01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2908 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Mér þykir nú komin upp ný kenning um það, hvernig fara eigi með stjfrv. sem lögð eru fyrir Alþingi. Það er engu líkara en menn telji að sé flutt stjfrv., þá megi ekki breyta því, þá verði allir stuðningsmenn stjórnarinnar undantekningarlaust að fylgja því frv. eins og það er. Menn ættu að kynna sér svolítið betur söguna í þessum efnum, athuga hvað hefur gerst varðandi hliðstæð mál. Auðvitað er ekkert um að villast á þessu tilfelli, að hér er um stjfrv. að ræða, ríkisstj. öll samþykkir að leggja fram frv. Ekki dettur mér til hugar að undanþiggja það á neinn hátt að ráðh. Alþb. hafi samþ. að frv. yrði lagt fram á þessa lund. En vitanlega stendur það opið fyrir hvorri þd. sem er og þinginu sem heild að breyta stjfrv., eins og algengt er.

Kjarni málsins er auðvitað sá í þessu tilfelli eins og öðrum að athuga um hvað þetta mál snýst og um hvað brtt., sem liggur fyrir, fjallar. Hér er um að ræða að koma málum þannig fyrir, að útgerðin í landinu sleppi nokkurn veginn skakkafallalaust frá tiltekinni olíuverðshækkun. Það er gert samkv. 1. gr. í því frv. sem hér fylgir með. En hver segir að það hafi verið einhver nauðsyn í sambandi við þetta mál að bæta svo því við, að gerð skyldi breyting á skiptakjörum ef um útsiglingu væri að ræða? Hvað er það sem kallar á slíkt?

Það var svolítið einkennileg röksemd, sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh.: til þess að halda samræmi á milli. Í fyrsta lagi er ákaflega vafasamt að tala um að eitthvert samræmi sé á milli launakjara hjá okkur núna í sambandi við útsiglingar og heimalandanir. Í annan stað er augljóst að samræmið er þannig, að samkv. 1. gr. er ekki ætlast til að sjómennirnir leggi af sínum hluta einn einasta eyri í þessa millifærslu. Það er efni 1. gr. Það á að hækka fiskverðið um 2.5% til þess að útgerðarmenn fái borið uppi hækkandi olíuverð og sjómennirnir fallast á að þeir eigi ekki að fá aflahlut úr þessari sérstöku fiskverðshækkun sem verður til með þessum hætti. Samkv. 1. gr. frv. eru því sjómennirnir gersamlega á því stigi sem þeir höfðu samið um í sínum kjarasamningum. En svo kemur 2. gr. frv. og þar er hreinlega um það að ræða, að farið er fram á það við sjómennina að þeir fórni nokkru af aflahlut sínum til þess að greiða útgerðarmanninum umfram það sem er í samningnum, vegna þess að hann verði fyrir hækkandi olíuverði. Ef menn hefðu viljað hafa samræmi í þessu, hvers vegna voru þá ekki sjómennirnir einnig látnir leggja fram tilsvarandi hluta af kaupi sínu þegar þeir landa innanlands? Af hverju bara þegar þeir landa erlendis? Af hverju var ekki samræmið þannig, að þeir væru látnir taka þátt í auknum olíukostnaði er þeir lönduðu innanlands? Vitanlega kallar ekkert á það að samþykkja þurfi þetta frv. nákvæmlega í þeim búningi sem það kemur í frá ríkisstj. Það liggur líka fyrir, að forustumenn sjómanna mótmæla þessu, sem eðlilegt er, og málin liggja nú einnig þannig fyrir, að t. d. hv. þm. Sverrir Hermannsson, sem oft er kallaður hér útgerðarmaður og tekur þátt í útgerð, segir fyrir sitt leyti: Ég er á móti því að vera að ákveða með lögum að taka þetta af hlut sjómannanna og færa það yfir til útgerðarinnar. — Honum er ljóst að hér er ekki um stórt atriði að ræða og hann telur ástæðulaust að efna til deilna út af þessu. Hitt er rétt, að forustumaður í Landssambandi ísl. útvegsmanna, formaður þess, hefur lagt áherslu á að reyna að ná þessari breytingu á gildandi kjarasamningum fram. En hvaða nauðsyn er að samþykkja þessa beiðni hans?

Ég fyrir mitt leyti neita því algerlega sem stuðningsmaður ríkisstj., að ég sé skyldugur til þess að samþykkja öll frv., sem koma frá ríkisstj., án allra breytinga. Ég vil standa með því sem felst í þessum frv. til þess að ná þeim árangri sem þar er um að ræða. En þegar árangrinum hefur verið náð er ástæðulaust að bæta inn í frv. aukaákvæði aðeins til þess að koma á einhverjum ýfingum á milli útgerðarmanna og sjómanna. Ég læt mér í léttu rúmi liggja þó að einstakir þm. úr Alþfl. tali um það sem óábyrga afstöðu hjá mér að ég flytji till. til breytinga á þennan hátt. En hitt ætla ég að segja: Það er óábyrg afstaða hjá þm. Alþfl., sem vilja standa að því að efna til deilna á milli sjómanna og útgerðarmanna í þessu tilfelli að ástæðulausu. Það er algerlega að ástæðulausu. (Gripið fram í: Hvað með ráðh. Alþb.? Er þetta afstaða Alþb.?) Ég var að enda við að segja að þeir hefðu eflaust samþykkt í ríkisstj. að málið yrði lagt fyrir. Það breytir ekki afstöðu minni. (Gripið fram í: Hver er afstaða þingflokksins?) Ja, það kemur eflaust í ljós við atkvgr. Málum er nú ekki þannig hagað hjá okkur að bera þurfi upp hverja einustu till. í þingflokknum, enda ekki aðstaða til þess að halda þingflokksfundi um allar till. sem eru lagðar fram, t. d. í þessu tilfelli. (Gripið fram í.) Hvaða ósköp eru mennirnir viðkvæmir og aumir! Þola þeir ekki að heyra þann sannleika sem er verið að segja þeim?

Mönnum kemur á óvart, sagði hæstv. sjútvrh., að fram skuli koma brtt. við frv. Það er þá eingöngu vegna þess að hann hefur ekki kynnt sér hvernig vinnubrögð eru almennt í sambandi við stjfrv. Auðvitað eru þm. ekki skyldugir til að samþykkja stjfrv. með ágöllum, ef ágallar eru á þeim.

Það er enginn vafi á því, að það er alger skilsmunur á efni 1. gr. og 2. gr., og ég satt að segja lýsi furðu minni á því, að hæstv. sjútvrh. skuli ætla að gera samanhurð á þessum tveimur greinum. Hann segir t. d. í máli sínu, að auðvitað sé það brot á kjarasamningum sjómanna að þeir skuli ekki fá aflahlut úr því 2. 5% hækkaða fiskverði sem felst í 1. gr. Þetta er auðvitað alveg rangt hjá honum. Fiskverðið er ákveðið í Verðlagsráði sjávarútvegsins og sérstakir samningar eru um það. Þar er búið að ákveða það grundvallatverð sem hlutaskiptin eiga að byggjast á. Ef gerðar eru sérstakar ráðstafanir til þess að færa fjármagn til, þó að það sé í formi fiskverðs, á þann hátt sem gert er í þessum frv., þá hefði verið óeðlilegt að aflahlutur sjómanna hefði hækkað bara vegna þess að það var verið að koma tiltekinni fjárhæð yfir til útgerðarinnar með millifærslu.

Forustumenn sjómanna viðurkenndu strax að þeir ætluðu sér ekki að fara að hengja sig aftan í það, að ástæða væri til þess að þeir fengju aflahlut úr þeirri millifærslu í gegnum fiskverðið sem felst í 1. gr. frv. En augljóst er að 2. gr. frv. felur í sér beina kjaraskerðingu, hún felur í sér beina skerðingu á gerðum samningum milli útgerðarmanna og sjómanna, og það er þarflaust með öllu eða hefur a. m. k. ekki verið upplýst fyrir mér enn þá að grundvallaratriði sé að knýja slíkt fram í leiðinni. Og eins og ég hef sagt áður, þá tel ég einnig að það sé hreinlega til hins verra að hafa í frv. ákvæði 2. gr., því að það ýtir fremur undir að útgerðarmenn sigli með afla á erlendan markað þegar þeir fá ákveðinn hluta af olíuverðshækkuninni greiddan af hálfu sjómanna eftir ákvæðum 2. gr. frv.

Hér var sagt eins og stundum er gert þegar þessi mál eru rædd: Það eru sjómennirnir engu síður en útgerðarmenn sem ráða því eða þrýsta á um það að siglt sé með aflann á erlendan markað. Auðvitað vita allir að útgerðin ræður því, hvort siglt er eða ekki, ekki hinn almenni sjómaður. Hann getur engu ráðið um það og allra síst við þær aðstæður, sem við höfum búið við í útgerðarmálum nú. Þegar mestallur fiskurinn gengur til löndunar innanlands og það tilheyrir undantekningum að sigla með aflann á erlendan markað, þá er auðvitað víðs fjarri að sjómaðurinn ráði einhverju um það, hvort siglt er eða ekki.

En ég vildi sérstaklega undirstrika í þessum efnum, að ég dreg ekki í efa á neinn hátt að ráðh. Alþb. hafi í ríkisstj. samþykkt að þetta frv. yrði flutt, og þeir bera ábyrgð á því eflaust, eins og hæstv. sjútvrh., að frv. er flutt í þessum búningi. En spurningin er ekki um það. Spurningin er um hitt: Hvað er það sem rekur á eftir því að þurfa að hafa 2. gr. í þessu frv. eins og hún er? Ég sé ekki að það sé nein ástæða til þess.

Að sjálfsögðu hafa stuðningsmenn ríkisstj. fullan rétt til þess, sbr. margfalda hefð í öllum ríkisstjórnum, að standa að því að frv. sé breytt. Það hefði auðvitað verið miklu stærra mál ef hér hefði verið um að ræða að brtt. flutt við frv, hefði gjörbreytt efni frv. sem hér var um að ræða, þannig að ekki hefði náðst sá tilgangur sem vakti fyrir ríkisstj. með flutningi málsins. Hér er ekki um það að ræða. (Gripið fram í: Er Alþb. klofið í málinu?) Það á eftir að koma í ljós. Vissulega getur komið til mála að menn greiði þar misjafnlega atkv. En hv. þm. ætti að skoða hug sinn um það: Hefur hann enga efnislega afstöðu til málsins? Ætlar hann bara að samþykkja frv. vegna þess að ríkisstj. hefur lagt það til? Nær sjálfstæði hans ekki lengra en það, að ef ríkisstj. hefur komið sér saman um eitthvað, jafnvel þó að það sé óréttlátt og ranglega að máli staðið, hafi hann enga skoðun í málinu, hann geti ekki farið eftir eigin skoðunum. Til hvers ætlar hann að styðja þetta? Við flm. þessarar till. höfum ákveðna skoðun á því, hvað sé fyrir bestu í þessum efnum. Við viljum ná því markmiði, sem að var stefnt, án þess að efna til úlfúðar eða árekstra að ástæðulausu.