27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

Umræður utan dagskrár

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal stytta mjög mál mitt, enda mjög liðið á starfsdaginn. Það er ekkert á að lítast, ef svo heldur fram sem horfir um starf hins háa Alþingis að hér er tíma þingsins varið í endalausar umr. utan dagskrár af ekki merkilegri tilefnum en á stundum gefast og m. a. hefur gefist hér.

Umr. hefur verið allhávær á undanförnum missirum um að virðing Alþ. færi þverrandi, og ungir fullhugar, sem hafa viljað stuðla að aukinni virðingu Alþ., verið mjög háværir í gagnrýni sinni. Maður skyldi þess vegna halda að málflutningur þeirra og tillögugerð mundi að því beinast að auka og efla virðingu hins háa Alþingis. En það er sem jafnan fyrr, að það, sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann, og þessi tillögugerð er einna síst til þess fallin að auka veg og virðingu Alþ., svo fáránleg sem hún er í allri gerð sinni eins og rakið hefur verið í hinum löngu ræðum í dag.

En það hefur einnig verið á það drepið, hvaða ástæður liggja til þessa tillöguflutnings, og það er auðvitað aðalatriðið að reyna að gera sér grein fyrir því. Hvað veldur því að svo fáránleg tillögugerð er fram flutt og með þeim hætti sem raun ber vitni? Nú þekktu menn hinn mikla örlagadag Alþfl., sem vera átti einn af mörgum, hinn 1. febr. s. l. Hann leið án þess að neitt væri aðhafst af þeirra hálfu. En örfáum klukkutímum, að segja má, áður en næsti örlagadagur þeirra, 1. mars, rennur upp er til þessara furðulegu leikbragða gripið, sem við sjáum í þessum tillöguflutningi. Og til hvers eru þessir refar skornir? Auðvitað ekki til þess að bjarga einu eða neinu í hinum vandasömu og flóknu efnahagsmálum okkar, eins og þar standa nú sakir. Það er allt um seinan, ef einhverju hefði átt að bjarga áður en rann upp hinn 1. mars, og það er auðvitað þeim, sem að þessu standa, fullljóst. Þeir hefðu sjálfsagt ekki flutt þetta ef þeir hefðu álitið að einhverju slíku yrði bjargað.

Hér er gerð ítrekuð tilraun til þess af hv. þm. Alþfl. að láta sem svo að þeir séu hinir ábyrgu aðilar sem vilji gera til þess hinar ítrustu tilraunir að bjarga á örlagastundu hinum erfiðu málum efnahagsþátta þjóðarinnar. Og nú var það svo, að við atkvgr. um afbrigðin mun það verða kennt Alþb. að hafa komið í veg fyrir að þessi nauðsynlega tillögugerð næði fram að ganga, sem hefði þó orðið til þess, eins og segir í 2, mgr. andlagsins fyrir þessari till., að ríkisstj. hefði verið falið að undirbúa ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir eða fresta þeim breytingum á efnahagskerfinu sem verða áttu í tengslum við 1. mars. Ef þeir hefðu — ég þarf ekki að gerast spámaður til þess að segja það fyrir — ef hv. Alþb. hefði viljað samþykkja svo sjálfsagða lýðræðisreglu og þá að taka þessa till. til afgreiðslu, þá mundi miklu hafa verið bjargað. Þannig verður þetta áreiðanlega túlkað — og þeir um það með hvaða hætti og með hvaða vopnum þeir vegast á, þessir herrar. En forsendur mínar tvær fyrir því að greiða þessu atkv. hafa reynst réttar, bæði hin víðtæka venja að veita afbrigði, sem er nærri ófrávíkjanleg, og eins það, að hv. stjórnarsinnum hefur gefist tækifæri til þess að verða sér til enn aukinnar skammar.

Hér er lagt til að frv., sem Alþ. hefur alls ekkert fjallað um, verði lagt undir dóm þjóðarinnar, margslungið og mjög flókið frv., sem engin tök eru auðvitað á að taka afstöðu til með atkvgr. í þjóðaratkv. — það sjá auðvitað allir menn. En Alþ. hefur ekki fengið neitt tækifæri til þess að fjalla um þetta frv. Væri nú ekki ráð fyrst að gera til þess tilraun að fjalla þar um málið og vita til hvaða úrslita dregur þar, áður en gripið er til þessara furðulegu bragða?

Og hvar hefur frv. verið til meðferðar? Hjá forsrh. fyrst og fremst, þetta er hans fjölmiðlafrv., og svo í ríkisstj. Og nú leggur hv. 7. þm. Reykv, til að hætt sé öllu því sem hann kallar skæklatog í hæstv. ríkisstj. Sú meðferð í ríkisstj., sem hið mikla frv. fær sem þeir Alþfl. menn sporðrenndu í heilu líki, er af hans hálfu kölluð, eins og segir, með leyfi hæstv. forseta orðrétt: „ . . . þá sé ástæðulaust að halda áfram því skæklatogi, sem stundað hefur verið nú um nokkra hríð.“ Beinna og bersýnilegra vantraust er auðvitað ekki hægt að flytja á eina ríkisstj. en gert er með þessari tillögugerð. Það er lagt til að málið sé af henni tekið — þetta mikla mál sem Alþfl. telur að ráði úrslitum um framtíðarheill þjóðarinnar, verði af ríkisstj. tekið og tekið til úrskurðar — já eða nei — hjá þjóðinni allri, af því að sjálf ríkisstj. stundi ekkert nema skæklatog, þar liggi flokkar í hernaði hver við annan og fljúgist á um þetta örlagamál. Það er sagt hér, að það sé alveg ljóst að það strandi á flokkspólitískum ástæðum að frv. þetta verði að lögum fyrir 1. mars, án þess að nokkuð sé vitað um þjóðarvilja í þeim efnum . Hv. flm, og fylgismenn hans og aðstoðarsveinar, sem eru allmargir, ættu að kynna sér og gera sér grein fyrir hvaða skipulag við búum við þingræðislega, áður en þeir leyfa sér að tala með þessum hætti. Ákveðnar reglur gilda um hvernig ríkisstj. er mynduð og hvernig þjóðarvilji hefur fengið að koma fram og stendur til þess arna, og að þeim leikreglum hefur vissulega verið farið.

Hér er uppgjöf, hér hafa menn gefist upp við allar tilraunir til þess að ná samkomulagi í þessum miklu vandamálum. Það er lagt til að taka málið úr höndum hæstv. ríkisstj. þegar í stað, þar sem henni er ekki treystandi til þess að ráða fram úr málunum. Þar er ekkert um að tefla annað en ómerkilegt skæklatog. Og svo hafa menn sóst á með þeim hætti sem menn hafa séð hér. Það er mikill misskilningur ef menn halda að slíkt verði til þess að auka veg Alþingis. Þetta verður auðvitað líka til þess að auka vantrú fólks á þeim sem um stjórnvöl þjóðarinnar halda.

Þeir þræta stjórnarliðar um það, þegar nú virðast öll sund vera að lokast fyrir þeim, með hvaða hætti eigi að vinna að jafnþýðingarmiklum málum og hinni bráðu lausn sem ber að vinna að varðandi vanda efnahagslífsins. Og þeir eru ekki sammála um nokkurn skapaðan hrærandi hlut. Þeir tala í austur og vestur. Það er alveg augljóst mál að fyrir þessari ríkisstj. liggur ekkert annað en að skila af sér völdum, og þá fær þjóðin tækifæri til þess að kveða upp dóm sinn yfir þeim endemis vinnubrögðum sem eru í frammi höfð. Og ég er helst á því, úr því að menn vilja ekki hafa venjulegan hátt á um að bera fram vantraust á eina ríkisstj., þó að lesa megi það út úr hverri línu, að athuga verði það fljótlega að hjálpa til að bera slíka vantrauststill. fram á hinu háa Alþingi með eðlilegum hætti. Þá fengi líka þjóðin tækifæri til þess í opnum umr. að fylgjast með málflutningi þessara háu herra og með hvaða hætti þeir standa að málum sín í milli og hver við annan.