28.02.1979
Efri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til 1. umr., gerir ráð fyrir lækkun útflutningsgjalds úr 6% í 5% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og miðar þannig að því að auðvelda fiskvinnslunni að greiða hið tímabundna olíugjald til fiskiskipa, sem nemur 2.5% af skiptaverðmæti og frv. er flutt um jafnhliða þessu. Lætur nærri að sú lækkun útflutningsgjaldsins, sem hér er ráðgerð, svari til 2–2.5% af skiptaverðmæti. Þannig er hér lagt til að hluti af því fé, sem að óbreyttum lögum rynni til sjóða sjávarútvegsins, færi til þess að létta útgerðinni róðurinn eftir þá miklu hækkun olíuverðs sem orðið hefur að undanförnu.

Eins og fram kom í framsöguræðu minni fyrir frv. um tímabundið olíugjald, nægir það ekki eitt sér til þess að greiða kostnaðarhækkun af olíuverðshækkuninni. Því verður einnig að mæta með öðrum hætti, bæði með olíusparnaði og hækkun fiskverðs, eins og ég gat um í framsöguræðunni fyrir frv. hér á undan. En eins og áður getur er mikilvægt að hvetja til sparnaðar og olían verði seld á fullu verði til notenda, en ekki greidd niður.

Ég ítreka það, að talið er fært að lækka útflutningsgjaldið úr 6% í 5%, a. m. k. að svo stöddu, vegna þess að fjárhagur mikilvægustu sjóðanna, sem útflutningsgjaldsins njóta, er traustur. Þannig átti hin almenna deild Aflatryggingasjóðs 2600 millj. kr. í sjóði um áramót. Áhafnadeild Aflatryggingasjóðs átti á sama tíma um 450 millj. kr. í sjóði og Tryggingasjóður fiskiskipa átti um 1000 millj. kr. á reikningi sínum í Seðlabankanum um áramótin. Að stórum hluta er það fé að vísu bundið til eins árs í senn. Að óbreyttum reglum og miðað við núverandi gengi og verðlag gætu heildartekjur þessara sjóða af útflutningsgjöldum á árinu 1979 numið 7.2 milljörðum og greiðslur úr þeim 5.2 milljörðum. Af þessum lauslegu áætlunum má ráða að þessir sjóðir þoli nokkra lækkun útflutningsgjaldsins án þess að það þurfi að koma niður á starfsemi þeirra.

Áhafnadeild Aflatryggingasjóðs þolir þó síður lækkun en hinir sjóðirnir, og er því nauðsynlegt að breyta nokkuð skiptingu tekna af gjaldinu um leið og heildarhlutfall útflutningsgjaldsins er lækkað. Frv. gerir því ráð fyrir að hlutfall almennu deildar Aflatryggingasjóðs lækki úr 22% í 191/2% af heildartekjum af útflutningsgjaldi eða sem nemur 550 millj. til lækkunar á heilu ári. Á móti kemur hlutfallsleg hækkun áhafnadeildar úr 20 í 31% og skerðast tekjur hennar því óverulega. Hlutfall Tryggingasjóðs er lækkað úr 27 í 25%, eða sem nemur 600 millj. kr. á heilu ári. Og hlutur Fiskveiðasjóðs er lækkaður úr 21 í 20% , eða sem nemur 400 millj. kr. á ári. Samtals hefur þetta í för með sér um 1600 millj. kr. lækkun tekna af útflutningsgjaldinu og er þá miðað við 160 milljarða útflutningsverðmæti gjaldskyldra afurða. Sú aðgerð, sem hér er lögð til, kostar auðvitað fé, og verður ekki undan því vikist.

Rétt er að leggja áherslu á að hér er um tímabundna ráðstöfun að ræða til þess að mæta bráðum vanda útgerðarinnar vegna olíuverðshækkunarinnar, og verður þessi tilhögun vitaskuld tekin til endurskoðunar þegar línurnar skýrast um þróun olíuverðsins, væntanlega síðar á árinu.

Ég leyfi mér að leggja til að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv, sjútvn. Eins og um hið fyrra frv. er mikilvægt að það fái skjóta meðferð. Ég vænti þess, að nefndin geti afgreitt bæði þessi mál á nefndarfundi í dag, og ítreka þá ósk mína, sem ég bar fram varðandi hið fyrra frv., að n. og d. afgreiði þetta mál í dag, svo mikilvægt sem það er að það geti orðið að lögum þegar um þessi mánaðamót.