01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2879 í B-deild Alþingistíðinda. (2279)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er um framlengingu á verðjöfnunargjaldi af raforku og með nokkurri hækkun frá því sem verið hefur.

Menn hafa í þessum umr. lítillega komið inn á ástæðuna fyrir því, að tekið var upphaflega að leggja verðjöfnunargjald á raforku. Ástæðan var sú, að nauðsynlegt þótti að gera nokkurt átak til þess að leiðrétta það misræmi sem var á orkuverði því sem þeir, er voru á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, greiddu og svo aðrir. Ég hygg að aldrei hafi verið bornar brigður á það, að mikið misrétti væri í þessum efnum og menn byggju við mjög mismunandi kjör eftir því hvar þeir væru búsettir á landinu. Um það er ekki ágreiningur. Þetta er staðreynd. Og þetta var staðreynd þegar verðjöfnunargjaldið var upphaflega lögleitt. En menn hafa alla tíð haft nokkuð mismunandi skoðanir á þeirri leið sem farin er til þess að stuðla að meira jafnrétti og draga úr misréttinn með því að leggja á verðjöfnunargjaldið. Þó er það svo, að ágreiningur um þetta efni hefur ekki verið hávær. Það hefur verið svo í verki, að flestir og ég vil segja allir stjórnmálaflokkarnir hafi látið sér lynda að fara þessa leið.

Þessi leið var tekin upp 1965 af þáv. ríkisstj., viðreisnarstjórninni. Okkur sjálfstæðismönnum þótti þá rétt að fara þessa leið, og hefur ekki verið ágreiningur innan okkar raða um það, þegar málið hefur verið tekið fyrir á Alþ. og lög þessi hafa verið framlengd og verðjöfnunargjaldið áður hækkað. Við höfum staðið að því, og við höfum talið að við værum að gera rétt, vegna þess að verðjöfnunargjaldið stuðli að meira réttlæti í þessum málum en yrði ef verðjöfnunargjaldið kæmi ekki til.

Frá mínu sjónarmiði hefur ekkert breyst í þessu efni. Það er ekki minni ástæða til þess að viðhalda verðjöfnunargjaldi í þessum tilgangi en áður hefur verið. Þarf ekki að fara mörgum orðum um það, því að aldrei hefur misréttið verið meira en einmitt nú. Og þegar riðin er yfir sú verðhækkunaralda á olíu, sem nú er búist við og er vitað að kemur, eykst um allan helming það misrétti sem ekki hefur tekist að leiðrétta. Það er því ekki að mínu viti kjörið tækifæri nú til að snúast gegn þeirri ráðstöfun sem felst í verðjöfnunargjaldinu.

Eins og ég kom að áðan felur það frv., sem hér er til umr., ekki einungis í sér að endurnýja ákvæði um verðjöfnunargjald af raforku, heldur er gert ráð fyrir að þetta gjald hækki um 6%. En gert er ráð fyrir að sérstök ákvæði gildi varðandi þessa hækkun. Þau ákvæði er að finna í 2. mgr. 1. gr. frv., því að þar segir að hækkun gjaldsins um 6% skuli varið til að ná fram verðjöfnun á töxtum til heimilisnotkunar og iðnaðar hjá Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Ef menn halda að það sé ofgert gagnvart því fólki, sem hýr á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, með þessari hækkun á verðjöfnunargjaldinu, eins og nú er ástatt, þá þykir mér það ekki bera nægilega mikinn vott um skilning á því misrétti sem hefur verið í þessu efni og nú eykst verulega þrátt fyrir þessar aðgerðir. Í raun og veru er aðeins um að ræða viðleitni til þess að hamla nokkuð á móti misrétti, en það er enn langt frá því að þessar aðgerðir nægi. Og þá kem ég að því, sem menn hafa vikið að, að verðjöfnunargjaldið er að sjálfsögðu ekki neitt allsherjarráð í þessum efnum. Það þarf miklu meira að koma til en þær ráðstafanir sem felast í frv. því sem hér er til umr. Um það mætti ræða langt mál. En ég hygg að kjarni þess máls sé sá, að koma þurfi á fót nýju skipulagi í orkumálum þjóðarinnar, — nýju skipulagi sem miðar að því að það geti verið sem mestur jöfnuður manna á milli í þessum efnum, hvar sem þeir eru búsettir á landinu.

Það vill svo til, að á borð hv. þm. var lögð í byrjun nóv. s. l. skýrsla með till. um skipulag orkumála landsins. Þessar till. voru með grg. frá sérstakri nefnd sem hafði verið skipuð af fyrrv. orkumálaráðh. til að vinna að þessum málum. Nefndin gerði margar till. og var sammála í öllum atriðum, nema varðandi skipulag á raforkuframleiðslu landsins. Ég skal ekki fara að ræða þetta álit, en ég vil taka það fram, að þó að allir nm. væru ekki sammála um hvaða skipulag ætti að vera á raforkuframleiðslunni voru allir sammála um að það bæri að stefna að sem mestum jöfnuði á raforkuverði hvar sem væri á landinu. Og menn voru líka sammála um að einn liðurinn í þessari viðleitni væri sá að leggja niður Rafmagnsveitur ríkisins, eftir því sem við yrði komið, og miðað við að koma á því skipulagi sem tryggði landsmönnum þá þjónustu sem Rafmagnsveitur ríkisins inna nú af höndum.

Ég sagði að ég ætlaði ekki að fara að ræða um þann ágreining um skipulag raforkuvinnslunnar sem fram kom í þessari nefnd og við vitum að er uppi. En í fáum orðum sagt er það annað sjónarmiðið, að það eigi að vera eitt aðalorkuvinnslufyrirtæki fyrir allt landið, en hins vegar það sjónarmið að orkuvinnslan geti verið í höndum landshlutafyrirtækja og komið verði upp skipulagsbundinni samvinnu milli allra þeirra fyrirtækja sem orkuvinnsluna hafa með höndum.

Ég fyrir mitt leyti tel að þýðingarmest sé að koma á því skipulagi sem stuðlar best að hagkvæmum rekstri orkufyrirtækja eða orkuvinnslunnar. Mér er engin launung, enda er það kunnugt, að ég er á þeirri skoðun, að það verði betur gert með því að fleiri orkufyrirtæki komu þarna við sögu en ef orkufyrirtækið væri eitt. Með því tækist betur en ella að virkja þann kraft, sem sveitarfélögin geta lagt fram í þessu efni, og þá staðarþekkingu, sem fyrir hendi er í sveitarfélögunum, en síður þegar þessi mál eru miðstýrð úr Reykjavík. Það er nefnilega ekki aðalatriðið að hafa sama orkuverð um allt land, ef orkuverðið er óþarflega hátt, ef skipulagið stuðlar ekki að lægsta orkuverði sem mögulegt er. Það er enginn fengur í því að stefna á sama orkuverð ef það þýðir að orkuverð þurfi að verða hærra. Aðalatriðið í þessu máli er að hafa það skipulag sem stuðlar að sem hagkvæmustum rekstri og sem lægstu orkuverði og jafnframt að orkuverðið verði sem jafnast um allt land.

Ég skal ekki ræða meira um þessi efni. Ég vík aðeins að þeim til þess að vekja afhygli á því, hvað mikil verkefni eru fyrir höndum að koma orkumálum landsins, og þá sérstaklega raforkumálum sem við hér ræðum um, í það horf sem þarf til þess að við getum vænst þess að búa við það ástand að ekki verði lengur um að ræða hrópandi misrétti milli fólks eftir því hvar það er búsett í landinu.

Frv. það, sem hér er til umr., er aðeins vottur, liggur mér við að segja, af viðleitni til þess að bæta úr. En þó að frv. þetta leysi ekki allan vandann er full þörf á að það nái fram að ganga, vegna þess að svo mikið er misréttið og óréttlætið í þessum efnum að það ætti að vera skylda okkar að stuðla að því að bæta úr í hvað litlum mæli sem vera kann. Ég skrifaði undir nál. með þessu máli með fyrirvara. Sá fyrirvari átti að vera til þess að leggja áherslu á hvað það væri mikil þörf á frekari aðgerðum í þessum efnum en felast í því frv. sem hér er til umr.

Ég vil svo víkja nokkrum orðum að brtt. þeirri sem er fram lögð á þskj. 397 af þeim Eyjólfi K. Jónssyni og Hannesi Baldvinssyni. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því, hvernig það kom til að verðjöfnunargjaldið var lagt á, — ég kom raunar inn á það í upphafi ræðu minnar, — en það var til þess að bæta rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og til þess að stuðla að meira jafnrétti og jafnara orkuverði milli þeirra, sem bjuggu á orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins, og hinna, sem fyrir utan það bjuggu. Ég held að ekki hafi verið neinn ágreiningur um það, þegar þessi lög voru upphaflega sett 1965, að það væri tvennt ólíkt, annars vegar orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins og hins vegar aðrir hlutar landsins. Og svo er enn. Það hefur aðeins orðið sú hreyting, að þegar Orkubú Vestfjarða var stofnað var tekinn hluti af orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins og lagður undir Orkubú Vestfjarða. Það voru sömu ástæður á Vestfjörðum og annars staðar á veitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins. Þess vegna var verðjöfnunargjaldinu skipt á milli Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubúsins í réttu hlutfalli við umsvif og rekstur Rafmagnsveitna ríkisins eins og þau voru á Vestfjörðum áður og eins og þau voru í öðrum landshlutum. Ég sé ekki að neitt hafi skeð nú sem réttlæti að taka aðra landshluta með orkuveitusvæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og veita verðjöfnunargjaldinu þangað. Það eru engar efnisástæður fyrir því, vegna þess að enn sem fyrr sker orkuveitusvæði Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða sig algerlega frá öllum öðrum landshlutum. Það er nálægt 100% hærri raforkukostnaðurinn á svæði Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubúsins en annars staðar.

Þetta þýðir ekki að það geti ekki verið ýmis fjárhagsleg vandamál hjá ýmsum öðrum rafveitum en Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða. Auðvitað getur það verið. Við vitum líka að svo er. En það réttlætir hins vegar ekki að grípa til þeirra ráða að ætla að skerða eða opna möguleika fyrir því að skerða þann stuðning sem Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða hafa haft af verðjöfnunargjaldinu. Af þessum ástæðum er ég á móti brtt. á þskj. 397. Mér finnst satt að segja, að þetta mál sé allt orðið tilgangslítið ef menn samþykkja brtt. með því hugarfari að vilja nota heimildir til þess að skipta andvirði verðjöfnunargjaldsins á rafveitur hvar sem er á landinu ef þær eiga í fjárhagslegum erfiðleikum.