31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan koma því á framfæri, að þau orð, sem féllu hjá mér áðan, voru ekki nein gagnrýni á hv. 1. þm. Vestf. Það var alveg ástæðulaust fyrir hann að rjúka upp eins og hann gerði þó að ég léti þessi orð falla um gæsluvistarsjóð. Hann var ekkert lakari trmrh. en þeir sem voru á undan honum, e.t.v. hið gagnstæða.

En það, sem ég vil segja til viðbótar er það, að ég hef ekki verið spurður ráða um lækkun á tillagi til gæsluvistarsjóðs á þessu ári. Ég mun ekki samþykk ja lækkun á því án þess að fullnægjandi skýringar komi á því, hvers vegna þurfi að skera þennan sjóð niður einmitt nú. Það, sem ég vildi vekja athygli á áðan í sambandi við fsp. hv. þm. Braga Níelssonar, var — nú er ég ekki nægilega góður í reikningi — að fyrir allt að því 10 árum var framlagið til sjóðsins 7.5 millj. og þó að það væri ekki skorið niður í ár, er það samt ekki nema 63 millj. Þetta tel ég lélega ávöxtun þess sem gæsluvistarsjóður á að fá. Ég held að 63 millj., þó að þær fengjust allar, hefðu ekki sama raungildi og þessar 7.5 millj. fyrir þetta mörgum árum.