01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Við hv. þm. Hannes Baldvinsson flytjum litla brtt. þannig, að orðalag á 2. mgr. 1. gr. breytist og við bætist þar:

„Verðjöfnunargjaldinu skal varið til að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og annarra rafveitna sem við sambærilegan fjárhags- og orkuöflunarvanda eiga að etja.“ — Þetta mun naumast geta átt við aðrar en Rafveitu Siglufjarðar, en svo háttar til að hún er ekki samtengd rafveitukerfi landsins. Siglfirðingar hafa af eigin rammleik risið undir orkumálum sínum, bæði að því er rafveitu varðar og eins hitaveitu, sem var tiltölulega dýr framkvæmd, og nýja virkjunin í Fljótaá er mjög dýr og fjármögnuð með erlendu fé. Ríkisvaldið hefur ekkert á sig lagt til þess að sjá Siglfirðingum fyrir orku, gagnstætt því sem viðast er annars staðar. Þess vegna er ekkert réttlæti í því að síhækka skatta á þessa rafveitu.

Ég treysti því, að hv. þm. muni geta greitt atkv. með þessari litlu till. Þetta munar Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins nánast engu, þetta yrði örlítil upphæð og á valdi ráðh. þar að auki að ákveða hver hún yrði. Gjarnan má geta þess líka, að Siglfirðingar hafa séð t. d. Fljótum og Ólafsfirði fyrir raforku með því að selja Rafmagnsveitum ríkisins af sinni orku. Hins vegar hefur ekki náðst fram að tengja Skeiðsfossvirkjun við raforkukerfið í Skagafirði t. d., sem var reynt að gera fyrir nokkrum árum þegar nýja virkjunin var að komast í gagnið. Ef það hefði verið gert hefði verið hægt að létta mjög miklum olíukostnaði af Rafmagnsveitum ríkisins og þessi virkjun hefði þá fengið auknar tekjur sem hefðu létt henni þá baráttu sem hún nú stendur í.

Síhækkandi gjald á Siglfirðinga, sem einskis hafa notið af ríkisfé, er ekkert réttlæti. Ég ætla að vonast til þess, að hv. þm. í þessari virðulegu og réttsýnu d. muni nú treysta sér til að greiða atkv. með þessari litlu till. og sýna þar tillitssemi.