31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 1. þm. Reykv. vil ég undirstrika það, að ekki er verið að vanmeta árangurinn af þessum vesturferðum, síður en svo. Spurningin er eingöngu sú, hvort við gætum náð svipuðum eða sama árangri hérna heima.

Á Sogni — það er rétt — eru nú meira en 26, þar eru 32 sjúklingar, þannig að þar er hvert horn skipað. Mér finnst vel koma til greina að athuga betur till. hv. fyrirspyrjanda um að nýta Krýsuvíkurskólann, sem var á sínum tíma byggður liðlega að hálfu af ríkissjóði og tæplega að hálfu af sveitarfélögum á Reykjanesi og Vestmannaeyjum. Aðstæður, sem þá voru fyrir hendi, virðast ekki vera lengur, þannig að húsið er ekki nýtt. Mér finnst það koma mjög til greina.

Ég er afskaplega þakklátur þeim ummælum sem hér hafa komið fram um gæsluvistarsjóð, um stuðning við hann. Ég verð í því sambandi að segja að mér finnst fráleitt með öllu að lækka framlag til hans. Það þarf að hækka verulega frá því sem er á yfirstandandi fjárl. en má alls ekki lækka.