28.02.1979
Efri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2843 í B-deild Alþingistíðinda. (2261)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. meiri hl. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Enda þótt ég hljóti að viðurkenna það, að ég hafði ekki hugleitt það mál sem hv. þm. Steinþór Gestsson vakti afhygli á áðan, að hér yrði um að ræða eins konar sparnað fyrir ríkissjóð, þá fæ ég ekki séð að fram séu komin rök fyrir því að við frestum afgreiðslu þessa máls til morgundags, vegna þess að okkur verður gersamlega ómögulegt, þó að við legðumst allir á eitt, að pína út úr hæstv. sjútvrh. fyrirheit um að hann útvegi peninga í Fiskveiðasjóð umfram það sem lög heimila. Hlutfallið er bundið í lögum, og við erum ekki að fjalla um hreytingar á þeim lögum, þar sem um er að ræða þriggja fjórðunga eða 75% framlag á móti úr ríkissjóði. Þetta atriði þarf ekki að tefja afgreiðslu þessa máls. Okkur liggur á að afgreiða þetta mál, eins og hefur verið margtekið fram og hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni er manna ljósast, hefur enda brosað hvað mest að þeim sannindum, að 1. mars er á morgun, og við þurfum ekki að fresta málinu þess vegna. Það er bara annað mál sem við þurfum að taka upp, sem er fjárhagur Fiskveiðasjóðs.