01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2913 í B-deild Alþingistíðinda. (2302)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Meginefni þessa frv. er í 1. gr. þess og virðast menn vera nokkuð sammála um að fallast á hana. Ágreiningur er um 2. gr., um að frá söluverði fiskiskipa í erlendri höfn skuli draga 1% olíugjald sem renni til útgerðar og dragist frá heildarsöluverðmæti. Ég vil taka það fram, að ég fellst á þær röksemdir, sem þeir hv. 1. og hv. 5 þm. Austurl. hafa flutt í þessu efni, að ekki sé ástæða til að samþykkja þessa grein. Það liggur einnig fyrir í grg. að fulltrúar sjómanna andmæla þessu ákvæði. Ég vil bæta því við, að þegar málið var til meðferðar í hv. Ed. í gær skrifuðu sjálfstæðismennirnir tveir í sjútvn. Ed. undir nál. með fyrirvara. Í þeim fyrirvara fólust m. a. aths. við þessa grein og að þeir ættu erfitt með að fella sig við það ákvæði.

En aðalástæðan til þess að ég kveð mér hljóðs hér er yfirlýsing hæstv. viðskrh., sem ég tel til stórtíðinda. Hann telur að vísu að fulltrúar sjómanná hafi eitthvað verið að mótmæla, en með mismunandi áherslum, en hæstv. viðskrh., sem hingað til hefur látið þannig, að löggjöf og stjórnarafhafnir ættu ekki að ganga gegn vilja verkalýðssamtakanna, lýsir því nú yfir, að út af fyrir sig hafi sjómenn andmælt þessu, en það hafi ekki komið fram kröftug mótmæli. Þess vegna getur hann fallist á að ganga gegn vilja sjómanna, þar sem þetta séu aðeins andmæli, en ekki kröftug andmæli. Og nú vil ég spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað þarf þessi kraftbirtingarhljómur að vera sterkur til þess að tekið sé mark á honum? Ég held að það sé rétt að verkalýðssamtökin í landinu viti að hæstv. viðskrh. telur nú, gagnstætt því sem áður hefur verið, að það sé ekki nægilegt fyrir stéttarfélögin að mótmæla, heldur þurfi þau að mótmæla kröftuglega. Þess vegna hljóta þau náttúrlega að spyrja eins og við alþm.: Hvað þarf krafturinn að vera mikill í andmælunum til þess að hæstv, viðskrh. taki mark á verkalýðsfélögunum? Og í öðru lagi: Hver í ríkisstj, og þingmeirihl. á að meta styrkleikann í andmælunum?