31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Alhert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil fagna þeim umr., sem orðið hafa um fsp. frá hv, þm. Braga Níelssyni um áfengismál og varnir gegn þeim. Ég vil benda á að þeir áfengissjúklingar, sem vistaðir hafa verið erlendis, hafa stofnað með sér samtök, eins og allir vita, en það vita kannske ekki allir að þau sambönd, sem hafa skapast á milli þessa fólks, hafa orðið til þess að hjálpa öðrum en þeim sem hafa farið til vistunar erlendis, og eins hjálpar þetta fólk hvert öðru til þess að forðast áfram þann vítahring sem margt af þessu fólki var í áður en það fór til meðhöndlunar. Þessi starfsemi er ekki rekin af opinberum aðilum, sjúkrastofnunum eða öðrum stofnunum, og ekki er hægt að reka þessa sjálfboðaliðsstarfsemi á annan hátt en gert er. Saman er þetta fólk því öryggi hvert fyrir annað til varnar gegn þeim falda eldi sem býr í brjósti hvers einasta manns sem orðið hefur áfengissjúklingur. Hér er ég ekki að tala af annarri reynslu en af samskiptum mínum við þetta fólk sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Ég held að það sé til fyrirmyndar — algerlega til fyrirmyndar — hvernig forfallnir drykkjumenn, sem hafa verið á strætum Reykjavíkurborgar árum saman, hafa komist til heilsu aftur og gert það að köllun sinni að hjálpa félögum sínum sem hafa orðið fyrir sama óláni í lífinu og þeir sjálfir. Hér er ég að tala um marga sem hafa verið félagar mínir frá barnæsku á götum Reykjavíkurborgar. Því veit ég að það er verðugt verkefni fyrir Alþ. og fyrir ráðamenn hvar sem er, hvort sem er í sveitarstjórnum eða landsmálum, að standa við bakið á því sjálfboðaliðsstarfi sem nú á sér stað. Það hefur sýnt sig, að það ber mörgum sinnum betri árangur en þær opinberu stofnanir sem hafa reynt að leysa þessi sömu vandamál. Þetta viðurkenna allir sem einhvern tíma hafa komið nálægt þessu vandamáli.

En ég kom fyrst og fremst upp í ræðustólinn til þess að mótmæla ummælum hv. 4. þm. Reykn. Ég hélt að mér hefði misheyrst, en það var víst ekki. Hann lét þau orð falla, og hlýtur að tala þar af einhverri reynslu, að áfengisvandamálið væri afskaplega mikið í tveimur löndum sem ég hef búið langtímum í, annars vegar í Frakklandi og hins vegar á Ítalíu, og taldi að í öðru landinu væri talið sjálfsagt, að menn væru fullir. Ég vil ekki láta því ómótmælt hér á hv. Alþingi Íslendinga. Ég vil fullvissa þennan samflokksmann minn um það, að mín reynsla er sú eftir 7 ára dvöl í Frakklandi og náið samband við Frakkland síðustu 20 árin, má segja, eftir að ég flutti þaðan, að þetta sé alrangt. Ég þekki ekkert land í veröldinni og hef aldrei heyrt talað um neinn þjóðflokk sem telur eðlilegt að menn séu fullir allan tímann, eins og mér skildist á hv. þm. Þessum ummælum er hér með mótmælt. Bæði löndin, Frakkland og Ítalía, eru lönd sem við Íslendingar ætlum að taka okkur til fyrirmyndar á mörgum sviðum.