01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2882 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Þegar mál þetta kom fyrir til 1. umr. í þd. lét ég í ljós ýmsar efasemdir varðandi réttmæti hækkunar á verðjöfnunargjaldi því sem þetta frv. gerir ráð fyrir, enda þótt ég væri í grundvallaratriðum fylgjandi verðjöfnun á orkuverði að vissu marki milli staða.

Í fyrsta lagi taldi ég grunninn óeðlilegan, réttara væri að leggja jöfnunargjaldið í peningaeiningum á selda kwst. ekki hlutfallslega á orkusölutekjur, því að m. a. leiddi núgildandi háttur til þess, að rafveitur með hæstu taxtana greiddu hlutfallslega hæst jöfnunargjald, og þó segja mætti að þessi skakki grunnur væri ekki sök núverandi stjórnvalda yrði skakkinn því meiri sem fleiri prósentum væri á hann bætt. Því væri óskynsamlegt að halda áfram á þessari götu.

Í öðru lagi leiddi ég að því rök, að hækkun verðjöfnunargjaldsins mundi gefa meiri tekjur til RARIK en fjárlög reiknuðu skattinn, eða vísast 1 milljarð fremur en 700 þús. eins og segir í aths. við frv., og væri þá þó ekkert mið tekið af væntanlegum hækkunum rafmagnstaxta á þessu ári eða nú síðast olíuverðshækkununum sem einhver aukaverðhækkunaráhrif munu hafa á t. d. hitataxta rafveitnanna eða RARIK. Við þennan rangreikning eða felureikning var ég ekki sáttur.

Í þriðja lagi benti ég á að mig grunaði að útreikningar RARIK á verðsamanburði við ýmsar þéttbýlisrafveitur væru umdeilanlegir.

Með þessar efasemdir í huga lýsti ég því yfir við 1. umr. um frv. sem nú er til umfjöllunar, að ég mundi ekki taka ákvörðun um fylgd við það eða andstöðu fyrr en iðnn. hefði fjallað um málið, en sú umfjöllun liggur nú fyrir. Þar eð ekkert kemur nýtt fram í henni sem réttlætir meira en fyrr grundvöll verðjöfnunargjalds þessa né hrekur vanáætlun frv. um tekjur af því né rennir styrkari stoðum undir verðsamanburð, sem umdeildur hefur verið, þ. e. að verðtaxtar RARIK séu um ýmislegt óeðlilegir, sé ég mér ekki fært að fylgja frv., heldur mun greiða atkv. gegn samþykkt þess.

Til enn frekari rökstuðnings því, að verðtaxtar RARIK séu um suma hluti óeðlilegir, vil ég benda á niðurlag á skýrslu Orkustofnunar til Sambands ísl. rafveitna, er þd. hefur haft til athugunar, þar sem gerður er allítarlegur samanburður á ýmsum verðtöxtum rafveitnanna. Orkustofnun kemst að þeirri niðurstöðu, að árið 1977 virðist henni að hitun eftir marktaxta hafi verið seld á vegum RARIK á um 2.60 kr. miðað við hitunartaxta í þéttbýlisstöðum ca. 3.68 kr. Undir þessa skoðun virtist mér renna stoðum smáathugun sem ég gerði um jólaleytið þegar ég var heima í mínu byggðarlagi.

Ég hafði gengið frá húsi mínu þannig, þegar ég fór suður á þing, að ég hafði lítinn eða sem minnstan hita á húsinu, aðeins næturhitun í lágmarki eftir hitunartaxta Rafmagnsveitu Akureyrar, og það var náttúrlega engin eldun í húsinu og enginn ljósagangur. Reikningurinn fyrir tvo mánuði eftir þessum hitunartaxta var upp á 52 þús. kr. Rétt þegar ég var að velta þessu fyrir mér hringdi í mig náfrændi minn, sem er bóndi í sveit, rekur stórt bú, eða félagsbú með syni sínum, og kaupir raforku eftir marktaxta. Tveggja mánaða reikningur hans eftir þeim taxta, þar með öll hitun á stóru húsi og eldun fyrir tvær allstórar fjölskyldur, — þ. e. a. s. önnur fjölskyldan er allstór, hin er minni, — öll ljósanotkun í íbúðarhúsi og útihúsum var um 76 þús. kr. Þetta sýndist mér mundi færa frekar stoðir undir það, að marktaxtinn væri hagkvæmur gagnvart þessu gjaldi sem ég hefði verið að greiða. Þessu vildi ég skjóta inn í til dæmis um það, að ég held að bændur yfirleitt, sem hafa getað notað sér marktaxta RARIK, hafi farið tiltölulega vel út úr húshitun sinni gagnvart t. d, þéttbýlisbúum.

Nú má enginn skilja orð mín þannig, að ég sjái út af fyrir sig eftir þessu. En mér finnst þetta renna stoðum undir það, að RARIK þyrfti að endurskoða margt í töxtum sínum. M. a. vegna þess finnst mér vafasamt að hrapa að þeirri hækkun sem hér er til meðferðar.

Varðandi ýmislegt, sem komið hefur fram í þd. varðandi jöfnun orkutaxta milli staða og jöfnun á orkuverði, endurtek ég að út af fyrir sig er ég fylgjandi nokkurri jöfnun á slíku milli staða. Þó mundi ég aldrei láta mér detta í hug algera jöfnun á því stigi sem mál standa nú. Má t. d. nefna að hitaveitur hafa sums staðar verið reknar mörg ár, en eru annars staðar í byggingu. Mér dytti t. d. aldrei í hug að það væri nokkur jöfnuður í því að algert jöfnunargjald væri milli Reykjavíkur, sem hefur haft hitaveitu lengi af miklum myndarskap, og Akureyrar, þar sem hitaveita er í byggingu. Ég tel að það væri ójöfnuður að ætlast til að þarna væri sett fullkomlega jafnt verð á. Og þegar við erum að ræða um jöfnun, svo að ég taki þetta almennt séð, verðum við alltaf að taka með í reikninginn í sambandi við þá jöfnunarhugsun: Hvað fáum við annars vegar fyrir að búa á þessum stað eða hinum? Það má ekki líta alltaf á peningaverðið eitt. T. d. get ég sagt það, að ég hef undir höndum íbúð hér í Reykjavík, sem kostar að mínu mati hlægilega lítið að hita upp, og aðra íbúð á Akureyri, sem ég var áðan að lýsa hvað kostaði að hita upp en ekki mundi hvarfla að mér að flytja til Reykjavíkur vegna mismunar á upphitunarverði. Það er ýmislegt, sem ég tek fram yfir, við það að búa Akureyri frekar en að búa í Reykjavík, og þannig hygg ég að sé með marga, t. d. til sveita. Þeir gera sér ljóst hvers vegna þeir velji að búa þar, þó að það sé að ýmsu leyti dýrara en að búa í kaupstað eða í höfuðborginni.

Við megum ekki alfarið líta á peningagildið í þessu máli eða öðrum slíkum jöfnunarsamanburði. Við verðum að taka margt inn í þann jöfnunarreikning.

Þetta var útúrdúr. Ég vildi, af því að ég var hvorki hrár né soðinn í fyrri umr., lýsa því afdráttarlaust yfir, að ég mun verða á móti frv.