01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2919 í B-deild Alþingistíðinda. (2312)

203. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil fagna þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. sjútvrh. gaf hér áðan varðandi það, að hann muni vinna að og beita sér fyrir því, að Fiskveiðasjóður fái svipaða upphæð og hann kemur til með að tapa við samþykkt þessa frv. Og ég vil fagna þeirri yfirlýsingu hv. 1. þm. Austurl., að hann muni beita sér fyrir því sama, þó að mér sé ljóst að þeir fjármunir séu auðvitað með allt öðrum hætti. Það er ætlað að taka lán með fremur óhagstæðum kjörum, og sennilega erlent lán. En það verður þó til þess, að ráðstöfunarfé sjóðsins til lána á þessu ári rýrnar ekki frá upprunalegri hugmynd.

Þær eru táknrænar um samstarf og samvinnu og elskulegheit á 6 mánaða afmæli ríkisstj., þær umr. sem hafa farið hér fram í dag. Hér hefur verið hnakkrifist um tiltölulega ákaflega ómerkilega hluti og lítilfjörlega. Formaður sjútvn. og jafnframt formaður þingflokks Alþfl. taldi að hér hefði verið stofnað til þúsund ára ríkis með myndun þessarar ríkisstj., svo það á eftir að standa í 999 ár og 6 mánuði, ef spádómur hans verður að veruleika. Ég er hræddur um að sumir verði orðnir þreyttir þá.

Ég ætla ekkert að blanda mér í það, að stofnuð hafi verið Möðruvallahreyfing í Alþb. Framsfl. átti á sínum tíma þann þunga kross sem hann þurfti að bera með hinni svokölluðu Möðruvallahreyfingu. Þetta finnst mér vera einkamál stjórnarflokkanna sem við eigum ekkert að vera að skipta okkur af. En það er rétt hjá Vilmundi Gylfasyni — alveg hárrétt, að hann hefur lyft hendi sinni í hvert skipti sem ríkisstj. hefur þurft á að halda, þó að það hafi verið honum oft ærið þungbært eins og hann sagði sjálfur. Hann hefur talað hér á móti miklu fleiri stjfrv. en hann hefur talað með, en alltaf að lokum lyft hendinni með þeim. Þetta et óskaplegt álag á ungan mann og hann er vafalaust orðinn töluvert þreyttur og þá sérstaklega í handleggjunum, — ég hef ekki orðið var við þreytu í talandanum.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð miklu fleiri, því að hæstv. sjútvrh. lagði töluverða áherslu á að þessi frv. yrðu orðin að lögum 1. mars. Nú eru senn ekki nema tveir og hálfur tími eftir af 1. mars, og ef brtt. verður samþ. er eftir að halda fund í Ed. um málið. Ef verður komið fram yfir 1. mars verður aftur að breyta 1. mars í 2. mars og frv. að fara aftur til Nd., og ég ætla ekki að standa að því. En ég vil þó að lokum segja það við mína elskulegu vini á stjórnarheimilinu að slíðra nú sverðin í tvo og hálfan tíma og reyna að koma þessum stjfrv. áleiðis svo þau verði að lögum og það geti farið fram atkvgr. sem allra fyrst, þannig að menn geti einu sinni enn lyft sinni hendi til þess að framkvæma sína þungu skyldu við núv. hæstv. ríkisstj. Ég ætla ekkert að tala um hvort hún á langt eftir ólifað eða ekki, en hvort sem er þá verður þetta ekkert líf hjá þessari blessaðri ríkisstj.