01.03.1979
Efri deild: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Hannes Baldvinsson:

Herra forseti. Það má segja að umr. um það mál, sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, þ. e. a. s. frv. til 1. um verðjöfnunargjald af raforku, séu orðnar æðilangar, bæði hér á hv. Alþ. og eins víða annars staðar þar sem þessi mál hefur borið á góma. T. d. má benda á að tilefni þess, að ég er staddur hér í ræðustól, er það, að allverulega hefur verið fjallað um þessi mál í bæjarstjórn og rafveitunefnd Siglufjarðar og gerðar þar um það ályktanir, sem sendar hafa verið hingað á hv. Alþ. Það er einmitt í samræmi við þá ályktun, sem bæjarstjórn Siglufjarðar sendi frá sér á fundi sínum í jan., sem ég hef ákveðið að gerast meðflm. með hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni að brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir til umr. Og satt best að segja hefði ég flutt þessa brtt. einn, ef Eyjólfur hefði ekki verið búinn að boða flutning hennar og haft um það frumkvæði.

Það hafa þegar við þennan hluta umr., sem fram hefur farið í dag, komið fram nokkrar aths. við þessa brtt., og ég held að ég verji nokkrum hluta af tíma hv. d. til að fjalla örlítið nánar um þessi mál, ef takast mætti að gera dm. svolítið gleggri grein fyrir þeirri sérstöðu sem býr að baki þessum tillöguflutningi að því er varðar aðild Rafveitu Siglufjarðar. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að þegar verið er að tala um rafveitur verður að gera skýran greinarmun á dreifiveitum og svo aftur rafveitum, sem standa sjálfar í orkuöflunarframkvæmdum, en þannig er einmitt háttað með Rafveitu Siglufjarðar og hefur reyndar verið um langt árabil því að hún er ein af elstu rafveitum á Íslandi. Ég held að hún sé annaðhvort sú elsta eða næstelsta sem enn er starfandi að orkuöflun á eigin vegum. En aldurinn skiptir í þessu tilfelli ekki neinu meginmáli, heldur hvernig starfsemi Rafveitu Siglufjarðar hefur verið á annan veg háttað en margra annarra kannske hliðstæðra fyrirtækja.

Eftir að ráðist hafði verið í virkjun í Fljótum á fimmta áratug þessarar aldar kom fljótlega í ljós, að rafmagn skorti í Ólafsfirði. Var þá lögð háspennulína frá Skeiðsfossvirkjun í Ólafsfjörð. Um þá línu hefur um það árabil, sem liðið er síðan, verið seld raforka til Ólafsfjarðar. Fyrst var það til Rafveitu Ólafsfjarðar, en síðar, eftir að Rafmagnsveitur ríkisins yfirtóku Garðsárvirkjun og dreifiveituna í Ólafsfirði, hefur þessi sala farið fram til Rafmagnsveitna ríkisins. Ekki alllöngu seinna hófst sala á rafmagni til bænda í Fljótum, sem sömuleiðis fer fram á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, þ. e. a. s. dreifingin. Rafmagnsveitur ríkisins hafa því svo til frá upphafi verið stór viðskiptaaðili við Rafveitu Siglufjarðar og þessi viðskipti hafa farið vaxandi ár frá ári. Ég hef fyrir framan mig yfirlit um viðskipti þessi og hversu stórt hlutfall þau hafa verið í rafmagnsframleiðslu og rafmagnssölu hjá Rafveitu Siglufjarðar. S. l. 10 ár hafa þessi viðskipti þrefaldast á sama tíma og heildarframleiðsla á rafmagni á vegum Rafveitu Siglufjarðar hefur tæplega tvöfaldast. Liggur því í augum uppi að þessi viðskipti Rafmagnsveitna ríkisins og Rafveitu Siglufjarðar hafa verið verulega þýðingarmikil og hagkvæm, a. m. k. á tímabili, fyrir báða aðila.

Árið 1963 var tekin ákvörðun um að ráðast í viðbótarvirkjun í Fljótum. Urðu nokkrar deilur á Siglufirði um þá ákvörðun og hversu hagkvæm hún kynni að vera, og þær umr., sem þá fóru fram, mótuðust mjög af þeim anda sem yfirleitt virðist vera ráðandi í sambandi við umr. um raforkumál á Íslandi, því að þar má segja að tilfinningarnar beri skynsemina æðioft ofurliði. Rafveita Siglufjarðar og umr. um hana hafa ekki verið undanþegnar þeirri reglu, en því verður ekki breytt. Það var ráðist í þessa virkjun og hún hefur nú framleitt rafmagn fyrir Siglufjörð og fyrir Rafmagnsveitur ríkisins um nokkurt skeið.

Fjárhagsvandi sá, sem Rafveita Siglufjarðar á við að stríða, er fyrst og fremst til kominn af þessum virkjunarframkvæmdum. Eldri virkjanir í Fljótaá og varaaflsstöðvar, sem settar höfðu verið upp á Siglufirði, sem drifnar eru með dísilorku, voru svo til fullborgaðar þannig að á þeim var enginn skuldabaggi sem umtalsverður var. En nú er svo komið að skuldir, sem fylgt hafa í kjölfar þessara virkjunarframkvæmda, hinnar svokölluðu „neðri virkjunar“, eru að sliga fjárhag Rafveitu Siglufjarðar og munu gera það ef ekkert verður aðhafst til að leysa þann vanda.

Ég vil nota þetta tækifæri sérstaklega til þess að vekja athygli hv. þm. hér í d. á því, að þær virkjunarframkvæmdir á vegum Rafveitu Siglufjarðar, sem ég hef gert að umtalsefni, hafa á síðustu þremur áratugum sparað Rafmagnsveitum ríkisins ómældar fjárhæðir og þær hafa líka gert unnt að fresta á vegum þeirra víðtækum og kostnaðarsömum framkvæmdum við öflun rafmagns á þessu svæði, því að ef Siglufjörður hefði ekki gripið þarna inn í með sínu frumkvæði hefði þetta hlutverk örugglega lent á Rafmagnsveitum ríkisins, og ég er ekki viss um að aðstæður hefðu boðið jafnhagkvæmar aðgerðir og oft hefur verið hægt að nota á Siglufirði.

Þrátt fyrir þessi stóru viðskipti, sem átt hafa sér stað á milli Rafmagnsveitna ríkisins og Rafveitu Siglufjarðar, hefur nú um s. l. 14 eða 15 ár ekki tekist að gera samning við RARIK um rafmagnssölu frá Siglufirði. Hverjar skýringar kunna að vera á því kann ég ekki skil á, en ég veit að um langt árabil var leitað eftir því af hálfu Rafveitu Siglufjarðar að gera um þetta raforkusölusamning, en því hefur verið hafnað af Rafmagnsveitum ríkisins. Þegar kemur að því að ákveða verð á því rafmagni, sem framleitt er og selt til RARIK, er það ákveðið hverju sinni með tilliti til sölu hjá Laxárvirkjun á rafmagni til Rafmagnsveitna ríkisins, en Laxárvirkjun er, eins og menn vafalaust vita; einhver hagkvæmasta virkjun á landinu og getur þar af leiðandi selt raforku til Rafmagnsveitnanna á einhverju lægsta og hagkvæmasta verði sem hægt er að hugsa sér. Þessu til viðbótar hafa svo Rafmagnsveiturnar fallist á að taka þátt í olíukostnaði við framleiðslu á rafmagni með dísilvélum þegar á hefur þurft að halda. Um þessi atriði hefur verið samið hverju sinni. En Rafmagnsveitur ríkisins hafa hins vegar reynst algerlega ófáanlegar til að taka þátt í þeim óumdeilanlega aukna kostnaði sem orðið hefur í sambandi við rafmagnsframleiðslu með tilkomu hinnar nýju virkjunar í Fljótaá, sem ég var að lýsa fyrir ykkur áðan. Hver skýringin á því kann að vera skal ég láta ósagt, en ég sjálfur fæ ekki komið auga á að það sé einhvers annars eðlis að taka þátt í kostnaðaraukningu af því að framleiða rafmagn með dísilorku en að taka þátt í kostnaðaraukningu af því að framleiða rafmagn með vatnsafli.

Þarna hljóta einhver önnur sjónarmið að ráða afstöðu hjá Rafmagnsveitum ríkisins.

Í sambandi við fjárhagsvandamál, sem risið hafa út af þessari nýju virkjun, er hægt að tína æðimargt til sem þar veldur vandanum. En ég vil leyfa mér að benda á eitt atriði sem kannske er þýðingarmikið, að aðalaukningin á sölu á rafmagni á vegum Rafveitu Siglufjarðar er fyrst og fremst á hinum ódýrustu töxtum, þ. á m. til Rafmagnsveitna ríkisins, til húshitunar og til stórnotkunar í sambandi við loðnubræðslur. Allir þessir aðilar og sú raforkunotkun, sem fram fer á vegum þeirra, er í lægstu töxtunum, sem eru notaðir hjá Rafveitu Siglufjarðar, og svo mun reyndar víðast vera annars staðar. Taxtar til húshitunar og til stórnotkunar eru mun lægri en aðrir taxtar. Þessu til sönnunar vil ég leyfa mér að henda hv. þm. á að aukning á raforkunotkun, sem seld er eftir svokölluðum heimilistaxta í Siglufirði, hefur á sama 10 ára tímabili og ég var að skýra frá að viðskipti við Rafmagnsveitur ríkisins hefðu þrefaldast aðeins aukist um 400 þús. kwst., og Rafmagnsveitur ríkisins kaupa nú af Rafveitu Siglufjarðar meira en tvöfalt það magn sem fer til notkunar á heimilistaxta í sjálfum Siglufirði.

Ég hef séð í þingtíðindum, að hæstv. iðnrh. hafi talið að ekki væri ástæða til að ljá fylgi þeim hugmyndum, sem settar hafa verið fram af bæjarstjórn Siglufjarðar og liggja til grundvallar þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, að ekki sé ástæða til að sinna þessum erindagerðum Siglfirðinga vegna þess að taxtar, sem ákveðnir eru af Rafveitu Siglufjarðar, séu ekki hærri en almennt gengur og gerist og álíka háir og hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og á meðan Siglfirðingar hækki ekki þessa taxta sína sé engin von til þess, að þeir geti vænst einhverrar fyrirgreiðslu í sambandi við þann fjárhagsvanda sem þeir eiga við að etja núna. Ég vil leyfa mér að benda á að það er ósköp eðlilegt að menn hugsi sig um oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í því að taka ákvörðun um að leysa fjárhagsvanda Rafveitu Siglufjarðar með því að hækka taxtagjöldin. Ef við færum þá leið værum við, jafnframt því að taka að okkur að leysa vanda Rafveitunnar á Siglufirði, að taka að okkur að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs með hækkuðum söluskatti og að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, því að ekki nema rétt rúmlega helmingur af taxtahækkuninni skilar sér til þess að leysa vanda Rafveitu Siglufjarðar með því fyrirkomulagi og þeirri verðlagningaraðferð sem notuð er nú um rafmagn í landinu.

Ég er ekki í neinum vafa um að ef Siglfirðingar væru þann veg settir að þeir gætu notað og hefðu tryggt að öll sú hækkun, sem yrði á rafmagni hjá þeim, færi í að leysa vanda rafveitunnar, þá mundu þeir athuga það mál vandlega. En það er ákaflega eðlilegt að það mæti andstöðu heima fyrir, að jafnhliða því sem við eigum við þennan stóra vanda að glíma skuli okkur gert skylt, ef við ætlum að leysa hann með því að taka lausnina í hækkuðu raforkuverði, að borga stóran skatt til ríkissjóðs og nú jafnstóran skatt til Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Við förum þess vegna fram á með þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, að opnuð verði leið til að endurgreiða a. m. k. þann hluta í þessu verði sem ætti annars að fara til þess að bjarga við fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins, sem við teljum reyndar að við höfum styrkt með viðskiptum Rafveitu Siglufjarðar og RARIK á undanförnum áratugum, og að það sé hægt að færa fram fullgild rök fyrir því að rafmagn, sem RARIK selur, yrði að selja hærra verði ef ekki hefði verið um viðskipti við Rafveitu Siglufjarðar að ræða á undanförnum árum. Við viljum af þeim sökum ekki taka á okkur stærri bagga en gengur og gerist í þessu landi varðandi það að leysa þennan vanda, eingöngu vegna þess að við eigum sjálfir við vandamál að etja. Við gerum kröfu til þess að hafa a. m. k. möguleika á því að sannfæra sjálfan iðnrh. um það, að við þurfum á aðstoð að halda.

Það felst ekki nein sjálfgefin fjárveiting eða stuðningur í þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, heldur liggur sá vandi eftir sem áður á herðum forráðamanna Siglufjarðarkaupstaðar að sannfæra iðnrh. um að þann vanda verði að leysa með þátttöku í eða aðild Siglufjarðar og Rafveitunnar að verðjöfnunargjaldinu, og þar yrði aldrei um neinn stóran hlut að ræða. Þess vegna er það alger misskilningur, sem kom fram hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari þegar hann varaði við því, að þessi brtt. yrði samþ., vegna þess að þá væri hugmyndin um verðjöfnunargjaldið að glata tilgangi sínum. Þessi fullyrðing er, eins og menn vafalaust sjá þegar þeir velta henni fyrir sér, byggð á algerum misskilningi, því að ég er ekki í neinum vafa um að hæstv. iðnrh. er ekki svo talhlýðinn maður að hann láti einhverja sendinefnd frá Siglufirði telja sér trú um hluti sem ekki eru fyrir hendi.

Því miður hef ég ekki í höndunum tölur til þess að sýna hv. d. fram á raunverulegan fjárhagsvanda Rafveitu Siglufjarðar. En ég get að lokum leyft mér að nefna eitt lítið dæmi. Gengistap og hækkun vegna verðtryggðra lána ásamt tilheyrandi vaxtahækkunum á s. l. ári nema h. u. b. jafnhárri upphæð og brúttótekjur Rafveitu Siglufjarðar það sama ár. Þetta er staðreynd, og ég held að þetta eina atriði ætti að nægja fyrir hv. þingheim til að gera sér grein fyrir því, að þarna er við það stóran vanda að etja og hann verður ekki leystur með gjaldskrárhækkunum eingöngu, heldur verður að koma til velvilji ríkisvaldsins. Með þeirri brtt., sem hér liggur fyrir til afgreiðslu, er aðeins verið að gera tilraun til að opna leið fyrir þann velvilja sem við vonum að sé fyrir hendi.