06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2361)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Till. þessari mun verða vísað til utanrmn., eins og hæstv. utanrrh. tók fram, svo ekki er þörf á langri ræðu á þessu stigi mála. Hæstv. utanrrh. gat þess, að n. mundi kynna sér öll atriði sem þetta varða, og ég leyfi mér þá að vekja athygli á því, hvort ekki væri þarflegt að utanrmn. tæki sér einhvern tímann ferð á hendur suður á Keflavíkurflugvöll og liti á allar aðstæður. Ég segi fyrir mig, ég kem þar aldrei nema þegar ég er að fara utan eða koma heim aftur. Og ég hygg að við fulltrúar í utanrmn. vitum í sjálfu sér sáralítið um þann stað eða hvað þar fer fram.

Till. þessi gerir ráð fyrir lagasetningu er banni að geyma hvers konar kjarnorkuvopn hér á landi, sigla með þau eða fljúga með þau eða flytja þau með öðrum hætti um íslenskt yfirráðasvæði. Í grg. gerir flm. ráð fyrir því, að enda þótt skoðanir séu skiptar um réttmæti erlendra herstöðva hér á landi, muni þó allir Íslendingar sammála um að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Skal einnig út frá gengið að sú sé almenn afstaða landsmanna, eða eins og hv. frsm. tók til orða: Stefna allra stjórnmálaflokka er að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn.

Fyrst skal að því vikið, hvort ætla megi að sérstök löggjöf treysti hag okkar og aðstöðu að þessu leyti umfram þau samningsákvæði sem í gildi eru og snerta þessi mál og hér hefur þegar verið að vikið. Í því efni verður fyrst fyrir að benda á 3. gr. varnarsamningsins svokallaða, en hann hefur að sjálfsögðu lagagildi hér á landi, birtist í Stjórnartíðindum árið 1951, þ. e. a. s. auglýsing um varnarsamning milli Íslands og Bandaríkjanna á grundvelli Norður-Atlantshafssamningsins. Þar segir svo í 3. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Það skal vera háð samþykki Íslands, hverrar þjóðar menn eru í varnarliðinu, svo og með hverjum hætti það tekur við og hagnýtir þá aðstöðu á Íslandi, sem veitt er með samningi þessum.“

Þessi grein hefur ávallt verið skilin svo að Íslendingar hefðu þessa hluti í hendi sér að svo miklu leyti sem unnt er. Einnig gerði hæstv. utanrrh. nokkra grein fyrir samningi um bann við dreifingu kjarnorkuvopna, en sá samningur er frá 23. okt. 1969 og hefur einnig lagagildi hér á landi. Í 2. gr. hans segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Sérhvert kjarnavopnalaust ríki, sem er samningsaðili, skuldbindur sig til að taka ekki við frá neinum afhendingaraðila, hverjum sem er, hvorki beinlínis né óbeinlínis, kjarnavopnum eða öðrum kjarnasprengjutækjum eða yfirráðum yfir slíkum vopnum eða sprengjutækjum: að framleiða ekki eða útvega sér með öðrum hætti kjarnavopn eða önnur kjarnasprengjutæki; og að leita ekki eftir eða fá nokkra aðstoð við framleiðslu kjarnavopna eða annarra kjarnasprengjutækja.“

Því hefur verið slegið föstu og hvarvetna út frá því gengið, að ég ætla að Norðurlönd öll séu kjarnorkuvopnalaust svæði. Á því byggist eitt og annað í varnarkerfi þeirra og umr. um það, eins og t. d. hin svonefnda Kekkonen-áætlun. Hitt er svo annað mál, og má aðeins víkja að því, hvort þeim ríkjum, sem á annað borð hugsa eitthvað um landvarnir, þyki henta að ræða mikið um það opinberlega í hverju varnir þeirra séu fólgnar. Ég býst við því, að okkur sé flestum svo farið að ef við værum ákveðin í því að reyna að verjast einhverri meintri árás, hvort sem um væri að ræða einstaklinga eða þjóðina, dytti okkur síðast í hug að útskýra nákvæmlega fyrir meintum árásaraðila á hvern hátt við hefðum ákveðið að verja hendur okkar. Flestir mundu telja það harla óhyggilegt.

Það mætti auðvitað nefna eitt og annað í þessu sambandi, svo sem Saltviðræður þær, sem fram hafa farið og ég ætla að séu í þann veginn að bera einhvern árangur, a. m. k. verður að binda nokkrar vonir við að svo sé.

Ég er alveg sammála hv. flm. um það, að ef þurfa þætti að setja slíka löggjöf sem hér er vikið að, ofan á þau samningsákvæði sem lagagildi hafa og nefnd hafa verið, yrði jafnframt að tryggja að hún yrði ekki bara dauður bókstafur, verri en engin. Hvernig á að tryggja það? Það er nefnt í niðurlagi grg., að það yrði að koma á eftirliti Íslendinga sjálfra til þess að tryggja að slík löggjöf yrði virt meðan erlendur her og erlendar herstöðvar eru í landinu. Slíkt eftirlit þurfa að annast sérmenntaðir menn, segir þar, sem hefðu í því skyni allan nauðsynlegan aðgang að herstöðinni.

Það er alveg rétt, að komið hafa fram um það raddir af og til hér á landi að setja þurfi á fót einhvern hóp sérmenntaðra manna sem gæti gert sér grein fyrir þessum málum. Sumir hafa jafnvel nefnt að stofna þyrfti innlendan her. Það hefur verið nefnt oftar en einu sinni. En hvað sem um það er að segja er ljóst að lítið þýddi að hafa eftirlit Íslendinga með þessum málum án þess að þar væri um sérmenntaða og nokkuð herfróða menn að ræða. Að því vék frsm. raunar í máli sínu.

Vitanlega erum við Íslendingar ekki hernaðarlega sinnaðir — friðsöm þjóð frá aldaöðli, sem hefur jafnvel allt að því forðast að ræða utanríkismál, hvað þá heldur hermál. Ég kannast við það af reynslunni. Við höfum tekið þátt í samstarfi Þingmannasambands Atlantshafsríkjanna, en það er þingmannasamband sem byggt er upp með venjulegum hætti. Á þess vegum starfa nokkrar aðalnefndir. Ein þeirra nefnda er hin svokallaða hermálanefnd. Ég ætla að íslenskir fulltrúar á þeim fundum hafi naumast litið inn í það herbergi þar sem aðalstöðvar þessarar hermálanefndar eru, svo fjarlægir erum við því að vilja ræða eða setja okkur inn í þessi mál. En vel má vera að þetta sé ekki rétt. Við hefðum e. t. v. átt að gera meira að því, eins og vikið er að í grg., að búa okkur undir það að geta a. m. k. fylgst með hernaðarmálum að einhverju leyti. (StJ: Jón Sólnes á sæti í hernaðarnefnd.) Hann hefur einhvern tíma komið á þessa fundi. Ekki veit ég hvort hann hefur beinlínis gengið á fund þeirrar nefndar að vísu. — Það er deginum ljósara að við Íslendingar höfum ekki vanist vopnaburði um margar aldir og erum þeim málum algerlega afhuga. Geta má þess, að bann við dauðarefsingu var sett í lög hér, að vísu ekki fyrr en með lögum nr. 51/1928. Það voru lög um breytingu á hegningarlögum frá 1869. En þá hafði aftaka ekki farið fram í næstum því 100 ár.

Við erum óvanir vopnaburði. Hér við land hefur ekki verið háð nema ein sjóorrusta sem nokkuð bragð er að: Flóabardagi árið 1244. Tveimur árum seinna var raunar háð hér á landi mannskæðasta orrusta í Íslandssögunni: Haugsnesbardagi í Skagafirði, 19. apríl 1246, að ég ætla. En hinu megum við ekki gleyma, að stjórnaskráin minnir okkur á, í 75. gr., að sérhver vopnfær maður er skyldur að taka sjálfur þátt í vörn landsins eftir því sem nákvæmar kann að verða fyrir mælt með lögum. Kannske yrði nánar að því vikið í væntanlegri lagasetningu sem hér er gert ráð fyrir.

Svo er að lokum rétt að minnast á samstarfsyfirlýsingu núv. ríkisstj. V. kaflinn eða 5. greinin í því samkomulagi fjallar einmitt um að sett skuli á fót nefnd um athugun á öryggismálum — nefnd allra þingflokka. Þar er m. a. gert ráð fyrir því, að sú nefnd geri ítarlega úttekt á öryggismálum þjóðarinnar, stöðu landsins í heimsátökum, valkostum öryggisstefnu, núverandi skipan öryggismála, áhrifum á íslenskt þjóðlíf svo og framtíð herstöðvanna eftir að herliðið fer og varnir gegn hópum hryðjuverkamanna.

Það er ágætt að núv. hæstv. ríkisstj. virðist ætla að taka þessi mál til rækilegrar athugunar. Væri ekki úr vegi að þessi nefnd, sem ég held að sé nú fullskipuð, liti m. a. á þá till. sem hér liggur frammi. En um allt þetta gefst væntanlega tækifæri til að ræða nánar á seinna stigi málsins.