07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Umr. þær, sem fóru fram hér á hv. Alþ. í gærkvöld, endurspegla það ástand sem verið hefur í stjórnarherbúðunum allt frá því að stjórnarmyndunarviðræðurnar hófust fyrir 8 mánuðum. Ég hefði samt sem áður haldið að stjórnarflokkarnir teldu sér það ekki til framdráttar að koma fram fyrir þjóðina eins og þeir gerðu í gærkvöld. A. m. k. minnist ég þess ekki þann tíma sem ég hef setið hér á Alþ., að útvarpsumr. færu fram með slíkum hætti að þær nánast væru slagsmál á milli stjórnarflokkanna og lýsingar þeirra á mönnum og málefnum með þeim hætti að þeir, sem vilja tala fyrir fjölmiðla, hefðu stundum látið ýmislegt af því ósagt.

En það var vissulega þýðingarmikið, eins og málum er komið í dag, að þessi mynd af Alþingi, eins og við stjórnarandstæðingar höfum haldið fram að hún væri, kæmi fyrir alþjóð og kjósendur fengju tækifæri til að meta það, sem hér hefur farið fram, og stöðu þeirra mála eins og hún er. Ég verð hins vegar að segja, að þær lýsingar á mönnum, lýsingar á verkum einstakra ráðh., einstakra þm. úr stjórnarliðinu, voru með þeim hætti, að ég er sannfærður um að ríkisstj. hefur ekki aukið traust sitt meðal þjóðarinnar. Mér er líka ljóst að það hefur verið harla lítið upp á síðkastið og e. t. v. allt frá því að ríkisstj. var formlega mynduð, þ. e. a. s. ráðh. tóku sæti í ríkisstj., en það hefur verið orðað af einum af stjórnarstuðningsmönnum þannig, að stjórnin sem slík byggð á samstarfsgrundvelli hafi ekki orðið til. Það var ekki aðeins að hér kæmu fram í gærkvöld furðulegar yfirlýsingar og lýsingar á mönnum og störfum þeirra, heldur var það, sem sagt var, sitt með hverjum hætti og rak sig hvað á annars horn.

Mig langar til að rifja upp örfá atriði úr ræðum þeirra hv. þm., sem hér töluðu, og víkja að því, hverjar þversagnir voru í málflutningi þeirra svo og hvað þeir voru sjálfum sér og verkum sinna eigin flokka ósamkvæmir.

Hæstv. utanrrh. lýsti því yfir, að flutningur þessarar till. væri ótrúlegt ábyrgðarleysi aðeins örfáum dögum eftir að hans eigin flokkur flytur till. um að fram fari þjóðaratkvgr. um drög að frv. sem hæstv. forsrh. hafði samið og lagt fram í ríkisstj. og var um 60 greinar. Formaður Alþfl. heldur því fram og segir að það sé ábyrgðarleysi að flytja till. þess efnis, að þjóðin fái að kveða upp sinn dóm um stefnu og störf núv. ríkisstj. Hann vék svo að því, hvernig málum hefði verið háttað á Alþ. síðan þing kom saman, síðan ríkisstj. var mynduð, og sagði, að unga fólkið sitt, eins og hann orðaði það, — hv. 1. þm. Austurl. metur það nú ekki allt jafnungt, þann hóp, — en hæstv. utanrrh. sagði, að ungi hópurinn sinn hefði setið niðri í flokksherbergi í allt haust, lesið og lesið bókina sem þeir gáfu út, en vissu ekki hvað stóð í, heldur prentuðu, og reynt að gera sér grein fyrir, hvað þar stóð, til þess að geta staðið við þau fyrirheit sem þar voru gefin. Svo kom rúsínan í pylsuendanum. Þeir hefðu ekki getað staðið við nokkurn skapaðan hlut af því sem stóð í bókinni og nú væri tíminn að renna út, það yrði að verða samkomulag í ríkisstj. fyrir helgina, ef ekki, þá væri forsenda fyrir þingrofi og kosningum. Enn ein ný dagsetningin. Fyrst var það 1. des.; svo kom 1. febr., svo 1. febr. frestað til 1. mars og hann gerður tvíheilagur því að hæstv. forsrh. átti þá afmæli. Síðan kom 10. mars, síðan 17. mars, svo kemur 1. apríl, svo 20. apríl, og svo kemur 1, maí um land allt, eins og karlinn sagði. Ég spyr: Hvenær á hæstv. utanrrh. afmæli? Yrði það ekki næsti dagurinn til þess að hægt væri að hafa tvíheilagt, eins og gert var við 1. mars, — öllum þessum dagsetningum verði frestað til afmælis utanrrh. og þá haldið tvíheilagt? Hv. 1. þm. Reykv. vill heldur fresta til afmælisdags 1. þm. Austurl., heldur að það verði meiri hátíð út úr því. (Gripið fram í: Það er of seint, það er ekki fyrr en í sumar.) Hv. 1. þm. Austurl. telur að það verði allt of seint, stjórnin verði þá fallin, — var það ekki rétt skilið?

Lítum á það sem hæstv. utanrrh. sagði, að ungliðarnir hans væru búnir að lesa og lesa og berðust um á hæl og hnakka við að koma þessu í framkvæmd, en það gengi ekki neitt. Enda kom hæstv. sjútvrh. rétt á eftir og staðfesti það, að meginvandamálið væri hin öra verðbólguþróun sem við blasti. En voru þeir sammála, hæstv. utanrrh. og hæstv. iðnrh.? Það heyrðist mér ekki á ræðu hæstv. iðnrh. þegar hann fékk lánaðar tölurnar frá yfirráðh., 1. þm. Austurl., og var að lýsa fyrir þjóðinni hvernig verðbólgan væri nú komin niður í á milli 20–25% samkv. þeim útreikningum sem fram komu hjá hv. 1. þm. Austurl. í sjónvarpsviðtali fyrir nokkru, og hann sagði að þetta væru opinberar tölur og hæstv. iðnrh. endurtók að þetta væru opinberar tölur. Hann gleymdi hins vegar því, að vísitalan eins og hún er reiknuð út í dag, er byggð á fölskum forsendum. Hann gleymdi að segja frá því, hvernig vísitöluútreikningurinn er byggður á því, að ríkisfyrirtæki safna stórum skuldum. Hann gleymdi að segja frá því, hvernig millifærsluleiðir Alþb. hafa verið notaðar 1. sept. og 1. des. til þess að framkalla þessa fölsku vísitölu. En nú hafa þeir gefist upp, því að 1. mars lögðu þeir ekki í neinar slíkar aðgerðir. Hann gleymdi sjálfsagt því, að gjaldskrá Pósts og síma fékkst ekki hækkuð fyrir það fyrirtæki vegna þess. Hann gleymdi því líka, að gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins er vegna þess ekki með þeim hætti sem þar hefur verið óskað eftir og fjárlög gerðu ráð fyrir. Hann gerði ekki heldur grein fyrir því, að hjá ríkisstj. lágu beiðnir um hækkanir á verðlagi sem hefðu þýtt nokkur stig til hækkunar vísitölu. Öllu þessu gleymdi hann. Þetta sýnir að þessi ríkisstj. notar nákvæmlega sömu aðferðir og fyrri vinstri stjórnir í sambandi við vísitöluna. Rétt fyrir vísitöluútreikninginn eru gerðar falsanir til þess að halda vísitölunni niðri og reynt að sýna fram á með opinberum tölum hvernig verðbólgan sé.

Ræður þessara þriggja hæstv. ráðh. hnigu þó að því, að þeir litu svo á að nú væru miklar líkur á að þetta tækist, það væri búið, eins og hæstv. iðnrh. sagði, að ná tökum á verðbólgunni og það væri bara óbilgirni hjá samstarfsflokkunum að fallast ekki á kröfur þeirra, og hv. 1. þm. Norðurl. e. orðaði það þannig, að þarna væri um að ræða hegðunarvandamál hjá þm. stjórnarliðsins. En hv. 1. þm. Norðurl. e., Ingvar Gíslason, lýsti það mikinn misskilning hjá þessum hæstv. ráðh., að ríkisstj. hefði náð tökum á verðbólgunni, og hann var síður en svo bjartsýnn á að þeir næðu nú saman. Hann orðaði það svo, að vel mætti svo fara, að ríkisstj. yrði að fara frá vegna þess að hún næði ekki samstöðu í þessum miklu vandamálum sem hún á við að glíma. Síðan kom rétt áðan flm. brtt. sem hér er til umr., hv. þm. Bragi Sigurjónsson, og var að heyra á honum, að að hans dómi væru ekki miklar líkur til að stjórnarflokkarnir næðu saman eftir þetta 6 mánaða þóf — reyndar 8 mánaða — sem nú hefði staðið yfir. Þegar þessar ræður og þær yfirlýsingar, sem hafa komið fram við þessa umr., eru skoðaðar, þá held ég að það blandist engum hugur um að það sé full ástæða til að þjóðin fái tækifæri til að kveða upp sinn dóm.

Hæstv. utanrrh. sagði, að það væri það alvitlausasta að þjóðin fengi að kveða upp sinn dóm. Sjálfsagt var það í hans huga, að það væri miklu skynsamlegra að fá að halda þessu áfram og fresta þessum dagsetningum, láta allt reka á reiðanum eins og hingað til hefur verið.

Ekki má ég gleyma garminum honum Katli. Hæstv. forsrh. kom hér og flutti eina mikla ræðu. Hann byrjaði á því að segja þjóðinni að hann liti ekki alvarlegum augum þessa þáltill. sem hér væri flutt. Hann tók fleygt orðatiltæki sem við höfum heyrt. En svo talaði hann sig upp í þann hita í ræðunni, að hann leit till. að lokum svo alvarlegum augum, eins og réttilega var bent á í umr., að hann sagði: Ef hún verður samþykkt, þá segi ég af mér. — Ég get ekki séð annað en frá upphafi ræðu hæstv. forsrh. og til loka hafi honum snúist hugur í málinu. Það er a. m. k. allt annað sjónarmið sem kemur fram í upphafi heldur en í lok ræðunnar. Hvort þessi till. sé persónuleg eða ekki, — hann var að velta því fyrir sér, — þá liggur það ljóst fyrir, að hér er verið að flytja till. um þingrof og nýjar kosningar til þess að ríkisstj. hans fái dóm hjá kjósendum. Þegar hann var kominn fram í miðja ræðu, þá byrjaði hann á skattalögunum. Það var eins og sá ruglingur, sem hann hafði orðið fyrir fyrir nokkrum dögum eða vikum í sambandi við skattalög nr. 40/1978, sæti enn í honum. Hann vék sérstaklega í þessari ræðu sinni að 94. gr, laga nr. 40/1978, og hann las upp fyrir þjóðinni verulegan hluta af þessari grein og taldi að þeir, sem hefðu staðið að setningu þessara laga, hefðu verið að innleiða lögregluríki á Íslandi. Ég held að það sé ástæða til að víkja örlítið að 94. gr. þessara laga. Að vísu gerði ég ekki það sem hæstv. forsrh. lagði til í útvarpinu í gær, en ég gerði hins vegar ráðstafanir til þess að hann gæti fengið umsögn eða útlistun á 4. tölul. bráðabirgðaákvæðisins. Ég tók hér saman á blað ákvæði 94. gr. laga nr. 40/1978 og samsvarandi ákvæði laga nr. 68/1971, og það má segja að ákvæði 94. gr. núgildandi skattalaga séu svo til samhljóða 36. gr. 1. mgr., 36. gr. 4. mgr., 50. gr. 1. mgr. og 50. gr. 3. mgr. laga nr. 60/1971. Framsfl. var að vísu ekki í ríkisstj. þegar þessi lög voru sett, það er alveg rétt. Hann tók hins vegar við völdum skömmu seinna. Hann flutti frv. til breytinga á þessum lögum 1972, og ég minnist þess ekki að hann hafi komið fram þá með till. í þá átt að breyta þessum ákvæðum. Ef einhver skyldi halda að þessi ákvæði séu í fyrsta skipti tekin upp 1971, þá er það líka misskilningur. Eftir því sem ég komst næst, þegar ég var að vinna morgunverkin, eins og hæstv. forsrh. orðaði það, þá er um að ræða ákvæði í lögum nr. 46/1954 um upplýsingaskyldu og eftirlitsheimildir skattyfirvalda. Þessi lög voru sett í tíð ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., og ég hef hvergi heyrt það, enda þótt fjmrh. þá hafi verið framsóknarmaður, Eysteinn Jónsson heitir hann, kunnur fjmrh., að Sjálfstfl. hafi ekki ævinlega verið reiðubúinn að bera ábyrgð á þeirri grein sem þar var sett inn. Ég hef hér í fórum mínum ljósrit af samanburðinum og greinarnar í skattalögunum frá 1954, og mig langar til að afhenda hæstv. forsrh. þetta til þess að hann geti fengið tækifæri til að bera þetta saman.

Útlistanir til viðbótar við þetta er sjálfsagt að gefa hæstv. forsrh. þó að við vitum að hann sé góður lögfræðingur og hafi staðið í fremstu röð þeirra frá því að hann lauk prófi, þá held ég samt sem áður að það sé til of mikils ætlast að einn maður, enda þótt hann sé vel að sér í lögum, muni hvert einasta ákvæði sem í skattalög er sett. Ég vík aftur að þessu ákvæði 94. gr. Það ákvæði var í frv., sem flutt var hér á þingi 1976-1977, með sama hætti og samþ. var, þannig að þetta ákvæði fór ekki fram hjá einum eða öðrum þm. Og ef ég man rétt var gerð breyting á þessari grein í meðförum þingsins af fjh.- og viðskn. sem tók þessi mál til skoðunar.

Ég spyr hæstv. forsrh.: hvað kemur honum til? Hvað er í þessum greinum sem hann getur ekki fellt sig við? A. m. k. trúi ég því varla, að hann hefði þá staðið að samningu samstarfsyfirlýsingar ríkisstj. og látið þar koma fram 13. lið í liðnum um efnahagsmál, stefnumótun ríkisstj. Þar segir: „Skattaeftirlit verði hert og ströng viðurlög sett gegn skattsvikum.“ Þegar fjárlög 1979 voru samþ. var lagt til af hæstv. fjmrh. til þess að framfylgja þessari stefnu, að gjöld til skattaeftirlits yrðu aukin um 75 millj. kr. Ef ég skil rétt það sem hér stendur og gerðir ríkisstj., þá hefur henni ekki fundist lagasetningin frá því í vor vera nægjanlega ströng, vera nægjanlega skýr til þess að fara eftir. Hér stendur: „Skattaeftirlit verði hert og ströng viðurlög sett gegn skattsvikum.“ Og til þess eru ætlaðar til viðbótar 75 millj. kr. Þessu til viðbótar er svo í drögum að frv. forsrh., sem hann kynnti á blaðamannafundi, gert ráð fyrir sérstakri eignakönnun til þess að gera sér grein fyrir því, hvernig eignir manna væru til komnar, og þá að sjálfsögðu til þess að hægt væri að auka skattálögur.

Ég læt útrætt um þessar greinar, en ég vek samt sem áður athygli á ummælum hæstv. forsrh., þegar hann býsnaðist yfir því, sem þarna stóð, án þess að gera sér grein fyrir því, að allt, sem í þessum greinum stendur um framkvæmd skattalaga hefur verið í gildi á undanförnum áratugum.

Þá sagði hæstv. forsrh., að hann teldi að nú væri svo komið að menn yrðu að passa sig á því að láta ekki bréf liggja í hirslum sínum, það væri kannske skynsamlegra að rífa þau eða brenna. (Gripið fram í: Hvernig bréf?) Alls kyns bréf. Ég held að það samrýmist ekki því sem við erum að reyna að framfylgja í okkar réttarþjóðfélagi, að menn tali um að brenna eða rífa eitthvað til þess að sannleikurinn geti ekki komið í ljós, að ég tali ekki um þær starfsaðferðir sem ég verð að segja að ég hef orðið ákaflega hissa á hjá hæstv. forsrh., þegar hann hefur æ ofan í æ reynt að telja kjósendum trú um að það illa í skattalögunum sé sjálfstæðismönnum að kenna. Ég veit ekki betur en vinnubrögðin í sambandi við þá löggjöf, sem sett var, hafi verið með þeim hætti, að báðir stjórnarflokkarnir hafi haft þar áhrif á gang mála, í því máli eins og öðrum. Og ég segi það eins og er, að mér finnst það ekki vera til eftirbreytni, ef mönnum finnst einhvern tíma eitthvað hafa í raun og veru verið öðruvísi en þeir vildu, að þá séu þeir ekki reiðubúnir til þess að axla þá ábyrgð sem þeir raunverulega höfðu.

Ég vík að því enn og einu sinni, að þegar skattalögin voru samþ. hér á Alþ. höfðu þau fengið óvenjulega — ég segi: óvenjulega góða og yfirgripsmikla meðferð, miklar umræður meðal almennings, umræður í þinginu, og þau voru samþ. hér samhljóða. Það var enginn sem greiddi atkv. á móti. (Gripið fram í.) Þau voru afgreidd shlj. þegar lokaatkvgr. fór fram við 3. umr. í Ed. samkv. því sem í Alþingistíðindum stendur.

Hæstv, forsrh. vék að þeim vandamálum sem við er að glíma og vissulega eru mikil. En ég segi: Hann glímir þar við eigin verðbólgudraug, því að þróun verðbólgunnar breyttist mjög mikið þegar vinstri stjórnin tók við 1971 og varð þá vandamál í íslensku þjóðfélagi. Þá var hæstv. forsrh. tekinn við stjórn þannig að hann glímir við eigin verðbólgudraug.

Í umr. í gær vék hæstv. iðnrh. að stöðu mála um síðustu áramót og vék þar sérstaklega að gjaldeyrisstöðunni og viðskiptajöfnuðinum. Hann vildi túlka það sem árangur af starfi núv. ríkisstj., hvernig gjaldeyrisgreiðslujöfnuðurinn breyttist til hins betra við áramótin, og taldi að þar hefði verið að verki ný ríkisstj. Allir þeir, sem til þekkja, gera sér grein fyrir því, að um áramótin 1977–1978 höfðu safnast upp miklar birgðir af útflutningsframleiðslunni, skreiðarframleiðslan 1976–1977 öll óseld, að einhverju leyti saltfiskur. Allt þetta var flutt út á síðari hluta ársins 1978 og átti fyrst og fremst þátt í því, að gjaldeyrisstaðan og viðskiptajöfnuðurinn breyttist og varð hagstæður um þau áramót miðað við óhagstæðan viðskiptajöfnuð um 11–12% miðað við árið 1974, sem var seinasta árið sem vinstri stjórnin frá 1971–1974 starfaði. Ég veit að hæstv. iðnrh. datt ekki í hug að fólk tryði því, að þeir hefðu vaknað svo snemma að morgni 1. sept., að þeir hefðu veitt allan þennan fisk fram eftir sept. og okt. og það hefði verið búið að herða hann og ganga frá honum til útflutnings í des. Hitt er svo auðvelt, að misfara með tölur, jafnvel þó að þær séu opinberar.

Hjá núv. ríkisstj. hefur á 6 mánaða valdaferli, 8 mánaða umræðusamstarfi, komið upp sama staða og hjá vinstri stjórninni 1971–1974 og vinstri stjórninni 1956–1958, að stjórnarflokkarnir hafa svikið kosningaloforðin. Þeim er það gjarnt, það sýnir sagan. Bráðabirgðaaðgerðir voru gerðar í sept., aðrar í des. Þær lágu allar í því að skattpína borgarana, falsa vísitöluna, eins og ég sagði áðan, með skuldasöfnun og lækkun kaupgreiðsluvísitölunnar og svokölluðum félagslegum umbótum, sem nánast voru sáralítill hluti þess sem launþegar hefðu fengið ef þeir hefðu fengið fullar vísitölubætur. Það voru afgreidd fjárlög með halla. Jafnvel þó að 1. þm. Norðurl. e. haldi því fram, að þau séu hallalaus, þá hefur sjálfur hæstv. fjmrh. viðurkennt opinberlega að það vanti milljarða í útgjöld fjárl. til þess að hægt sé að halda niðurgreiðslustigi vöruverðs sem var í des. Sennilega skortir hér um 3 milljarða. Svo vita allir að 1. apríl er samkv. samningi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja gert ráð fyrir launahækkun sem þýðir 2 milljarða fyrir ríkissjóð og ekki heldur fyrir því séð, heldur treyst að samningar náist um að fella hana niður. Það var auðvitað ekki vitað í desembermánuði, hvað Kjaradómur gerði í sambandi við mál Bandalags háskólamanna, en úrskurður hans eykur enn á vandann. Ég trúi því ekki, að menn geti staðið hér í ræðustólnum og haldið því fram í alvöru að hér sé um að ræða hallalaus fjárlög.

Lánsfjáráætlun er sett saman á fölskum forsendum. Það er gefið sér ákveðið mark á fjárfestingu sem hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Til þess að ná því eru gerðar breytingar, lagt til að greiðslur vegna jarðstöðvar komi ekki fyrr en á árinu 1980, járnblendiyfirfærslur, álverksmiðjan, Hrauneyjafossvirkjun frestað. Þegar svo útboð er gert kemur hins vegar í ljós, að ef á að byggja stöðvarhúsið þar skortir a. m. k. eitthvað á annan milljarð í lánsfjáráætlunina svo að hægt sé að ljúka þeim áfanga sem talað hefur verið um. Þar er gert ráð fyrir tveggja milljarða lántöku, en lægsta tilboð sem kom mun vera eitthvað á fjórða milljarð. Það er ekki staðið við samninga fjmrn. við Seðlabankann. Lánsfjáráætlunin gerir ekki ráð fyrir því. Þeir, sem mest hafa gagnrýnt skuldasöfnun ríkissjóðs á árunum 1974 og 1975, koma nú og hyggjast ekki greiða þá skuld sem þeir söfnuðu á s. l. ári, sögðu í upphafi starfstíma síns, að það yrðu um 400 millj., en hafa reynst 4 milljarðar hjá ríkissjóði og 1 milljarður til viðbótar hjá ríkisstofnunum, eða um 5 milljarðar kr. Það, sem er verst í þessu öllu saman, er að hv. stjórnarþm. standa hér algerlega ráðalausir uppi. Hv. 1. þm. Norðurl. e. segir, að það sé búið að afgreiða Alþfl., en Alþb. sé seigt undir tönn, eins og það megi þá skilja að þeir séu búnir að renna Alþfl. niður, sporðrenna Alþfl., ákaflega mjúkum, en eitthvað hafi Alþb. verið seigara undir tönn og vafasamt að þær tennur vinni á Alþb. A. m. k. var hv. þm. svo raunsær, að hann taldi, að stjórnarsamstarfinu gæti lokið áður en langt um liði. Hann talaði alveg þvert á við það sem hæstv. forsrh. gerði.

Það er fátt, sem við höfum ekki heyrt í sölum Alþ. þessa dagana. Í málefnaþrotum sínum í gærkvöld var meira að segja aðalinntak talsmanna stjórnarflokkanna að Sjálfstfl. væri sundraður og klofinn og of upptekinn við innri vandamál til þess að huga að vandamálum þjóðarinnar. Þessar áhyggjur eru óþarfar. Sjálfstfl. leysir sín vandamál eins og hann hefur alltaf gert. Sjálfstfl. er flokkur sem byggir á breiðum grundvelli. Innan hans eru starfandi fjölmargir skoðanahópar, eins og eðlilegt er. Sjónarmiðin eru margvísleg og á allan hátt endurspeglar Sjálfstfl. í ríkara mæli en nokkur annar stjórnmálaflokkur þau mismunandi viðhorf sem uppi eru meðal borgaralega sinnaðs fólks. Þessi fjölbreytilegu sjónarmið fá að koma fram og njóta sín til fulls innan Sjálfstfl. Endanleg afstaða er svo tekin á lýðræðislegan hátt. Hvorki formaður Sjálfstfl. né aðrir talsmenn flokksins tala eins og einvaldar án þess að taka tillit til sjónarmiða flokksbræðra sinna. Í því felst lýðræði m. a. að hlusta á og taka tillit til sjónarmiða annarra. Þetta er styrkleiki Sjálfstfl., en ekki veikleiki, eins og hefur sýnt sig. Þeir, sem sjálfir sitja uppi með margklofna ríkisstj., margklofna flokka að baki henni ættu að huga meira að eigin vandamálum en málefnum Sjálfstfl. Framsóknarmönnum er áreiðanlega hollast — og þá brosir hv. þm. — að huga að flokksmálum sínum en ekki hafa áhyggjur af velferð Sjálfstfl. sem sér um sig. Forustuvandamál Framsfl. eru bersýnilega fólgin í því, að þm. og fagráðh. flokksins, hvað þá óbreyttir flokksmenn, hafa ekki hugmynd um hvaða stefnu formaðurinn tekur næst. Þeim er ekki sýnd sú kurteisi að við þá sé talað, hvað þá að lýðræðisleg vinnubrögð ríki í þeim flokki. Afleiðingin er sú, að Framsfl. hefur verið að minnka og minnka, og allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram. Framsóknarmönnum er nú hollast að mínum dómi að huga að þessum innri vandamálum flokks síns og þeim foringjavandamálum sem þessi þróun endurspeglar.

Alþfl.-menn hafa líka áhyggjur af okkur sjálfstæðismönnum, jafnvel fundarsókn hjá okkur á fundum úti á landi, eins og þeir séu þar tíðum gestir. Þeir ættu að huga betur að velferð eigin flokks. Ástandið á þeim bæ er nú slíkt, að flokksformaðurinn er bersýnilega í felum. Hann varast eins og heitan eldinn að láta til sín taka í þeim brennandi vandamálum þjóðarinnar sem hafa verið til umr. á undanförnum vikum og mánuðum. Þetta á einnig við varaformanninn. Við höfum að sjálfsögðu tekið eftir því hér í sölum Alþ. hvernig feluleikurinn gengur. En það virðist sem forusta Alþfl. hafi dregið sig í hlé og farið í pólitískt orlof upp í Stjórnarráð. Það hefur áður komið fyrir að Alþfl. hafi dregið sig út úr pólitík. Þingflokkur Alþfl. er sundurlaus, sjálfum sér sundurþykkur og þar veit enginn hvað snýr upp og hvað snýr niður. Alþfl. er ljóst nú þetta ástand, og ég sé á andlitum þeirra margra í gær og í dag, að þeir hafa miklar áhyggjur.

Alþb. hefur líka látið í ljós áhyggjur sínar yfir velferð Sjálfstfl. En ég segi: einnig þeir ættu nú að líta í eigin barm. Innan Alþb. fer nú fram hrikaleg valdabarátta á milli ráðh. flokksins og yfirráðh., formanns Alþb. Þessi valdabarátta endurspeglast rækilega hér í þingsölunum eins og við höfum orðið vör við síðustu dagana. Ráðh. sameinast um að draga úr áhrifum flokksformanns síns og síðan munu þeir berjast um völdin innbyrðis. Þeir flokkar, sem þannig er ástatt um, hafa áreiðanlega um þarfari málefni að hugsa en hugmyndir þeirra sjálfra um ástandið á heimavígstöðvum okkar sjálfstæðismanna.

Það er auðvitað ástæða til þess, þegar þessar umr. fara fram, að muna og rifja upp að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem þó á varla nafnið skilið, eins og einn fylgismaður hennar hefur bent á og sagði réttilega og ég vék að áðan, dregur á eftir sér langan slóða svikinna loforða og ríkisstj. mun aldrei geta brúað bilið á milli orða og verka. Ég tel þó enn meiri ástæðu til þess að horfa á heildarmyndina í stjórnmálum þessa lands en að rekja syndaregistur þessarar ríkisstj. meira en ég hef gert við þessar umr.

Það er hollt að velta fyrir sér þeim vandamálum, sem við blasa í þjóðlífinu, og reyna að velja þau glímutök á þeim vandamálum sem hest geta dugað. En til þess að leysa vandamálin, þau sem við er að glíma, verðum við að velja rétta leið að því marki að örva hagvöxtinn, skila betri afköstum og ná betri efnahagslegum árangri. Við höfum um tvær leiðir að velja. Önnur er leið miðstýringar, hin er leið frjálshyggjunnar. Núv. ríkisstj. hefur tvímælalaust valið leið miðstýringarinnar og ríkisafskiptanna á öllum sviðum eftir eðli þeirra flokka sem hana styðja. Við skulum spyrja okkur: Hvert liggur sú leið? Hún liggur til verri lífskjara. Það er ekki ríkið sem er uppspretta gæðanna, heldur einstaklingurinn. Það er ekki ríkið sem framleiðir, heldur atvinnulífið. Betri lífskjör fást ekki með pólitískum hrossakaupum, heldur með aukningu framleiðslunnar. Hlutverk ríkisins á að vera að búa framleiðslunni þau skilyrði sem nauðsynleg eru til framleiðsluaukningar.

Við verðum líka að koma auga á eina einfalda staðreynd, og hún er sú, að öllum rétttindum fylgja skyldur, að öll þjónusta ríkisins kostar peninga, að bakhliðin á óskalistanum er reikningurinn. Við verðum að skilja það, að kröfupólitíkin hefnir sín þegar til lengdar lætur og þess, sem við krefjumst af öðrum, erum við að krefjast af okkur sjálfum. Byrðarnar lenda á okkur sjálfum hverjum einum. Þær lenda á öllum almenningi. Þessa einföldu staðreynd virðast vinstri sinnar ekki skilja. Þeir skilja það ekki, að lýðræðið hvílir á gagnkvæmum réttindum og skyldum, á jafnvægi tekna og útgjalda. Þeir halda að barátta skipti öllu máli. Þeir blása í herlúðra, æsa til ófriðar á milli stéttanna, verkfalla og jafnvel lögbrota. Við aukum ekki framleiðsluna, við bætum ekki lífskjörin með því að blása í herlúðra. Við bætum lífskjörin með því að auka framleiðsluna, með því að vinna saman stétt með stétt, með því að hver fái að nýta hæfileika sina sér og sínum í hag. Það, sem gerir okkur kleift að bæta lífskjörin og nýta þekkingu okkar, er frjálst framtak einstaklingsins. Menn hafa komið auga á þessa staðreynd í öðrum löndum, jafnvel þótt þeir séu sósíalistar.

Ríkisstjórnarflokkarnir eru mörgum áratugum á eftir tímanum. Við sjáum hvarvetna í hinum vestræna heimi að augu manna eru að opnast fyrir því, að þjónusta ríkisins getur verið miklu dýrari en þjónusta markaðarins, að menn velta að lokum byrðinni yfir á enga aðra en sjálfa sig. Sósíalisminn ógnar ekki einungis hagvextinum, hann ógnar ekki aðeins hinum efnahagslega árangri, hann er líka farinn að ógna þeim mannréttindum sem við búum við. Ef vald einhvers aðila verður of mikið, þá er mannréttindum einstaklinga ógnað. Þjóðfélagið verður að vera í jafnvægi. Valdinu verður að dreifa.

Sagt hefur verið að verkalýðshreyfingin sé of valdamikil. Það er rétt, að valdi hennar hefur stundum verið misbeitt. Henni hefur verið beitt fyrir vagn pólitískra loddara eins og þeirra sem kröfðust þess, að samningarnir væru settir í gildi, eins og þeir orðuðu það. Ég held að verkalýðshreyfingin sé þó varla of sterk. Miklu frekar er einkaframtakið of veikt, þannig að mótvægi skortir, það er ekki jafnvægi. Einkaframtakið er of veikt vegna þess að ríkisvaldið er of sterkt. Sósíalisminn hefur dregið mátt úr atvinnulífinu, og verkefni næstu ára að mati okkar sjálfstæðismanna er að efla frjálshyggju og draga úr ríkisvaldinu til þess að skapa það jafnvægi í þjóðfélaginu sem er nauðsynlegt. Við þurfum að skapa jafnvægisþjóðfélag. Við þurfum að snúa af leið sósíalisma inn á leiðir frjálshyggjunnar.

Ríkisafskiptin, sem núv. stjórnarflokkar beita sér fyrir og hafa stóraukið, eru auðvitað réttlætt með því, að þau séu félagsleg. Tískuorðið á Íslandi hefur lengi verið orðið félagshyggja, en mig grunar að á bak við félagshyggjutalið sé falin sú staðreynd, að núverandi valdhafar ætli að stýra fjárfestingunni pólitískt í einhverri framfaranefnd, sem er svipað rangnefni og félagshyggja hjá þeim. Aðalatriðið er að þessi ríkisstj. verði stöðvuð á þeirri fleygiferð til sósíalisma, sem hún er á. Þingrof og nýjar kosningar eru nauðsynleg. Þjóðin hefur verið blekkt og þess vegna verður valið að vera hennar á ný. Leiðirnar eru tvær: frjálshyggja eða sósíalismi. Kostirnir eru skýrir, og ég er ekki í nokkrum vafa um hvorn kostinn meiri hl. kjósenda velur.