06.03.1979
Sameinað þing: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2366)

40. mál, bann við kjarnorkuvopnum á íslensku yfirráðasvæði

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Af þeim sökum get ég ekki tekið undir með hv. síðasta ræðumanni, Gunnlaugi Stefánssyni, sem flutti hér ágæta ræðu áðan, tekið undir áskorun hans á hæstv, utanrrh. að lýsa nú yfir því, að hann ætli að láta ganga úr skugga um hvort kjarnorkuvopn séu á Keflavíkurflugvelli, — af þeim sökum get ég nú ekki tekið undir þá áskorun, að yfirlýsing hæstv. utanrrh. Benedikts Gröndals þar að lútandi mundi ekki nægja mér, og vík ég að því aftur síðar hvers vegna ekki.

Ég vil þakka hv. þm. Einari Ágústssyni, fyrrv. utanrrn., fyrir þá yfirlýsingu sem hann gaf áðan eða öllu heldur fyrirheit um það, með hvaða hætti hann hygðist stýra störfum öryggismálanefndar sem skipuð hefur verið, að hann miði að því að n. fái til þess aðstöðu að geta látið þegnum landsins í té raunverulegar, haldgóðar upplýsingar sem geti orðið grundvöllur að skynsamlegum umræðum um öryggismál landsins og þ. á m. þetta atriði sem við nú fjöllum um. Ég minnist umr. fyrir tveimur árum, sem hv. þm. rifjaði upp fyrir okkur, um þessi mál einmitt, þegar hann neyddist til, þó utanrrh. væri á þeim tíma, að játa að hann hefði því miður engin sönnunargögn um þetta mál, þau væru ekki fáanleg. Sjálfur hefði hann ekki orðið var við neitt það sem benti til að kjarnorkusprengjur væru á Keflavíkurflugvelli.

Ég dreg ekki í efa að hæstv. utanrrh. hafi sagt okkur satt áðan frá viðræðum sínum við aðila úti í Svíþjóð og annars staðar, sem hnigu að því, að hann hefði getað dregið þær ályktanir í fyrsta lagi, að sænskir friðarsinnar hefðu engar sannanir fyrir því að hér væru kjarnorkuvopn, og í öðru lagi að því, að þess háttar umstang væri í kringum kjarnorkuvopnageymslur að þess hlytu Íslendingar að hafa orðið varir ef kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavikurflugvelli. Þó hygg ég að þrátt fyrir þessa yfirlýsingu hæstv. utanrrh., sem er góðra gjalda verð, hljóti það að verða eitt af viðfangsefnum öryggismálanefndar og þeirrar stofnunar eða þeirra aðila, sem falið yrði skv. því þingmáli, sem hér um ræðir, að fjalla einmitt um þessi mál, — eitt af fyrstu verkum þessara aðila yrði að sannprófa einmitt þessi atriði í máli hæstv. utanrrh., kanna, hvort hann hefði dregið réttar ályktanir af þeim upplýsingum sem hann fékk, og eins það, hvort upplýsingar hans séu nógu haldgóðar.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson bar fram þá uppástungu áðan, að utanrmn. tæki sig nú til og færi út á Keflavíkurflugvöll til þess að athuga þessi mál, þangað hefði n. ekki komið í hans tíð í nefndinni og e. t. v. aldrei að athuga þar nokkurn skapaðan hlut. Þá vík ég að því sem ég í upphafi sagði um ástæðu mína til þess að trúa ekki bókstaflega öllu sem hæstv. utanrrh. segir hér í þingsölunum í viðurvist okkar Alþb.-manna. Nú vil ég varpa fram þeirri spurningu, — ég mun skýra það nánar síðar, — til hv. þm. Friðjóns Þórðarsonar öðrum fremur og síðan e. t. v. til utanrrh., hvort svo yrði hagað til að fulltrúar Alþb. yrðu með í slíkri för. Því ber ég fram þessa spurningu við hv. þm. Friðjón Þórðarson, en fyrst og fremst við hæstv. utanrrh., að eftir honum var haft í dagblaði fyrir skemmstu og því hefur hann ekki mótmælt, að hann héldi leyndum fyrir meðráðherrum sínum, ráðh. Alþb., öllum þeim skjölum og upplýsingum sem vörðuðu öryggismál Íslands og á hans borð kæmu eða í hans hendur og taki sér þar til fyrirmyndar Guðmund Í. Guðmundsson, sem frægur varð af því á sinni tíð að leggja niður störf utanrrmn. af því að Alþb, átti þar fulltrúa. Svo ætlast þessi hæstv. ráðh. til þess, að þm. Alþb. og ráðh. þess, sem hafa þó að baki sér nær fjórðung atkvæða íslenskra alþingiskjósenda, — taki mark á einu orði sem hann segir um öryggismál, — hann segi okkur satt um þau, hann haldi engu leyndu um þau hér í sölum Alþingis. Hvernig ætlast hæstv. utanrrh. til þess, að nokkur ærlegur maður, sem hugsar af alvöru um öryggismál Íslands eða utanríkismál, taki mark á fullyrðingum hans eftir þetta, nema því aðeins að hann beri þessi ummæli til baka, en þau viðhafði hann í hópi ungra sjálfstæðismanna hér í bæ þar sem hann mun hafa ætlað að þau féllu í nokkuð góðan jarðveg.

Það er rétt, við verðum að ganga úr skugga um þetta atriði, hvort hér eru geymd kjarnorkuvopn eða ekki. Sjálfur tel ég okkur ekki ákaflega mikið öryggi í yfirlýsingum risaveldanna tveggja, Sovétríkjanna og Bandaríkjanna, um að þau skuldbinda sig til þess að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn landi þar sem ekki eru geymd kjarnorkuvopn, — ekki fyrir okkur, vegna þess að við höfum sem þjóð ekki tekið við kjarnorkuvopnum úr hendi Bandaríkjamanna fremur en öðrum vopnum. Og þótt svo sé sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði, að Norðurlöndin væru talin kjarnorkuvopnalaust svæði, þá er það svo með hin önnur Norðurlönd, að þar eru ekki heldur erlendar herstöðvar, en erlenda herstöð höfum við á Íslandi, og það leikur sannarlega vafi á því, hvort þar eru geymd kjarnorkuvopn, hvort þar koma og lenda og taka sig á loft herflugvélar með kjarnorkuvopn innanborðs. Að því leyti er sannarlega vert að rifja upp spænsku samningana varðandi kjarnorkukafbátana, að við höfum ástæðu til þess að óttast að einnig hér, þrátt fyrir yfirlýsingar, sennilega gefnar af frómum huga af hálfu íslenskra ráðamanna, um að hér geti ómögulega verið geymd kjarnorkuvopn, — þrátt fyrir slíkar yfirlýsingar erum við ekki ugglaus um að svo kunni að vera eigi að síður. Það er rétt sem hæstv. utanrrh. sagði, að mál þetta varð brýnt á Spáni þegar slys varð í sambandi við kjarnorkukafbáta. Þá varð þetta mál brýnt á Spáni og reginhneyksli. Slys, sem verða kynni samkynja vegna geymslu kjarnorkuvopna á Keflavíkurflugvelli, vegna þess að flugvél með slíkt vopn innanborðs hlekktist á, kynni að hafa þess háttar afleiðingar að það væri ekki öldungis víst hvort eftir yrði hér í Reykjavík eða á Suðvesturlandi nokkur ráðh. til þess að lýsa yfir því, að hann teldi slíkt hafa verið reginhneyksli. Umfang þess háttar óhapps gæti orðið slíkt. Og fari svo illa að til þess komi að kjarnorkuvopnum verði beitt í átökum stórveldanna, þá eigum við ekki griða að vænta, ef nokkur vafi leikur á um það hvort kjarnorkuvopn séu geymd á Keflavíkurflugvelli.

Ég tel það ákaflega mikilvægt, án tillits til afstöðu Íslendinga til herstöðvarinnar sem slíkrar þar sem hún er, — og ekki leikur vafi á hver afstaða okkar Alþb. manna er til hennar sem slíkrar, — en án tillits til þeirrar heildarafstöðu tel ég ákaflega mikilvægt að úr því verði skorið svo ugglaust megi telja og allir góðir menn geti treyst, að ekki séu geymd kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli, engum flugvélum, sem beri slík vopn, sé leyft að lenda þar eða hefja sig til flugs og engu skipi, sem flytur slík vopn, verði leyft að koma inn í íslenska landhelgi, hvað þá að neinu slíku skipi sé veitt þjónusta í íslenskum höfnum.