27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

Umræður utan dagskrár

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég tel þessa till. ótímabæra og of seint fram komna, ef svo mætti segja. Það er ekki fræðilegur möguleiki til þess að mínum dómi að afgreiða hana sjálfa og svo aðgerðir samkv. seinni mgr. till. fyrir 1. mars, þ. e. á tæpum 31 klukkutíma. Þá tel ég fyrri hlutann raunar óframkvæmanlegan, eins og hér hefur verið sýnt fram á m. a. fyrir mjög skömmu. Ég sé því ekki að neina nauður reki til þess að afgreiða þessa till. með hraði.

Hins vegar tel ég að hæstv. forsetar hafi um alllanga hríð, ekki aðeins á þessu þingi, heldur á allmörgum þingum, sýnt okkur þm. mjög mikið og ég vil nú segja stundum helst til mikið umburðarlyndi og t. d. leyft helst til miklar umr. utan dagskrár og þá af helst til litlum tilefnum stundum. Um þetta má auðvitað deila. Og því verður ekki breytt hér og nú á þessari stundu. Það er e. t. v. athugunarefni í betra tómi. — Að skjóta þessari till. nú fram fyrir önnur þingmál, þótt allir sjái að slíkt hafi ekki praktíska þýðingu, sbr. dagsetningar og klukkustundir, er hins vegar fyllilega í hátt við það feiknalega mikla umburðarlyndi sem hæstv. forsetar hafa sýnt okkur hv. þm., og þess vegna segi ég já.