01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (2308)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég get haft stutta framsögu fyrir nál. á þskj. 413 frá okkur hv. 1. þm. Vestf. og get látið mér nægja að vísa til ítarlegrar ræðu sem hann flutti um viðhorf okkar til þessa máls við 1. umr. málsins. Það er ekki svo að skilja að við metum ekki mikils þær aðgerðir, sem nú er lagt til að gerðar verði til þess að rétta hlut útgerðar vegna hinna miklu olíuverðshækkana sem nú hafa orðið. Hitt er annað mál, að með þessum aðgerðum teljum við að aðeins sé stutt skref stigið, að eftir sé að ríkisstj. taki ákvörðun um með hvaða hætti hún ætlar að lina á hinni miklu innheimtu í ríkissjóð af bensíni og olíu, sem fer auðvitað stighækkandi eftir því sem olía hækkar.

Þetta mál hefur verið rætt hér og ég minnist þess að hafa heyrt fjmrh. lýsa yfir að ekki væri ætlunin að ríkissjóður græddi fé á þessari olíuverðshækkun. En það eru fleiri en ríkissjóður þannig settir að þeir græða þeim mun meira fé sem olíuverð hækka. Þannig er um olíufélögin sjálf. Um þetta hefur verið rætt hér, og einnig gefst tækifæri til þess að ræða það síðar, því að fljótlega hljóta að koma á dagskrá fsp. um verðmyndunarþætti á olíu og á bensíni sem ég hef flutt fyrir löngu í Sþ. En það liggur ljóst fyrir, að verðmyndunarþættir á olíu eru einir 20 og þar eru margir undarlegir hlutir á ferli, t. a. m. að olíufélögin skuli hafa til þess heimild að leggja á fyrir landsútsvari og er næsta fágætt. Ég ætla ekki að ræða hér alla þá furðulegu þætti, en það liggur sem sagt ljóst fyrir, að þeim mun meira fjárstreymi er í ríkiskassann sem þessar lífsnauðsynlegu vörur hækka í verði. Það er höfuðatriði og snýr ekki, eins og ég hef áður tekið fram, einvörðungu að útgerðinni. Það þarf ekki síður, og þó miklu fremur, að hugsa fyrir þeim sem hita hús sín með olíukyndingu. Ég er hræddur um að þessar miklu olíuverðshækkanir verði þungur baggi á mörgu heimili, og við væntum þess fastlega að innan tíðar sjái aðgerðir til úrbóta dagsins ljós af hálfu hæstv. ríkisstj.

Eins og fram kemur í nál. treystum við okkur ekki til að fylgja þessu frv. til l. um breyt. á l. um útflutningsgjald af sjávarafurðum á þskj. 394. Aðalástæðan fyrir því er sú, að þarna verður hinn lífsnauðsynlegi aðallánasjóður útvegsins fyrir skakkafalli. Þetta stingur mjög í stúf við þær till. og ráðagerðir sem fram hafa verið fluttar af hálfu hæstv. ríkisstj. og lesa má um í lánsfjáráætlun sem nú hefur veríð lögð fram. Þar hafa fjárframlög og lánsfjárheimildir til handa Fiskveiðasjóði hækkað gífurlega frá síðasta ári. Ég ætla ekki að draga í efa að það séu allt saman nauðsynlegar till. sem þar eru færðar fram, en eiginfjárstaða Fiskveiðasjóðs hefur hríðversnað og alveg sérstaklega á síðasta ári. Vegna sjálfvirkni í lánareglum henti hann það slys að lána um 1000 millj. kr. umfram útlánagetu sína á s. l. ári, og staða Fiskveiðasjóðs er ákaflega alvarleg, sérstaklega eiginfjárstaðan. Það vill svo til, að með þessari tillögugerð og verði þetta frv. að lögum skerðist framlag til hans tölulega, eins og hér stendur, um 416 millj., en vegna reglunnar um greiðslur til Fiskveiðasjóðs yrði það sem næst 312 millj. kr. sem beint fjárframlag mundi skerðast um. Þarna er ekki verið að tala um að ræna Fiskveiðasjóð útlánsmöguleikum einvörðungu, heldur verið að skerða eiginfjárstöðu hans, sem er miklu alvarlega en hitt. Þó er alveg nauðsynlegt að okkar dómi að Fiskveiðasjóður fái til ráðstöfunar það fé sem honum hefur verið ætlað samkv. lánsfjáráætlun, og enda þótt við höfum ekki till. í frammi um það treystum við því að hæstv. ríkisstj. sjái svo um.

Þetta er aðalástæðan fyrir því, að við treystum okkur ekki til að ljá þessu frv. fylgi okkar, og svo á hinn bóginn, þó að við metum þetta að vísu mikils, bíðum við eftir því að miklu stórtækari og alvarlegri ráðstafanir verði gerðar varðandi og vegna hinna miklu olíuverðshækkana sem nú hafa dunið yfir.