06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2985 í B-deild Alþingistíðinda. (2364)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég er hingað kominn til þess að lýsa stuðningi mínum við þessa till. Ég tel að þetta sé sjálfsagt mál. Það kann m. a. s. að vera svo sjálfsagt að hér séu ekki kjarnorkuvopn, að ástæðulaust sé að álykta um það. Ég er þess reyndar fullviss, hvaða afstöðu sem menn hafa til veru Bandaríkjahers á Íslandi, að allur þorri Íslendinga óskar ekki eftir því að hér sé kjarnorkustöð. Við tökum að mínum dómi ægilega áhættu Íslendingar af veru Bandaríkjahers hér á landi, en það er önnur saga.

Hæstv. utanrrh. stendur í þeirri meiningu, að ekki séu kjarnorkuvopn í Keflavík, og hann er sæll í sinni trú. Ég vildi gjarnan geta deilt þessari fullvissu með honum. En getgátur sitt á hvað um það efni eru ekki til þess fallnar að fullvissa mann um eitt eða neitt. Þó ekki væru geymd kjarnorkuvopn í Keflavík tekur þessi tillgr. út yfir það að sigla með þau eða fljúga um íslenskt yfirráðasvæði, og sá þáttur málsins er kannske ekkert síður mikilvægur, þó á því sé erfiðara að festa hönd.

Starf hv. utanrmn. hefur borið nokkuð á góma. Ég er þeirrar skoðunar, eins og reyndar hefur sannast í umr., að hv. utanrmn.-menn séu fremur hugsjónafræðingar en herfræðingar. Þeir eru, sem betur fer, fremur friðarhöfðingjar en herkonungar.

Okkur er nauðsyn þess að fá trúverðuga Íslendinga til þess að kynna sér málefni eins og þetta. Ég vil árétta ummæli hv. fyrrv. utanrrh., sem hann var að hafa yfir rétt áðan, um nauðsyn þess. Öryggismálanefnd sú, sem ríkisstj. hefur sett á fót, er skref í rétta átt.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson talaði um að hér væru menn að forðast að ræða utanríkismál. Ég er ekki sammála því. Ég held að það hafi ekki alltaf verið svo. Ég hygg að með því að rekja alþingistíðindi nokkuð aftur í tímann komist menn að raun um að hér hafa orðið á stundum miklar umr. um utanríkismál, t. d. um þann þátt utanríkismála sem lýtur að landhelgismálum o. s. frv. En e. t. v. er það þó svo, að einhverjir hér inni fyrirverði sig fyrir að ræða einhverja þætti utanríkismála og reyni að hliðra sér hjá því.

Ég vona að utanrmn. sjái sér fært að afgreiða þetta mál fljótt og vel. Hæstv. utanrrh. vísaði réttilega til skuldbindinga sem við höfum tekið á okkur vegna aðildar að alþjóðlegum samningi um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna. Það er að vísu rétt svo langt sem það nær. Það er hugsanlegt líka, að við eignumst einhvern tíma utanrrh. sem ekki verða jafnóþreytandi og hæstv. fyrrv. utanrrh. að lýsa yfir þeim vilja Íslendinga að hér séu ekki geymd kjarnorkuvopn. Þá hygg ég að till. eins og þessi og lagasetning í framhaldi af því sé eðlileg árétting og raunar nauðsynleg árétting á vilja Alþingis og — með leyfi að segja — ég held íslensku þjóðarinnar.