28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2840 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það má segja, eins og raunar oftar hefur verið sagt úr þessum ræðustól, að nú séu hafðar hraðar hendur við afgreiðslu mála, og held ég að öllum beri saman um að þar sé nú teflt á tæpasta vað. Til okkar komu á nefndarfund forstöðumenn sjóða, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson gat um áðan, en ekki gafst tími til að spyrja allra þeirra spurninga sem ástæða hefði verið til að spyrja þegar mál er rekið áfram eins og þetta. Mér datt það í hug á meðan félagi minn úr sjútvn., hv. þm. Oddur Ólafsson, stóð í ræðustól og gat þess, að tekjutap Fiskveiðasjóðs væri milli 700 og 800 millj. kr., að það kemur í raun og veru ekki fram í frv. sjálfu. En það er rétt skilið hjá honum, að eftir því sem venja og reglur segja til um, þá á ríkið að greiða 3/4 á móti framlaginu til Fiskveiðasjóðs af útflutningsgjaldinu. Það skiptir ekki litlu máli, hvort ríkissjóður er losaður undan þessu gjaldi, sem ég sé enga ástæðu til að gera í þessu tilviki. Mér sýnist að það sé fullkomin ástæða til að fá úr því skorið, hvort það er ætlun ríkisstj. að skerða hlut Fiskveiðasjóðs að þessu leyti um 312 millj., sem þetta mundi sennilega kosta sjóðinn.

Ég vil enn fremur ítreka það sem kom fram hjá forstöðumanni Fiskveiðasjóðs á nefndarfundi áðan, að stjórn sjóðsins mun hafa gert um það tillögu, þegar undirbúin var lánsfjáröflun fyrir ríkissjóð, að sjóðnum yrðu ætlaðar á þeirri áætlun um það bil 800 millj. kr. fram yfir það sem ætlast et til að hann fái á lánsfjáráætlun.

Sumir segja að það sé ekki ástæða til að hafa ráðstöfunarfé Fiskveiðasjóðs ýkjamikið á þessum síðustu og verstu tímum. Það má vel vera að satt sé að það þurfi ekki að stækka skipastól okkar að neinu verulegu marki. Það verður þó alltaf að vera einhver hreyfing á endurnýjun og umbótum á honum. En það er annað sem er enginn vafi á að þarf að gera í stórum stíl, og það er margs konar hagræðing bæði í fiskvinnslunni sjálfri og fiskmjölsverksmiðjunum. Það fer ekkert á milli mála, að í þeim umr., sem hafa orðið um að spara orku, spara olíu, hefur komið fram hjá þeim sem eru sérfræðingar á þessu sviði, að það er margs konar útbúnaður, ekki síst fiskmjölsverksmiðjanna, sem hefur verið vanrækt að ganga endanlega frá á síðustu árum til fullnustu eins og venja er í hliðstæðum verksmiðjum með öðrum þjóðum, en það mundi hafa í för með sér mikinn sparnað á olíunotkun í þessum verksmiðjum. Ég álít þess vegna að það séu ekki rök fyrir því, að Fiskveiðasjóður þurfi minna fjármagn nú en áður. Og ég vil fara þess á leit við hæstv, sjútvrh., sem hér er staddur á fundi, að hann gefi um það yfirlýsingu, að ekki sé ætlunin að ríkissjóður lækki framlag sitt á móts við lækkun framlags af útflutningsgjaldinu.