31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (231)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði aðeins til að þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikla vandamáli okkar. Það er vitað mál, að áfengisdrykkja er eitt mesta félagslega vandamál okkar Íslendinga. Hins vegar er því ekki að leyna, að orðið hefur ánægjuleg breyting núna á síðustu árum á þann hátt, að nú eru áfengissjúklingar ekki taldir lengur vottlausir og ólæknandi. Þegar ég var að basla við að læra læknisfræði, þá var því slegið föstu að kannski lukkaðist að lækna í mesta lagi 4–5% af þeim áfengissjúklingum sem reynt væri að lækna. Nú er þetta breytt í svo ríkum mæli, að talið er að allt að 50% af þeim, sem teknir eru til meðferðar, nái fullri heilsu aftur.

Einnig hefur verið vakin athygli á því, sem rétt er að segja frá hér, að tvær þjóðir, sem drekka nokkurn veginn jafnmikið af víni, þ.e.a.s. Frakkar og Ítalir, eru taldar mjög misjafnlega á vegi staddar varðandi alkóhólisma. Þeir, sem kunnugir eru, telja að það byggist á því, að í öðru landinu er í raun og veru talið sjálfsagt að menn séu fullir og ekkert við það að athuga, en í hinu landinu er það svo, að ef einhver verður fullur, þá reyna ættingjar hans eða jafnvel hann sjálfur að fara mjög leynt með það og láta lítið á því bera. Þetta er talið hafa þau áhrif, að menn gæti sín miklu frekar og verði síður alkóhólistar. Því vek ég athygli á þessu hér, að það er ekki vafi á að almenningsálitið hefur mjög mikla þýðingu fyrir baráttu gegn drykkjuskap.