07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2385)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það er satt að segja ekki ýkjamargt í þessum umr. af því tagi að nauðsynlegt sé að svarað sé. Þó eru ýmsir athyglisverðir punktar sem ekki er fráleitt að drepa lítillega á.

Þeir framsóknarmenn hafa t. d. sýnt af sér meiri frumleika í samlíkingum en þeir eru vanir í þessum umr. Hv. 1. þm. Norðurl. e. komst þannig að orði í gær, að þeir framsóknarmenn væru, skildist mér, búnir að éta kratana og langleiðina komnir með okkur, en hins vegar heldur hv. 2. þm. Vestf., Gunnlaugur Finnsson, sig öðruvísi að málinu, en þó á sviði gastronómíunnar, og talar um að hann vænti þess mjög fastlega að við höfum kok og maga til þess að gleypa stóryrðin frá í kosningabaráttunni í vor. (GF: Sem hafa átt sér stað hér að undanförnu.) Já, stóryrði, sem fallið hafa hér síðustu daga, en ekki fyrir kosningar, það megi sleppa þeim. Þannig hafa hv. þm. Framsfl., að ég tali nú ekki um hv. þm. Einar Ágústsson með söguna um pensilinn og stigann, sem er einhver sú fróðlegasta sem ég hef heyrt hér héðan úr þessum ræðustól, verið með allra skemmtilegasta móti í þessum umr. Ég vildi aðeins vekja á því athygli, vegna þess að það er ekki ákaflega algengt.

Hv. 1. þm. Reykn., Matthías Á. Mathiesen, flutti þá gömlu ræðu sem hv. 4. þm. Reykv. hefur verið að flytja hér í allan vetur og Morgunblaðið verið að prenta upp nokkurn veginn daglega, um það, að við höfum svikið kosningaloforðin um samningana í gildi, að við séum að skattpína fólkið í landinu, niðurgreiðslurnar séu fölsun vísitölunnar og félagslegar umbætur, sem heitið var um 1. des., séu einskis virði.

Ég vil í fyrsta lagi segja, að það liggur vitaskuld fyrir samkv. lögum um kjaramál, sem sett voru 6. sept. s. l., að samningarnir voru settir í gildi. Og ég vil minna á að sá, sem mótaði kjörorðið „samningana í gildi“, var fyrrv. og reyndar núv. forseti Alþýðusambands Íslands, Björn Jónsson. Við tókum mjög eindregið undir það kjörorð í kosningabaráttunni og erum ekki tilbúnir að gleyma þessu kjörorði eða slá af því. Hins vegar er það alveg rétt, sem hér hefur komið fram og einna best hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, að með hlutfallslegu vísitölukerfi, sem mælir upp úr, er auðvitað verið að tryggja tilteknum hópum auknar bætur umfram láglaunafólkið. Ég segi fyrir mig persónulega, að ég er andvígur slíku kerfi. Ég tel, að vísitölubætur eigi ekki að koma hlutfallslega upp eftir öllum launastiganum.

Nú liggur fyrir dómur Kjaradóms að því er varðar laun Bandatags háskólamanna og við því er ekkert að gera. Hann liggur fyrir og mun vera óáfrýjanlegur. En það breytir ekki þeirri skoðun minni, að ég tel að vísitölukerfi, sem afhendir hálaunamönnum margfaldar bætur á við það sem láglaunamenn fá, sé í grundvallaratriðum rangt. Við Alþb.-menn höfum ekki dregið neina dul á þetta í málflutningi okkar, hvorki nú að undanförnu né heldur fyrir kosningarnar. Ég hygg að það hafi a. m. k. komið mjög skýrt fram í skrifum mínum og málflutningi ýmissa okkar fyrir síðustu alþingiskosningar, að við töldum að vísitölukerfið, sem mældi hlutfallslega upp úr, væri í raun og veru ranglátt. Hins vegar hefur það verið þannig, að verkalýðshreyfingin í landinu hefur tekið þannig á málunum undanfarin ár og áratugi í kjarasamningum, a. m. k. alþýðusambandsfélögin, að gera kröfur um að vísitölubætur kæmu í krónutölu á tiltekinn stað í launaskalanum. En þá hefur það komið á daginn hvað eftir annað, að atvinnurekendasamtökin, Vinnuveitendasamband Íslands, m. a., hafa krafist þess, að þetta mældi alla leið upp úr. Þá hefur auðvitað verið býsna vandasamt, eins og allir skilja, fyrir talsmenn verkalýðsfélaganna að setja sig upp á móti vísitölubótum af þessu tagi handa tilteknum hópum innan raða Alþýðusambands Íslands t. d.

Hér er engan veginn um einfalt mál að ræða fyrir verkalýðshreyfinguna. En ég vil láta það koma fram, að af hálfu Alþýðusambandsins hefur sú stefna yfirleitt verið ljós, að það hefur talið að vísitölubætur ættu ekki að mæla hlutfallslega upp úr. Og ég man ekki betur en að einmitt í samþykkt alþýðusambandsþingsins haustið 1976, sem var undanfari samninganna vorið 1977, hafi þessum grundvallaratriðum verið slegið föstum.

Hv. 1. þm. Reykn. flutti áðan eftir formanni sínum eins og fyrri daginn, að við í þessari ríkisstj. hefðum verið að skattpína landsmenn. Við viðurkennum vitaskuld að við höfum lagt skatta í mjög verulegum mæli á fyrirtæki og ýmsa aðra aðila. Við höfum lagt sérstakan skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði, við höfum lagt á nýbyggingargjald, við höfum dregið úr þeim skattafrádráttum sem fyrirtæki hafa fengið út á fyrningar. Við höfum hins vegar notað þessa peninga til þess að greiða niður matvörur og til þess að fella niður söluskatt á matvælum. Ég er alveg sannfærður um að þessi skattastefna, sem núv. ríkisstj. mótaði með kjaramálalögunum 6. sept. s. l., kemur launafólki í landinu til góða og alveg sérstaklega láglaunafólki. Þessi skattastefna kemur við hálaunafólk, hún kemur við stóreignamenn og hún kemur við fyrirtæki, það er alveg rétt, en hún kemur láglaunafólkinu í landinu hins vegar til góða. Á því er ekki nokkur vafi og það viðurkenna allir sanngjarnir menn sem athuga þetta nákvæmlega.

Þess vegna er það tal vitaskuld alveg fráleitt, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur haft uppi hvað eftir annað í umr. að undanförnu og m. a. í gærkvöld, að niðurgreiðslurnar jafngiltu vísitölufölsun. Þetta er þvílík endileysa, og hún er þeim mun dapurlegri að heyra úr hans munni vegna þess að hann veit að þetta er vitleysa. En hann tyggur þetta hins vegar nógu oft, — svo oft að einstakir flokksmenn hans, eins og t. d. hv. 1. þm. Reykn., eru farnir að trúa þessu, og blaðakosti Sjálfstfl. gervöllum, Morgunblaðinu, hefur verið beitt til að troða þessari kenningu upp á landsmenn. En ég hygg að hver einasti maður, sem hefur af eigin raun kynnst þeim breytingum sem orðið hafa á verðlagi matvæla á undanförnum mánuðum vegna fyrstu ráðstafana ríkisstj. í sept. og des., hver einasti slíkur maður viðurkenni að þarna hafi núv. ríkisstj. gert rétt og skynsamlega.

Síðan kom það atriði fram hjá hv. 1. þm. Reykn., að „félagslegi pakkinn“, sem svo var kallaður, eða sérstakar aðgerðir í félagsmálum, væri afar ómerkilegur og lítilfjörlegur í raun og veru. Þegar þessir talsmenn Sjálfstfl. koma í ræðustól við slíkar kringumstæður, þá kveður við þessi tónn. Þegar hins vegar þessi mál eru til umr. í deildum Alþ. sem einstök þingmál, hin félagslegu málefni, ætlar allt um koll að keyra af hálfu Sjálfstfl. Þá er verið að drepa atvinnuvegina með álögum og byrðum sem þessi félagslegi pakki veldur. Og hvað þýðir það þá? Auðvitað það, að þessi félagslegi þáttur, sem lofað var í kringum 1. des., kemur launafólkinu í landinu til góða. Þetta viðurkenna hv. þm. Sjálfstfl. í raun í verkum sínum, í afstöðu sinni til þessara frv. þegar þau koma til meðferðar í d. hv. Alþingis.

Annars var skemmtilegast að heyra í hv. 1. þm. Reykn. þegar hann var að lýsa frelsinu í Sjálfstfl. og tók þannig til orða, sem ég vissi ekki fyrr, að þar væru beinlínis starfandi fjölmargir skoðanahópar. Hins vegar vissi ég fyrr að það væru fleiri hópar í Sjálfstæðisflokknum en í nokkrum öðrum flokki, eins og hann orðaði það í ræðu sinni. Aftur á móti lagði hann mjög mikla áherslu á að við þm. stjórnarflokkanna ættum ekki að hafa miklar áhyggjur af innanflokksástandinu í Sjálfstfl., og ég segi fyrir mig að ég hef ekki nokkrar áhyggjur af því, hv. þm. Matthías Á. Mathiesen, — ekki nokkrar áhyggjur. Mér sýnist þvert á móti að innanflokksástandið í Sjálfstfl. sé með miklum ágætum miðað við það sem við andstæðingar flokksins hljótum að óska eftir. Þetta kom t. d. mjög vel fram í skrifum Morgunblaðsins í haust. Þar komst t. d, hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir svo að orði þegar hún var að lýsa ástandinu í eigin flokki:

„Á það hefur oft verið bent, að þingflokkurinn gæti unnið miklu betra starf en hann gerir og hefur gert um nokkurra ára skeið. Til þess að svo megi verða þarf mörgu að breyta. Ekki er hægt að horfa fram hjá því, að miklu veldur hver á heldur. En þá er komið að viðkvæmu máli“, segir þm. og orðrétt: „Það er afar þjakandi hve mjög menn eru hræddir hver við annan í þingflokki Sjálfstfl.“ Og þm. heldur áfram: „Menn verða að geta verið óhræddir við að segja það, sem þeir meina, og gera það, sem þeim finnst sjálfum rétt.“

Ég vil vekja athygli á því, að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir var ekki í þessari grein sinni að lýsa ástandinu í austantjaldsríkjunum, heldur innanflokksástandinu á fundum í þingflokki Sjálfstfl. Og ég verð að segja fyrir mig, að svona lýsing hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur á ástandi innan Sjálfstfl. gleður mig ákaflega. Hún sýnir að Sjálfstfl. er á réttri braut. Það er á þessari forsendu auðvitað, vegna hins gagnkvæma og þjakandi ótta, sem hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir lýsti svo átakanlega s. l. haust að ríkti í þingliði Sjálfstfl., að það tók allan þennan tíma, 6 mánuði frá myndun stjórnarinnar, að koma flokknum saman um eina till., og þá er það þessi vesældarpappír sem hér liggur fyrir um þingrof og nýjar kosningar.

Það er mikil hreysti hins vegar, sem birtist í því af talsmanni Sjálfstfl. í umr. t. d. í gærkvöld, hv. 4. þm. Reykv. — og hv. 1. þm. Reykn., ég tala nú ekki um fyrrv. fjmrh., þegar þeir bölsótast yfir efnahagsstefnu núv. ríkisstj. í einu og öllu. Í því sambandi láðist þessum mönnum auðvitað að rifja upp hvernig hlutirnir voru á þeim tíma t. d. þegar hv. þm. Matthías Á. Mathiesen fór með fjármál íslenska ríkisins. Matthías Á. Mathiesen hlýtur að muna eftir því t. d., hvernig ríkissjóður kom út árið 1975. Þá var halli ríkissjóðs 7.5 milljarðar, en tekjur 51 milljarður. Samsvarandi hlutföll fyrir árið 1979 ættu að vera 30 milljarða kr. halli á ríkissjóði. Menn, sem hafa afrekað annað eins og þetta, eru að sjálfsögðu kjörnir til þess að koma hingað upp í ræðustól til þess að leiðbeina núv. ríkisstj. um það, hvernig hún á að halda á málum. Hitt efast ég um, að almenningur í landinu sé búinn að gleyma þeirra eigin ráðslagi og vinnubrögðum.

Hv. þm. Matthías Bjarnason, svo að ég nefni það nafn, segir að fráfarandi ríkisstj. hafi unnið frækna sigra á verðbólgunni. Matthías Bjarnason, hv. 1. þm. Vestf., er jafnan skemmtinn hér í ræðustól og svo var í þetta skipti. Hins vegar eru auðvitað takmörk fyrir því, hvað þm. geta boðið eigin flokksbræðrum í skopi og kaldhæðni af því tagi sem hv. þm. Matthías Bjarnason flutti hér áðan.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson lýsti því yfir, þegar hann tók við sem forsrh. 1974, að hann ætlaði að koma verðbólgunni niður í 15% mjög fljótlega. Tölur tala sínu máli um þann frækilega árangur hv. þm. Geirs Hallgrímssonar í þessum efnum. Árið 1975, á fyrsta heila valdaári hægri stjórnarinnar, var verðbólga 48.5%, þ. e. hækkun vísitölu framfærslukostnaðar. Árið 1976, á öðru heilu ári hægri stjórnarinnar, var verðbólgan 32.2%. Og árið 1977, á þriðja heilu ári hægri stjórnarinnar, var verðbólgan 30.5%. Ekki stafaði verðbólgan árið 1975 af því að kaupmáttur launataxtanna í landinu væri að vaxa mjög mikið, því að á þessu sama ári og verðbólgan jókst um 48.5% mælt á kvarða vísitölu framfærslukostnaðar skertist kaupmáttur atvinnutekna, eins og það er kallað í Hagtölum mánaðarins, um 15.5% og kaupmáttur ráðstöfunartekna um 16.4%. Á þessu sama ári varð að vísu verulegur eða 6% samdráttur í þjóðartekjum á mann, vergum þjóðartekjum, en þær höfðu þó farið mjög verulega vaxandi næstu árin á undan. Þegar þessir menn koma svo hingað upp á hv. Alþ. með tillögur og leiðbeiningar, þá er von að öðrum hv. þm. hætti til þess að taka það sem gamanmál. En ég verð að endurtaka það, að ég tel að þó að hv. 1. þm. Vestf. sé gamansamur og skemmtinn hljóti að vera takmörk fyrir því, hvaða kaldhæðni hann getur boðið hv. formanni Sjálfstfl. Geir Hallgrímssyni. Það er ekki hægt, hv. 1. þm. Vestf., að segja að hv. þm. Geir Hallgrímsson hafi unnið frækna sigra á verðbólgunni. Það er örugglega ekki hægt.

Það er nokkuð til í því sem hv. þm. Gunnlaugur Finnsson nefndi áðan, að það er engu líkara en Alþfl. hafi gleymt kjörorðinu um samningana í gildi. Þetta hefur verið mikið vandamál hjá okkur í ríkisstj., satt best að segja, að Alþfl. virðist hafa gleymt þessu kjörorði og telji að það sé kleift að standa að því að skerða kjör með þeim hætti sem kom fram í frv. því sem Alþfl. birti lesendum Alþýðublaðsins um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum sem kom út fyrir jólin. Þar var gert ráð fyrir lögbundinni kaupskerðingu, það fer ekkert á milli mála. Það kemur mér ekkert á óvart þó að Framsfl. detti slíkt í hug. Það kemur mér ekkert á óvart miðað við þá fortíð sem hann átti þegar hann var í ríkisstj. með hv. þm. Geir Hallgrímssyni. Ég er ekki búinn að gleyma Framsfl., hvernig hann hagaði sér á þeim tíma. Ég tel enga ástæðu til þess að draga neina fjöður yfir það. En það kom mér — a. m. k. fyrst — á óvart hvað Alþfl. virtist vera létt um að gleyma þessu kjörorði, sem þó einn af forustumönnum Alþfl. mótaði fyrir kosningarnar 1978, Björn Jónsson.

till., sem hér liggur fyrir, fær að sjálfsögðu eðlilega og þinglega afgreiðslu. Um hana er ekki margt fleira að segja. Þessi till. hlýtur að verða felld. Um brtt. Braga Sigurjónssonar, hv. 3. þm. Norðurl. e., veit ég hins vegar ekki. Ég geri ráð fyrir að hún verði felld líka. Hún gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. fái enn einn frestinn. Ríkisstj. fékk samkv. almanaksveiki Alþfl. einn frest til 1. mars. Það var afmælisdagur hæstv. forsrh. Og nú á ríkisstj. að fá frest til 17. mars, en það er afmælisdagur hv. þm. Páls Péturssonar, sem er 2. þm. Framsfl. í Norðurl. v. Þannig ber þessi till. hv. þm. Braga Sigurjónssonar auðvitað mjög keim af þessari alvarlegu veiki, almanakssýkinni, sem grasserar í Alþfl. um þessar mundir. Við því er ekkert að gera, þetta er eins og hver önnur flensa sem vonandi gengur yfir.