefndakjörið. Það er ekki til málefnalegur ágreiningur í Sjálfstfl. Það er meira en hægt er að segja í sumum herbúðum öðrum. En það er ósköp eðlilegt að menn séu orðnir svekktir á gangi þessara mála. Ég átti sæti í ríkisstj. Að vísu stóðu ekki nema tveir flokkar að þeirri ríkisstj. Það voru aldrei neinar deilur um að leggja fjárlagafrv. fram. Auðvitað voru margar skoðanir uppi um að það væru ekki nóg framlög til þessa málaflokks eða hins eins og alltaf vill verða og fer ekkert endilega eftir flokkum. Sama á sér suðvitað alltaf stað í sambandi við skiptingu á framlögum til hinna ýmsu málaflokka og einkum framkvæmda og ekkert við því að segja. Þar ráða önnur sjónarmið.

Út af þeim tilmælum, sem hv. 2. landsk. þm. bar fram til okkar sjálfstæðismanna, þá held ég að mér sé alveg óhætt að fullyrða að ekki mun standa á Sjálfstfl. að afgreiða fjárlög með þeim hætti að reyna að spara og reyna aðhaldsleið eins og hægt er. Það kæmi mér mjög á óvart, ef koma fram óskaplegar hækkunartillögur frá sjálfstæðismönnum við fjárlögin. Mér fannst alveg nóg að sjá hækkunartillögur Alþfl. og Alþb. á síðustu þingum. Þessar hækkunartill. skiptu nokkrum milljörðum við afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Alltaf voru þeir að tala, blessaðir mennirnir, um hvað fjárl. hækkuðu mikið, en fluttu svo alltaf till. um stórfellda hækkun til viðbótar. Ég vona að það komi ekki fyrir okkur sjálfstæðismenn, að við gerumst sekir um slíkt eins og ástandið er í þjóðfélaginu.

Ég held að ég hafi svo ekki meiru við þetta að bæta að sinni. En ég endurtek það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni við þessar umr., að ég vænti þess að fjh.- og viðskn. fái glöggar upplýsingar um þessa álagningu, hvað till. um niðurfellingu eignarskattsauka kostar mikið og jafnframt hvernig skattlagning þessi, sem beitt hefur verið og er mjög umdeild og harðlega gagnrýnd af okkur, kemur niður á hinar ýmsu stéttir í þjóðfélaginu. Jafnframt óska ég mjög eftir því að fá upplýsingar um hvað útflutningsatvinnuvegirnir verða að greiða bæði í tekjuskattsauka og eignarskattsauka, hversu mikil og aukin útgjöld lenda á þeim við þessa skattlagningu. Það er til lítils að vera að breyta skráðu gengi krónunnar og skapa útflutningsatvinnuvegunum fleiri krónur til þess að það sé hægt að reka þá með eðlilegum hætti, ef ríkið ætlar svo aftur að hrifsa að verulegu leyti það sem þessir aðilar eiga og þurfa að fá til þess að reka starfsemi sína með eðlilegum hætti. Þess vegna er nauðsyn á því, að þessar upplýsingar liggi fyrir. Sömuleiðis vil ég ítreka það sem ég sagði varðandi niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum, einkum á kjöti. Þær upplýsingar tel ég að n. eigi að biðja um og þær eigi að gefa hér í þd. áður en málið kemur til 2. umr.