07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2381)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég held að það sé rétt í upphafi þessarar ræðu að ég hafi svipaðan hátt á og helsta fyrirmynd mín í nútíma ræðumennsku, hv. 7. þm. Reykv., og lýsi því yfir að þrátt fyrir það sem ég kann að segja í þessari ræðu styð ég ríkisstj. og þess vegna mun ég greiða atkv. gegn báðum þeim till. sem hér eru til umr., þ. e. a. s. bæði till. Sjálfstfl. um þingrof og nýjar kosningar og eins brtt. frá hv. þm. Braga Sigurjónssyni.

Ég verð að segja það í fyrsta lagi um þessa þáltill., að mér finnst hún næsta furðuleg. Er ekki miklu nær að flytja hreinlega vantraust á ríkisstj., ef svo er komið málum að Sjálfstfl. telur hana einskis nýta og eiga að fara frá? Ég tel það réttara. Það er a. m. k, venjulegri aðferð, eftir því sem ég man best. En þeir hafa kosið að hafa þennan háttinn á og hafa sjálfsagt sínar ástæður til þess. Ég ætla ekkert að fara að leiða getum að því, hverjar þær munu vera.

Brtt. hv. þm. Braga Sigurjónssonar miðar bersýnilega að því og því einu að útvega Alþfl. nýjan frest til þess að gera upp hug sinn, hvort hann vilji styðja þessa stjórn eða ekki. Það er búið að rekja nokkrar dagsetningar og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, en eins og bent hefur verið á er stungið upp á enn nýjum degi sem eigi að verða eins konar dómsdagur eða úrslitadagur í þessu máli, 17. þ. m., sem er eftir 10 daga, og síðan á svo að reyna að mynda nýja stjórn eftir einhverjum öðrum leiðum. Hv. þm. gat um þá möguleika sem hann kom auga á í því skyni. Hæstv. fyrrv. forseti Ed. hefur greinilega leitað til Ítalíu um fyrirmynd að stjórnarsamstarfi, þar sem hann ráðleggur flokkum að mynda minnihlutastjórn og leita til sitt hvorrar handarinnar eftir því sem þörf er á. Þessi hugmynd virðist vera fundin upp í Róm. Það virðist fylgja forsetastóli hv. Ed. að sækja fyrirmyndir til Ítalíu, því að hæstv. núv. forseti Ed. hefur flutt frv. um alveg óskylt mál, sem að mínu mati virðist ættað úr Vatíkaninu.

Hæstv. utanrrh. sagði í gær, að stjórnmálamenn yrðu að gera málin upp sjálfir. Þetta tek ég heilshugar undir. Það þýðir ekkert fyrir ráðh., hverju nafni sem þeir nefnast, hvaða embætti sem þeir gegna, að koma sér einir og einangraðir saman í gamla tugthúsinu um einhverja moðsuðu sem enginn skilur og að því er virðist þó allra síst þeir sjálfir. Við, sem eigum sæti á þingi, munum gera upp okkar hug og samþykkja það eitt sem við getum varið fyrir samvisku okkar, kjósendum og þjóðinni. Engin fyrirmæli að ofan verða tekin til greina. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. utanrrh. að koma til mín og segja: Þetta skaltu samþykkja eða hafa verra af ella. — Því mun ég ekki hlíta.

Hv. sjálfstæðismenn hafa gert mikið með það, að viðskilnaður ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar hinnar fyrri hafi verið mjög slæmur. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen 1. þm. Reykn., lagði mjög ríka áherslu á þetta áðan og fór að minna á ýmis atriði í því sambandi. Það er auðvitað rétt, að það voru erfiðleikar þegar sú stjórn var mynduð. En ég vil minna á að 1971 voru líka erfiðleikar, þegar þáv. ný ríkisstj. tók við. Þá var mjög mikið af óafgreiddum málum í stjórnarráðinu, sem ekki hafði verið séð fyrir fjárveitingum til á fjárl. þess árs. Ég er ekki svo minnugur og hef ekki búið mig undir það að geta rakið einstök dæmi um þetta. En ég skora á hv. sjálfstæðismenn að mótmæla þessu ef þeir geta. (Gripið fram í: Ég hef þegar mótmælt.) Ég mun þá reyna að afla gagna fyrir hv. 1. þm. Vestf. til þess að hressa upp á minni hans, ef hann er búinn að gleyma þessu. (MB.: Þm. hafa þessi gögn.) Ég veit þetta. Já, já, ég veit það mjög vel. Ég ætla ekki að fara að hafa það eftir eftir minni, en þetta liggur fyrir. Það er alveg guðvelkomið að fletta þessu upp fyrir hv. þm., ef hann er svo önnum kafinn að hann má ekki vera að því sjálfur. (Gripið fram í.: Vantaði alla peninga í tekjutryggingu?) Já, til að mynda það. (Gripið fram í.) Ég geri ósköp lítinn mun á því, hver það er sem kallar fram í, hvort það er hv. 1. þm. Vestf. eða hv. 1. þm. Austurl. Ég tel mig hafa orðið og ætla mér að halda áfram ræðu minni án afskipta þeirra.

Ég vil segja það út af þeim útvarpsumr., sem fram fóru í gær, að talsmenn Alþb. og Alþfl. hafi greinilega ekki hlustað á þann fréttaauka sem fluttur var í Ríkisútvarpinu í gærkvöld, en þar var haft viðtal við hagfræðing sem vinnur hjá EFTA í Genf og heitir Björn Matthíasson. Hann var spurður af fréttamanni, hvernig ástandið væri í EFTA-löndunum. Og hann lét nokkuð vel af því, hvernig þau hefðu komist í gegnum olíukreppu og önnur vandræði. Þá spurði fréttamaður hann sérstaklega hvernig staða Íslands væri í þessu sambandi. Og ef ég man rétt sagði hagfræðingurinn: Ísland er eins og skínandi stjarna í þessum hópi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Þið hafið ekkert atvinnuleysi, þið hafið aukinn hagvöxt og þið hafið betri lífsafkomu en þið hafið áður haft. Ég tel ástæðu til þess að minna á þetta þegar því er haldið fram af hæstv. ráðh., bæði, Alþ. og Alþfl., að viðskilnaður síðustu stjórnar hafi verið með þvílíkum endemum að það sé nánast óviðráðanlegt vandamál að ráða fram úr því. Og ég segi það alveg hiklaust, að ég mun ekki una því til frambúðar að slíkum fjarstæðum sé haldið fram, jafnvel þó að þeir geri það sem ég nú styð til stjórnarsetu.

Það þarf auðvitað ekki að minna hv. þm. á það, að ýmis loforð voru gefin af þessum flokkum fyrir s. l. kosningar. Eitt af þeim loforðum var: „samningana í gildi“. Nú hefur það gerst, að Kjaradómur hefur kveðið upp dóm um að svokölluðu vísitöluþaki skuli lyft af launum Bandalags háskólamanna. Í Morgunblaðinu í dag er viðtal við einn af þeim mönnum, sem heimtuðu hvað ákafast „samningana í gildi“, og hann spurður álits á þessum dómi. Og álit hans er skýrt og skorinort: „Vont er þeirra ranglæti, en verra er þeirra réttlæti.“ Sem sagt, þessi dómur er að hans mati fráleitur. En þarna er verið að setja samningana í gildi — er það ekki? Voru það ekki þessi laun sem þessir menn sömdu um? Það getur vel verið að ýmsum þyki betra að hafa samningana í gildi, og það má náttúrlega segja að það sé siðferðilega rétt að samningar séu í gildi. En hvaða munur er á því í reynd, að launagreiðslur séu nokkuð skertar eða skattaálögur verulega hækkaðar? Munurinn er einfaldlega sá, að fólkið fær fleiri krónur í hendur til þess að ganga með niður í Gjaldheimtu og skila þar. Þetta náttúrlega eykur atvinnuna og spornar gegn því atvinnuleysi sem við erum allir að berjast við, en önnur áhrif á hag launafólks held ég tæpast að um sé að tefla.

Þó að ég hafi nú sagt þetta vil ég taka fram, eins og ég raunar gerði í upphafi, að ég hef alla tíð eindregið verið fylgjandi þessari ríkisstj. og er enn. Ástæðan er þó ekki sú, að ég sé svo yfir mig hrifinn af öllu sem stjórnin hefur gert. Ástæða fyrir þessari afstöðu minni er fyrst og fremst sú, að með skipbroti þessarar ríkisstj. fara fyrir borð um langa framtíð vonir þeirra manna sem telja sig hafa starfað og vilja geta haldið áfram að starfa í anda samvinnu og félagshyggju. Þessu vil ég með atkv. mínu freista að afstýra. En öllu eru þó takmörk sett. Ég mun ekki miklu lengur, frekar en ýmsir aðrir, sætta mig við þessa endalausu grautargerð, sem fyrir utan það að vera orðin vítamínlaus fyrir lifandi löngu er líka áreiðanlega orðin lífshættuleg fæða öllu venjulegu fólki, þótt vera kunni að einstaka ofurmenni þoli inntökuna enn. Ég er hræddur um að ef þessu heldur svona áfram reki að því, sem Grímur Thomsen orðar svo á einhverjum stað, að enginn þoli drykkinn nema jötnar.

Þá langar mig í þessu sambandi að nefna það einu sinni enn, að sá hringleikahússýningarleikur, sem undanfarna daga, vikur, mánuði hefur sett svipmót sitt á störf Alþingis, hefur þegar gengið mikils til of langt og er orðinn fyrir löngu þeim sem taka þátt í honum til ævarandi skammar. Já, og ekki einungis þeim, heldur líka okkur hinum, sem fram að þessu höfum látið bjóða okkur að horfa upp á og hlusta á þessi skrípalæti. Ef það er svona virðing sem þessir hv. þm. vilja sýna þeirri stofnun, Alþ., sem þeir nú starfa í, sýnist mér ekki vera nema tvennt til: annaðhvort er að loka Iðnó og Þjóðleikhúsinu og flytja allar sýningar í Austurbæjarbíó og sýna þar um miðnætti á þeim forsendum að önnur gamanmál séu flutt við Austurvöll milli kl. 2 og 4 á daginn eða þá að flytja öll gamanmál í húsið hérna og loka öllum öðrum skemmtistöðum borgarinnar — og selja þá dýrt inn til þess að rétta við fjárhag ríkissjóðs, því að það getur vel verið að einhvetjir vildu koma. Það má vel vera að þetta sé til athugunar á æðri stöðum, ég skal ekkert um það segja. En mikil umskipti mundi þá vera orðin í þessu húsi frá því að hér var lagður grundvöllur að sjálfstæði landsins og fleiri alvörumál voru rædd og til lykta leidd. Þetta er eflaust tímanna tákn, og auðvitað er það hárrétt, sem einhvers staðar var sagt, að þjóð á ekki skilið betri þm. en hún hefur sjálf kosið sér. Gleggsta dæmið, sem ég hef rekið mig á um niðurlægingu Alþingis, er að finna í leiðara Dagblaðsins í gær, en þar er yfirstandandi þing talið eitt hið allra skemmtilegasta og þá að sama skapi eflaust merkasta í samanlagðri sögu Alþingis. Þegar Dagblaðið fellir þennan dóm er ég fyrst algerlega sannfærður um að hér er alvörumál á ferðinni sem þarf að ráða bætur á.

Ég get svo sem látið þess getið að jafnvel ég kann nokkrar gamansögur sem ég gæti haft yfir hér og kannske skemmt vissum hluta þjóðarinnar með — og jafnvel fengið mynd af mér í Dagblaðinu ef mér tækist vel upp. En ég tel ekki að ég hafi verið kosinn hingað til slíks, heldur til hins, að reyna að hjálpa til við að ráða fram úr þeim óumdeilanlega vanda sem íslensk þjóð stendur nú frammi fyrir. Þessa mun ég nú enn um sinn freista, en að lokum í þessum kafla aðeins segja það, að svo mikils virði er þingmennskan mér ekki að ég vilji allt í sölur leggja til þess að halda henni.

Það hefur verið minnst á það hér að atvinnuvegirnir séu undirstaðan, og vissulega ber enginn á móti því, og það þurfi að búa framleiðslunni hagstæð skilyrði, eins og ég held að hv. 1. þm. Reykn. hafi komist að orði. Þetta er nákvæmlega það sem þessi ríkisstj. hefur fram að þessu verið að gera. Hún hefur haldið áfram því verki sem undanfarið hefur verið unnið að og er unnið að, að atvinnurekstur gæti verið starfandi í landinu. Og við skulum gæta þess, að ef undirstaðan brestur er yfirbyggingunni hætt.

Svona til þess að ljúka máli mínu í þeim stíl, sem ég var að reyna að temja mér í upphafi, vil ég gjarnan líkja þessu við eftirfarandi: Sagan segir að maður hafi staðið í stiga og verið að mála tiltekið sjúkrahús, þá hafi komið þar að einn af þeim, sem þar var sjúklingur, horft á hann um stund og sagt: Hvað ert þú að gera? — Og hinn segir: Ég er að mála húsið. — En svo allt í einu segir sjúklingurinn: Haltu nú fast í pensilinn, því að nú tek ég stigann. — Það er einmitt þetta sem aldrei má gerast hjá okkur, að undirstaðan sé tekin, því að þá hrapar þjóðfélagið. Þess vegna er áríðandi að þessi ríkisstj. geti komið sér saman um tillögur og úrræði, sem dugi til þess að atvinnulífið geti haldið áfram, sem dugi til þess að þjóðin geti búið við áframhaldandi hagstæð lífskjör, til þess að Ísland geti haldið áfram að vera eins og lýsandi stjarna í hópi þeirra ríkja sem borið er saman við.