01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2277)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Vegna sérskoðunar minnar í þessu máli bar ég ekki gæfu til þess að vera í þeim annars glæsilega félagsskap sem skipar meiri hl. iðnn. þessarar hv. d. Ég sagði: sérskoðunar minnar, en ég sé raunar eftir að hafa hlustað á ræðu frsm. meiri hl. að ég hef alls ekki haft neina sérskoðun í þessu máli. Ég sé ekki betur en meiri hl. hafi verið mér sammála, og í trausti þess að hv. þm. verði nú minnugir þess, þegar að atkvgr. kemur, að þeir eru ekki við neitt bundnir nema sannfæringu sína, vonast ég til að þeir fylgi þeim hugmyndum eða þeirri skoðun sem ég set fram í nál. mínu. Ef hv. þm. treysta sér ekki til þess vegna þess að þar sé of langt gengið, þar sem ég vil ganga alfarið gegn frv., þá væri hugsanlegt að athuga það á síðara stigi, þ. e. a. s. við 3. umr., að flytja brtt. sem skemur gengur og væri þá einungis um að falla frá hækkuninni á verðjöfnunargjaldinu.

Stefán Jónsson, hv. 4. þm. Norðurl. e., sagði að enginn í meiri hl. iðnn. væri út af fyrir sig á þeirri skoðun að verðjöfnunargjald á raforku, eins og gert væri ráð fyrir í frv., væri lausn á vandanum. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum eru þá hv. þm. að skrifa undir meðmæli með frv. sem felur í sér till. um slíka lausn? Hv. þm. talar um að slík lausn sé til bráðabirgða, því að önnur sé ekki tiltæk. Það er nú svo með þær bráðabirgðalausnir, sem ýmsir hv. þm. geta hugsað sér að fylgja, að þær eru ansi langvinnar oft og tíðum, og það á ekki einungis við um þetta mál. Lausnir til bráðabirgða geta varað mörg ár ef því er að skipta, og svo er í þessu tilfelli. Það eru orðin æðimörg ár síðan fyrst var farið inn á þessa leið, og þegar gripið var til hækkunar var ævinlega sagt að það yrði í engu tilfelli lengur en eitt ár staðið þannig að málum. Nú er enn vegið í þennan sama knérunn og gjaldið á að hækka úr 13% upp í 19%. Minna má ekki gagn gera. Fara á enn þá lengra á þessari leið sem allir hv. þm. virðast vera sammála um að óskynsamlegt sé að fara. Menn sætta sig við þá lausn sem þeir telja sig hafa í sjónmáli og felst í því, að hæstv. iðnrh. lýsi því yfir í des. að stefnt mundi að annarri lausn. Ja, hv. þm. er nægjusamir.

Hv. þm. Stefán Jónsson lét í ljós mér til mikillar gleði skoðun sem ég vil túlka sem visst grundvallarlífsviðhorf. Hann sagði að hann vildi sannarlega láta það fólk njóta fyrirhyggju og dugnaðar sem slíkt hefði sýnt, og á þá við þau sveitarfélög sem hafa haft fyrirhyggju og dugnað til þess að ráðast í framkvæmdir á réttum tíma og réttum stöðum og geta því selt þjónustu sína við eftir atvikum hóflegu verði. Vitanlega eiga þau sveitarfélög, sem svo stendur á um, og íbúar þeirra, viðskiptavinir orkuveitnanna, að njóta slíkrar fyrirhyggju og dugnaðar. Hitt er annað mál, að það geta verið þær ástæður fyrir hendi sem hvorki koma við fyrirhyggju né dugnaði. Það geta verið fyrir hendi landfræðilegar, félagslegar eða aðrar óviðráðanlegar orsakir, sem verða til þess að orðið hefur að gera ráðstafanir sem leiða til dýrari raforku en ella hefði orðið. Það er meginskoðun mín, sem fram kemur í því litla nál. sem ég hef sett fram, að við slíkum vanda eigi að snúast með öðru móti en þessu. Og ég fæ ekki betur séð en a. m. k. hv. frsm. meiri hl. iðnn. sé sjálfur líka þeirrar skoðunar og telji að aðrir nm. séu á sama máli. Ég læt því í ljós að við kunnum að sameinast um tillögugerð í þessu máli við 3. umr., jafnvel þó hún væri líka til bráðabirgða. Það gæti verið bráðabirgðalausn sem skárri væri en þessi.

Það hefur komið fram í umr., bæði í þessari d. og í Nd., að þegar um vanda af félagslegum eða landfræðilegum ástæðum sé að ræða sé miklu eðlilegra að leysa slíkt á almennari grundvelli, af almennu ríkisfé, en að láta þá, sem við hagstæðara verð búa vegna þess að þeir hafi notið skynsemi og dugnaðar forustumanna sinna, bera kostnað fyrir önnur sams konar fyrirtæki. Slíkt er vitanlega engum til góðs og felur ekki í sér hvatningu til þess að fara skynsamlega að ráði sínu, heldur þvert á móti. Það dregur úr því að menn vandi sig, sýni ráðdeild, skynsemi og dugnað í mikilvægum framkvæmdum eins og þeim sem liggja til grundvallar við öflun og miðlun raforku.

Í nál. mínu nefni ég fjórar röksemdir og þá fyrst og fremst þá grundvallarástæðu, að það sé röng stefna að fyrirtæki, sem fjárfest hefur með hagstæðum hætti og er vel rekið, eigi að greiða kostnað annarra sams konar fyrirtækja, þar sem ekki hefur eins vel tekist til. Í öðru lagi nefni ég þá röksemd að raforkuverðshækkun, sem yrði vegna samþykktar frv., mundi hækka vísitölu og þar með allt verðlag í landinu. Í þriðja lagi, að fyrirkomulagið, sem hugsað er samkv. frv., komi jafnvel þyngst niður á þeim notendum rafmagns sem við hæst verð búa nú þegar. Og í fjórða lagi nefni ég þá röksemd, sem sérstaklega á við um Rafmagnsveitu Reykjavíkur, en hún er, að Rafmagnsveita Reykjavíkur á við fjárhagsvanda að etja vegna þess að ríkisstj. hefur neitað henni um verðhækkunarheimild. Þess vegna varð Rafmagnsveita Reykjavíkur að taka dýr erlend lán og stendur undir miklum fjármagnskostnaði af þeim sökum. Hugsanleg hækkun á raforkuverði í Reykjavík væri þess vegna heftur komin hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur en annars staðar. Held ég að hljóti að liggja í augum uppi, að það geti ekki verið skynsamlegt ráðslag að láta Rafmagnsveitu Reykjavíkur fyrst fara í dýra fjármagnsöflun, standa undir kostnaði þess vegna og taka síðan að sér að bera kostnað vegna annarra veitna á landinu sem verr eru settar og e. t. v. hafa ekki getað annaðhvort fjárfest eins skynsamlega eða jafnvel eru ekki af einhverjum ástæðum reknar með eins hagkvæmum hætti.

Ég læt, herra forseti, þetta duga. Það kom fram ábending til n. og eindregin ósk frá Siglfirðingum um að þetta frv. yrði sérstaklega athugað með tilliti til þeirra. Það má vel vera að sú yrði niðurstaða d. að það verði gert. En á þessu stigi vil ég freista þess að láta á það reyna, hvort hv. þm. greiða ekki atkv. með þeirri sannfæringu sinni að sú leið, sem almennt er lögð til í þessu frv., sé óskynsamleg, og muni því standa að því að fella frv.