28.02.1979
Neðri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2855 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Til umr. er frv. til l. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar 1979.

Áætlun hæstv. ríkisstj. um fjárfestingar og lánsfé á árinu 1979 hefur legið fyrir um nokkurt skeið, að vísu styttri tíma en þurft hefði að vera. Ég vil í upphafi vekja athygli á því, sem reyndar kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að við ræðum þessa áætlun nú 28. febr. eða rúmum tveimur mánuðum eftir að fjárlög voru samþ. á Alþingi. Ég minnist þess frá því að lánsfjáráætlun var fyrst samin í því formi sem hún er til umr. í dag, þ. e. a. s. fyrir árið 1976 og reyndar síðar, að gagnrýnt var hversu seint hún væri lögð fyrir Alþ. og þm. gæfist ekki tækifæri til að fjalla um þessa áætlun á sama tíma og fjárlög væru til umr. hér á hv. Alþ. Þetta var vissulega rétt gagnrýni og var reynt að bregðast við henni með þeim hætti að áætlunin væri fyrr á ferðinni. Tókst við 2. umr. fjárl. fyrir árið 1978 að leggja áætlunina fram og gera grein fyrir henni þegar 2. umr. fjárl. fór fram. Jafnframt var það frv., sem er fylgifiskur þessarar áætlunar, lagt fram, en fyrir því mælt síðar.

Þegar núv. hæstv. ríkisstj. lagði fram fjárlagafrv. sitt gerði hún vitaskuld ráð fyrir að svipuð vinnubrögð yrðu viðhöfð og taldi eðlilegt að þessi áætlun yrði enn fyrr á ferðinni en tíðkast hafði. Ég held að það hafi komið fram í grg. fyrir fjárlagafrv, eða í framsöguræðu hæstv. fjmrh., fjárlagaræðu hans. En raunin hefur orðið önnur.

Hæstv. fjmrh. vildi afsaka þennan drátt með því, að hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarþm. hefðu verið svo önnum kafnir fyrir jól að ekki hefði unnist tími til að koma þessari áætlun saman og því hefði þessi dráttur orðið. Það er einmitt grundvallaratriðið fyrir slíkri lánsfjáráætlun að hún fylgi fjárl. og hægt sé að afgreiða lánsfjáráætlun og þau lög, sem eru grundvölluð á þeirri áætlun, á sama tíma og fjárlög, þannig að rammi efnahagsmála, fjármála og peningamála sé afgreiddur á Alþ. á sama tíma. Þm. er hins vegar ljós ástæðan fyrir því, að þetta mál er svona seint á ferðinni. Það er ekki tímaskortur hjá hæstv. ríkisstj. og hv. þm. stjórnarliðsins að öðru leyti en því, að þeir voru uppteknir í desembermánuði við að vera ósammála, eins og þeir hafa oft verið, og beinlínis var það skilyrði eins af stjórnarflokkunum að lánsfjáráætlun yrði ekki afgreidd á þeim tíma. Stjórnarliðið hafði ærið nóg að gera, eins og ég hef gert grein fyrir, og meginverkefni þess í desembermánuði var skattpíningin sem alþjóð er nú kunnugt um og þýðir, eins og fram hefur komið, miðað við þá tekjustofna, sem ríkið hefur, milli 25 og 30 milljarða nýjar tekjur á árinu 1979 umfram það sem ella hefði orðið.

Ef það er hugsun hæstv. ríkisstj. og hæstv. fjmrh. að nota lánsfjáráætlun sem það stjórntæki sem hún getur vissulega verið og hefur verið, er algerlega ófyrirgefanlegt að lánsfjáráætlunin sé á ferðinni rúmum tveimur mánuðum eftir að fjárlög ríkisins hafa verið afgreidd, enda sýnir það sig, sem ég mun koma að síðar, að allar forsendur þessarar lánsfjáráætlunar eins og fjárlaganna eru brostnar, þannig að hér er í raun og veru verið að tala um hluti sem ekki fá staðist. Auk þess að þessari áætlun er ætlað að ná yfir lánamarkaðinn, innlendan sem útlendan, varðandi opinberar framkvæmdir svo og aðrar framkvæmdir í landinu og fjalla um lánakjör, þá er þessari áætlun og efni hennar ætlað samkv. samstarfsamningi núv. ríkisstj. meira hlutverk en áður. Þar er farið inn á miðstýringu og fjárfestingarhöft, sem eins og fram hefur komið voru eitt af stefnuskráratriðum núv. hæstv. ríkisstj. Þeir aðilar, sem aðhyllast ekki þá stjórnarhætti, hljóta að gagnrýna það. Við teljum að hér sé horfið 20–30 ár til baka í sambandi við stjórnarhætti okkar lands.

Ég vék að því áðan að sú þjóðhagsspá, sem þessi lánsfjáráætlun er byggð á, hefur breyst, forsendur hennar eru nú í dag allt aðrar en þær voru þegar hún var að verulegu leyti samin, og þau hrossakaup, sem þessi áætlun her með sér, fóru fram á milli ráðh. Slíkt er ofur eðlilegt, einfaldlega vegna þess að ríkisstj. hefur ekki enn getað eftir 6 mánaða starfstíma sinn mótað stefnu sína í efnahags- og fjármálum. Þar er það sundurlyndi sem við verðum æ ofan í æ vör við hér á hv. Alþ., síðast í gær, og er nánast allt látið reka á reiðanum. Það er ekki svo, að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. hafi ekki verið gefin fyrirheit um það, með hvaða hætti hún hygðist framkvæma stefnu sína í þessum málum. En þar hefur ekkert verið um að ræða annað en bráðabirgðaúrræði. Það voru bráðabirgðaúrræði í sept., það voru bráðabirgðaúrræði aftur 1. des. og síðan hefur nánast ekkert gerst, og eins og hæstv. forsrh. orðaði það sjálfur: þeir eru búnir að tapa 1. mars sem nánast var næsti áfangi í bráðabirgðaráðstöfunum þeirra, þ. e. a. s. 1. febr. hjá Alþfl. En bæði líður febrúarmánuður og marsmánuður byrjar án þess að nokkuð hafi verið aðhafst. Ein af forsendum þessarar lánsfjáráætlunar og forsendum fjárl. er þróun launamála, gengið út frá ákveðnum launahækkunum. En ég held að þegar morgundagurinn rennur upp séu komnar í launamálunum aðrar stærðir en forsendur lánsfjáráætlunar gera ráð fyrir, og eru það ekki stærðir sem eru raunverulegar, einfaldlega vegna þess að þar hefur verið haldið aftur af og enn á ný leikið sér að vísitölu, en fyrir það var vinstri stjórnin 1971–1974 hvað frægust. Í þá vísitölu, sem tekur gildi um launagreiðslur á morgun, hækkun um tæp 7%, skortir a. m. k. 1.5–2% að hún sé raunveruleg. Ef þessu heldur fram má búast við að vísitöluhækkun 1. júní á þessu ári verði ekki 5%, eins og talað hefur verið um og er m. a. forsenda þessarar lánsfjáráætlunar, heldur má búast við að um verði að ræða 10% vísitöluhækkun, ef ekki verður leikinn sami leikur og nú hefur verið leikinn í sambandi við vísitöluna 1. mars.

Ég sagði áðan að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, væru bráðabirgðaúrræði og stjórnarþm. hafi ekki komið sér saman um neitt annað en þá skattpíningu, sem ég vék að áðan. Lánsfjáráætlunin og fjárl. byggðu á því, að útkoma og niðurstaða fjárlagaársins 1978 yrði með 400 millj. kr. halla, en það dæmi kom allt öðruvísi út en gert hafði verið ráð fyrir. Niðurstaðan varð sú, að skuldasöfnun ríkissjóðs við Seðlabankann jókst um 3.9 milljarða og skuldasöfnun ríkisins í heild, þ. e. a. s. bæði A- og B-hluta fjárl., nam um 5 milljarða. En í fjárl. fyrir 1979 er gert ráð fyrir niðurgreiðslum í Seðlabankanum um 5 milljarða kr.

Þá hefur hæstv. fjmrh. staðfest það, sem hefur verið haldið fram af okkur sjálfstæðismönnum í sambandi við fjárl. 1979, að þau séu með innbyggðum halla, einfaldlega vegna þess að í útgjöldin skortir nokkra milljarða til að mæta þeim útgjöldum ríkissjóðs í sambandi við niðurgreiðslur sem þarf til að verðlag desembermánaðar geti haldist. Ef enn er haldið áfram og talað um forsendur fjárl., og þessarar lánsfjáráætlunar, þá var gert ráð fyrir því í þjóðhagsspánni í desember, að hagstæður viðskiptajöfnuður yrði um 4 milljarða á árinu 1979. Þegar þessi lánsfjáráætlun er lögð fram er sú spá komin niður í 2 milljarða. Síðan hafa gerst hlutir sem okkur er öllum kunnugt um, þó að þar sé e. t. v. eitthvað bjartara fram undan en okkur hefur virst vera s. l. daga. Á ég þar við þá miklu olíuverðshækkun sem orðið hefur í heiminum.

Ég held að þegar þessi atriði öll eru skoðuð, þá geri menn sér grein fyrir því, að sú áætlun, sem við erum hér að ræða um, sé nánast pappírsgagn eitt. Forsendur hennar eru allar brostnar og ekkert af þeim stefnumiðum, sem sett eru fram í þessari skýrslu, í kafla II, hefur verið hér til umfjöllunar öðruvísi en í því fræga frv., eins og hæstv. fjmrh. orðaði það, sem forsrh. samdi. Í lögfestingu hér á Alþ. hefur ekkert gerst sem getur rennt stoðum undir þá stefnu sem ríkisstj. mótaði sér og kemur fram í þessari skýrslu, í II. kafla hennar.

Þegar lánsfjáráætlun er nú lögð fyrir Alþ. og frv. um ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar er einnig lagt fram, kemur í ljós að núv. hæstv. ríkisstj. hefur farið hér að með allt öðrum hætti en tíðkast hefur. Alþingi samþykkir fjárlög, fjvn. fær fjárlög til meðferðar og fjvn. hefur fengið til meðferðar og umfjöllunar lánsfjáráætlun. Nú er lögð fram á Alþ. lánsfjáráætlun án þess að fjvn. hafi nokkurn tíma fengið tækifæri til að fjalla um það sem þar er lagt til. Og ekki nóg með það, heldur er hér gengið þvert á samþykkt fjárlög og ákvarðanataka Alþ. samkv. till. fjvn. að engu höfð.

Það er hægt að renna yfir töflu á bls. 8 og gera sér grein fyrir því þar, að lánsfjáráætlunin hækkar fjárþörf til opinberra framkvæmda um rúma 5 milljarða. Fjárl. gera ráð fyrir 10 milljörðum 722 millj., en lánsfjáráætlunin 15 milljörðum 730 millj. Þannig er lagt til nú af hæstv. ríkisstj. að hækka opinberar framkvæmdir með lánsfjáráætluninni og því frv., sem henni fylgir, um 50%. En með hvaða hætti? Það liggur í augum uppi. Það er með þeim hætti að hækka lántökur. Lántökur, sem fjárlög gerðu ráð fyrir að yrðu 5.6 milljarðar, erlendar lántökur, er lagt til að hækka í 10.5 milljarða, sem er um 90% hækkun frá því sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Þá eru einstakar framkvæmdir, sem fjvn. hafði fjallað um og hafnað, teknar upp aftur, sumar hverjar vegna fyrirvara sem hæstv. ráðh. gerðu við samþykkt fjárl., aðrar ekki. Við höfum lesið um það í blöðum að undanförnu, að einstakir embættismenn hafa verið úti í heimi, gengið þar í banka til að slá lán til kaupa á t. a. m. einni flugvél, án þess að fjvn. hafi nokkuð um þau mál fjallað. Ég gat á sínum tíma vel skilið þá gagnrýni sem hv. núv. formaður fjvn. hafði uppi við meðferð fjárl. Ég reyndi að bæta úr því eftir því sem mögulegt var, og ég er þess fullviss, að þessar starfsaðferðir eru ekki honum að skapi né neinum af þeim mönnum, sem í fjvn. sitja, né heldur alþm., því að hér er beinlínis verið að ganga fram hjá þeim ákvörðunum, sem Alþ. hefur tekið og vísvitandi verið að gera það sem alþm. að fengnum till. fjvn. hafa hafnað.

Ég vík að þessu sérstaklega þar sem það kom glöggt fram í ræðu hæstv. fjmrh., að hann og þá að sjálfsögðu í umboði ríkisstj. vildi hafa stjórn á fjármálum ríkisins, á þeim vinnubrögðum sem við væru höfð. En þau vinnubrögð, sem höfð eru, eru í þveröfuga átt við það sem talað et. Það er kannske ekki neitt til þess að kippa sér upp við. Þannig eru og hafa verið vinnubrögð hæstv. ríkisstj. allan þann tíma sem hún hefur setið.

Ég vék að því hér áðan, að ekki bara þessi lánsfjáráætlun, heldur einnig forsendur ríkisfjármálanna 1979 vegna útkomunnar 1978 eru þegar brostnar. Við sjáum fram á að öllu óbreyttu, að árið 1979 kemur til með að skila miklum halla hjá ríkissjóði, og við heyrum líka í fréttum, að ríkisfyrirtækin standa uppi og benda á að hjá þeim muni verða margra milljarða kr. halli ef fer fram sem horfir. Má þar benda á Póst og síma. Forráðamenn Pósts og síma gerðu fyrir skömmu heyrinkunnugt, að 2 milljarða kr. halli væri á því fyrirtæki að öllu óbreyttu.

Ég held að það, sem ég hef nú sagt, að þessi lánsfjáráætlun og öll meðferð hennar stefni í nákvæmlega sömu átt og við töldum fjárl. gera og útkoman verði allt annað en aðhald í ríkisfjármálunum, samdráttur í framkvæmdum, — hér muni verða miklu verri stjórn á ríkisfjármálum og stjórnleysi á þeim sviðum sem ég vék að áðan.

Í þessari lánsfjáráætlun er vikið að ýmsum grundvallaratriðum sem stjórnarflokkarnir hafa lýst sig ósammála um. Má benda á í sambandi við fjárfestingarlánasjóðina, hvernig stjórnarflokkarnir eru gersamlega ósammála um þau lánskjör sem skuli gilda í landinu. Ég þarf ekki að rifja það upp, hvert er sjónarmið Alþfl. Ég þarf ekki heldur að rifja upp sjónarmið Alþb. og Framsfl. Þetta kemur gleggst fram í nál. sem liggja fyrir Alþ. og sýna þá ósamstöðu sem er hjá stjórnarflokkunum, nema þeir hafi seinustu dagana, en þeir bera ekki vitni um það, komið sér saman um hvernig með lánskjörin skuli fara. En það er að sjálfsögðu eitt af grundvallaratriðum þess, að árangur náist í slíkri stjórn peningamála sem lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir.

Hæstv. fjmrh. vék hins vegar að málefnum fjárfestingarlánasjóðanna og sagði að í samræmi við markaða stefnu í fjárl. um skerðingu á framlögum til fjárfestingarsjóða væri nauðsynlegt að lögum nokkurra sjóða verði breytt. Það sagði hann um 12.–19. gr. frv. Þetta er allt annað en við höfum heyrt varðandi það frv. sem hæstv. forsrh. samdi og hefur verið til umr. síðustu daga. Hefur komið fram gagnrýni stjórnarflokkanna á þær hugmyndir sem þessum greinum er ætlað að lögfesta í því frv. sem fylgir lánsfjáráætlun, en þær koma einnig fram í því frv. sem forsrh. samdi.

Því er haldið fram, að stefnt sé í þessari áætlun að minnkun erlendra lántaka. Ég get ekki betur séð en það sé þvert á móti. Greiðslubyrði okkar varðandi erlend lán minnkaði á árunum 1975–1978, að vísu ekki mjög mikið. En það staðfestir það, sem fram kom í ræðu hæstv. fjmrh. og í þessari skýrslu, að greiðslubyrðin jókst ekki, heldur minnkaði örlítið. En það er gefið fyllilega í skyn og það sýnir sig á öllu, að greiðslubyrðin muni hækka. Það sýnir sig líka, hvert stefnir, þegar breytt er frá því að um helmingur af því lánsfé, sem útvega þarf, væri erlent lán, í það, að um 60–65% af þeim lánum, sem afla verður til opinberra framkvæmda, verða á árinu 1979 erlend lán, á móti 35–40% innlendum lánum. Það kom fram að á s. l. ári voru lántökur 41 milljarður, þar af 21 milljarður á innlendum lánamörkuðum, 20 á erlendum. En í ár er gert ráð fyrir 28 milljörðum á erlendum lánamörkuðum, en 23 milljörðum kr. á innlendum lánamarkaði.

Þegar vikið er að því, hvernig staða þjóðarbúsins verður samkv. þjóðhagsspánni í lok þessa árs og þá í sambandi við erlendar lántökur og þær forsendur sem þjóðhagsspáin byggir á, þá er hvorki tekið tillit til þeirra verðhækkana, sem orðið hafa á olíuvörum, né heldur til þeirra aðgerða, sem e. t. v. verður að grípa til í sambandi við verndun fiskstofna okkar. Við skulum vona að til þess þurfi ekki að koma, að þar verði á mikil hreyting. Viðskiptajöfnuður var á s. l. ári 1.5%, en til upplýsinga má vekja athygli á því, að viðskiptajöfnuðurinn var neikvæður um áramótin 1974–1975 á milli og 12%, þannig að frá 1974–1978 hefur orðið mikill bati í þessum efnum.

Þá er varðandi fjárfestingarsjóði gert ráð fyrir miklu meiri erlendri lántöku á árinu 1979 heldur en nokkru sinni fyrr. Er gert ráð fyrir að lántaka þeirra aukist um nærri 200%, eða úr 1664 millj. í 5 milljarða 430 millj. kr. Þannig verða fjárfestingarlánasjóðir á árinu 1979 fjármagnaðir með þrisvar sinnum hærri upphæð af erlendu fé heldur en á árinu 1978, eins og sú áætlun kemur út.

Ég held að það verði ekki hægt að halda því fram, þegar þetta er skoðað, að stefnt sé að minni lántökum erlendis enda þótt í heild komi dæmið þannig út, þegar bæði hlutfallið af því lánsfé, sem hið opinbera tekur, eykst varðandi erlendu lántökurnar og fjárfestingarlánasjóðirnir verða háðari erlendum lánum.

Þá er gert ráð fyrir því í þessari lánsfjáráætlun, að fjárfestingar á árinu 1979 verði innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu eða útflutningstekjum. Þetta var eitt af þeim atriðum sem Alþfl. gerði kröfu til. Hann taldi ekki á sínum tíma mögulegt að standa að afgreiðslu fjárl. né heldur afgreiðslu lánsfjáráætlunar í ríkisstj., þannig að með einum eða öðrum hætti varð að gera í þessari áætlun þá lagfæringu að hægt væri að segja að hún þýddi í fjárfestingu innan við fjórðung af þjóðarframleiðslu. En með hvaða hætti er þetta gert? Jú, það er gerð till. um að hluti af jarðstöðinni verði ekki greiddur fyrr en á árinu 1980 og þannig skotið yfir þau áramót allsæmilegri upphæð til þess að ná tölunni niður. Það er farið fram á frestun á Hrauneyjafossvirkjun að ákveðnum hluta og reynt að koma því þannig fyrir, að hægt sé að skjóta yfir á árið 1980 verulegri upphæð til greiðslu og draga úr hraða þeirra framkvæmda. Það er jafnframt gert ráð fyrir breytingu hjá járnblendiverksmiðjunni. Þessar tilfærslur verða til þess, ásamt breytingu á framkvæmdum hjá álverinu, að sú heildartala, sem út úr þessu dæmi kemur, getur rúmast innan við fjórðung af þeirri þjóðarframleiðslu sem spáð er á árinu 1979.

Ég hef það fyrir satt, að hér sé um að ræða meira bókhaldsatriði heldur en hér komi til að framkvæmdir dragist mjög, því að samtenging þeirra mun vera með þeim hætti að þegar ákveðin verkefni eru komin í gang verði að ljúka þeim enda þótt þau verði ekki greidd fyrr en komið er fram yfir áramót. Með þessum hætti er komist, eins og ég sagði áðan, niður fyrir 25% af þjóðarframleiðslu í fjárfestingum á næsta ári.

Ég hef nú vikið að þeim helstu atriðum, sem ég vildi koma á framfæri við 1. umr. þessa máls, og þá aðallega á grundvelli þeirrar skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem ríkisstj. hefur lagt fram. Það eru að sjálfsögðu fjölmörg önnur atriði sem hægt væri að benda á til stuðnings þeirri skoðun minni, að forsendur fyrir þeirri þjóðhagsspá, sem fjárl. 1979 og lánsfjáráætlun 1979 eru byggð á, séu brostnar. Það verður að sjálfsögðu í þeirri n., sem fær frv. til meðferðar, farið í saumana á þessum atriðum og gerð nánari grein fyrir þessu og fengnir þar til þeir aðilar sem staðið hafa að samningu áætlunarinnar og þeir beðnir skýringa á þessum atriðum.

Varðandi frv. sjálft, þá eru þar atriði sem ég vil mega víkja að.

Fyrstu greinar frv. eru bein afleiðing af þeim till. hæstv. ríkisstj., með hvaða hætti verði staðið að lánsfjáröflun á vegum ríkisins, á vegum Landsvirkjunar, á vegum sveitarfélaga og í 7. gr. á vegum Orkubús Vestfjarða. Í 8. gr. frv. er svo komið að Byggðasjóði og lausninni af hálfu núv. ríkisstj. á því, hvernig Byggðasjóð skuli fjármagna. Það var á það bent við gerð fjárl., að þar skorti stórar upphæðir til þess að hægt yrði að standa við þá löggjöf sem gildir um Byggðasjóð, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Hér er ætlað að bæta úr með því að Byggðasjóður taki lán að upphæð 1 milljarð 480 millj. kr. til þess að standa undir fjármagnsgjöldum vegna byggðalína. Þetta sýnir í raun og veru hver hugur fylgir máli hjá þeim aðilum sem mest hafa talað í þessu efni, og er vert að vekja afhygli á því.

9. gr. gerir ráð fyrir mikilli lántökuheimild fyrir Framkvæmdasjóð, sem er hluti af því sem ég vék að áðan varðandi fjárfestingarlánasjóðina. 10. gr. þarfnast hins vegar ekki skýringa. Í 11., 12., 13. og 14. gr. eru breytingar á lögum um Framkvæmdasjóð, um Jarðasjóð, um Stofnlánadeild og um Fiskveiðasjóð og þær tölur, sem fjárl. gera ráð fyrir, þar bundnar, en sú sjálfvirkni, sem verið hefur, er dregin til baka. Hér er um að ræða atriði sem ekki hefur verið samstaða um af hálfu stjórnarflokkanna, eftir því sem þeir hafa talað hér á síðustu dögum. Kemur á daginn við afgreiðslu málsins hvernig þeir standa að þessum greinum. Þetta er eitt af þeim vandamálum sem ríkisstj. hefur glímt við þegar fjárl. voru samþ., sú sjálfvirkni sem er í hinum ýmsu lögum. Í þessum till. er brugðist við því með þeim hætti að láta standa þau framlög sem í fjárl. hafa verið ákveðin, enda þótt til hærri upphæðar hefði átt að koma samkv. gildandi lögum.

Í 15. gr. frv. er ríkissjóði hins vegar skapaður nýr tekjustofn, því að þar er farið eins að með tekjur Byggingarsjóðs ríkisins og einnig Byggingarsjóðs verkamanna, en sérstakur tekjustofn er til þessara sjóða og í fjárl. því aðeins um millifærslu að ræða inn og út. Hér er gert ráð fyrir, að enda þótt tekjur af þessum tekjustofnum yrðu meiri en fjárl. gera ráð fyrir yrði það ekki greitt til Byggingarsjóðs ríkisins eða Byggingarsjóðs verkamanna, heldur renni það í ríkissjóð. Með því er verið að skapa ríkissjóði auknar tekjur. Um Lánasjóð sveitarfélaga og Erfðafjársjóð svo og Bjargráðasjóð gildir það sama og ég vék að hér áðan.

20. gr. fjallar hins vegar um tekjur Ferðamálasjóðs og með hvaða hætti þær skuli reiknaðar af tekjum ríkissjóðs frá Fríhöfn, svo og greiðslur af kostnaði Ferðamálasjóðs og starfsemi Ferðamálaráðs. Þær hugmyndir, sem hér eru, ganga einnig í þá átt að skerða þann tekjustofn sem sá sjóður hafði fengið. Hafa verið uppi hugmyndir um slíkt, og sú till., sem hér liggur fyrir, kemur ekki ókunnuglega fyrir. Spurningin er hins vegar: Eru stjórnarflokkarnir sammála í þessu máli í þeirri veru sem þeir hafa talað varðandi skerðingu á sjálfvirkni þeirra laga sem hér hafa verið til umr?

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fara fleiri orðum um þá fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, sem lögð hefur verið fram, og það frv., sem hér er til umr. En ég held að það megi öllum ljóst vera, að hún er með sama hætti og annað það sem komið hefur frá þessari hæstv. ríkisstj. Ríkisstj. er ekki ljóst hvert hún stefnir í efnahags- og fjármálum. Það er verið með bráðabirgðaaðgerðir. Hlutirnir gerast ekki á réttum tíma. Allt sýnir þetta betur, eftir því sem lífdagar stjórnarinnar verða fleiri, að hún er ekki fær um að gegna því hlutverki sem hún hefur tekið að sér.