07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3050 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Sú ríkisstj., sem nú situr að völdum í þessu landi, vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar, hefur setið í 6 mánuði og fengið góðan frið til að athafna sig, enda er það regla í stjórnmálum að nýjar stjórnir fá hjá almenningi tækifæri til að sýna, hvað í þeim býr, óáreittar, a. m. k. um tíma. Nú er þessi reynslutími liðinn og almenningur er farinn að spyrja um árangur.

Það má segja í stuttu máli, að árangurinn sé í fyrsta lagi: Íslandsmet í skattpíningu, sem hæstv. viðskrh. var að viðurkenna hér úr ræðustól áðan með því að rifja upp, hvernig því meti var náð, með því að rifja það upp, hvernig þeir lögðu skatt á skrifstofu- og verslunarhúsnæði þeirra fyrirtækja sem gátu ekki greitt full laun að þeirra áliti, hvernig lagt var á nýbyggingargjald, hvernig var komið í veg fyrir að fyrirtæki gætu endurnýjað vélakost sinn og húsakost með lækkun fyrningarreglna. Allt þetta var að sjálfsögðu gert, eins og hæstv. ráðh. drap á, til að greiða niður matvörur og fella niður skatt af matvörum. Þegar þessi hæstv. ríkisstj. lækkar skatta, þá talar hún um kjarabætur, þegar hún hækkar skatta, þá minnist hún aldrei á kjararýrnun. Hvernig í ósköpunum stendur á þessu?

Varðandi niðurgreiðslurnar skal það sagt, að þar er um að ræða einhverja dýrustu gerð millifærslu sem við eigum kost á í þessu landi. Það getur vel verið að það sé einmitt þess vegna sem núv. hæstv. ríkisstj., — og það ætti talsmaður hennar hér á þingi að, vita, sá eini sem hér er staddur, hæstv. ráðh. Svavar Gestsson, — hún er að gefast upp á þessari millifærsluleið, á þessari niðurgreiðsluleið, eins og hefur komið fram hér í þingsölum að undanförnu. Þetta er dýr leið, vegna þess að þeir, sem betur mega sín, njóta að sjálfsögðu þessara niðurgreiðslna. Þetta breytir neysluvenjum fólks, og má gera ráð fyrir að þeir, sem eru hærra launaðir, þeir, sem hafa meiri tekjur, meira ráðstöfunarfé, kaupi meira af þeirri vöru, sem er niðurgreidd, en jafnvel þeir, sem þetta var ætlað, þeir haldi áfram að kaupa enn aðrar vörur, sem ekki njóta niðurgreiðslnanna.

Síðan kemur þessi ráðh., hæstv. viðskrh., hér í ræðustól og neitar því, að um fölsun á vísitölunni hafi verið að ræða. Er það ekki fölsun á vísitölunni, þegar niðurgreiddar eru vörur sem ekki eru til í landinu, sem ekki eru til á boðstólum nema þá bara á pappírnum? Er þetta ekki að falsa vísitöluna? Hvað er þetta annars? Í mínum augum er þetta fölsun. Það getur vel verið að Alþb. ráðh. kunni að gefa þessu eitthvert annað nafn, en ég spyr bara: Ef þetta er ekki fölsun, hvað er þetta þá?

Í öðru lagi hefur náðst sá árangur af þessari ríkisstj., að stjórnarflokkarnir, a. m. k. tveir þeirra, sem kallaðir voru rauðu tvílembingarnir fyrir kosningar, — það er varla hægt að tala um að þeir séu Síamstvíburar lengur því að það langt er á milli þeirra, einn flokkur, Framsfl., getur dinglað á milli þeirra, — þessir flokkar sviku kosningaloforð sín. Hér var í ræðustólnum hæstv. viðskrh. og var að neita því, að þeir hefðu svikið loforð sín, kosningaloforð, slagorðið: samningana í gildi, sem Björn Jónsson hafði samið fyrir þá fyrir kosningar. Mér verður á að spyrja: Hvar eru þær 8% verðbætur sem áttu að leggjast á tekjur fyrir jól, 1. des.? Af hverju komu þær ekki á tekjurnar? Það var vegna þess að fyrirtækin í landinu höfðu að áliti þessarar ágætu ríkisstj. ekki efni á því að greiða þessi laun. Það var mat ríkisstj. og þess vegna var farin önnur leið. Það var farin sú leið að rétta þeim í staðinn svokallaðar félagslegar úrbætur. Félagslegar úrbætur áttu að koma í staðinn fyrir þessi 8% eða hluta af þeim á tímabilinu frá 1. des. 1978 til 1. mars 1979. Tökum eftir þessu. En hvenær koma þessar félagslegu úrbætur? 1. mars er kominn, en sumar úrbæturnar eiga að sjálfsögðu ekki að sjá dagsins ljós fyrr en jafnvel á árinu 1982, svo að ég noti orð hæstv. viðskrh. sjálfs hér í ræðustól á sínum tíma þegar þessar ráðstafanir voru til umr. á Alþingi.

Síðan kemur hæstv. viðskrh. með enn eina fullyrðinguna, sem sé þá, að hans flokkur, Alþb., sé mesti launajöfnunarflokkur á Íslandi. Tókuð þið eftir þessu? Alþb. er mesti launajöfnunarflokkur á Íslandi. Man þáv. ritstjóri Þjóðviljans ekki eftir því, að vorið 1974, þegar fyrri — og ég undirstrika: fyrri ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, því að vonandi er þetta sú síðari og síðasta af þeim öllum sem nú situr og er nú væntanlega að fara, hrökklaðist frá völdum vegna þess að það var þá samið langt umfram það sem hún treysti sér til þess að láta ná fram að ganga? Hvernig voru þeir samningar? Var ekki Alþb. í ríkisstj.? Hvernig voru þeir samningar? Þeir voru þannig, að aldrei fyrr hafði verið meiri munur á launum þeirra hæstu og þeirra lægstu í Alþýðusambandi Íslands, og var það ekki helvítis íhaldið sem kom þarna nálægt? Var það ekki íhaldið sem spillti þessum samningum? Nei, það var ekki íhaldið, það voru sjálfir verkalýðsforingjar kommúnista, sem þar bárust á banaspjót og reyndu að vega hverjir aðra. Þetta skulum við hafa hugfast þegar hæstv. viðskrh. kemur hér í ræðustól á Alþ. og segir: Við í Alþb. erum fulltrúar þeirra sem eru launajöfnunarmenn. — Er svona lagað hægt?

Í þriðja lagi, og það er kannske það sem er einna mest áberandi, má meta árangur ríkisstj. fyrst og fremst á því, hvernig henni hefur tekist að sýna hálfgerðan hnefaleik með tilkomumiklum innbyrðis átökum. Eftir því verður munað.

Á sex mánaða afmæli ríkisstj. er orðið ljóst, að í fyrsta lagi hefur Alþb. aldrei ætlað sér að ráðast gegn verðbólgunni. Það telur önnur markmið vera æðri. Í öðru lagi hefur Framsfl., einkum foringi hans, hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson, engar hugsjónir aðrar en þær að sitja í stjórn. Sáttasemjarahlutverkið, sem þeir guma af, byggist á því að gefa Alþfl. og Alþb. til skiptis undir fótinn. Í þriðja lagi, hefur Alþfl. verið dreginn á asnaeyrunum allan stjórnartímann án nokkurs sjáanlegs árangurs fyrir sína stefnu. Það er athyglisvert að heyra þá yfirlýsingu kratanna nú, að þeir muni ekki styðja framkomna þáltill. Sjálfstfl. um þingrof og nýjar kosningar í ljósi þess sem Þjóðviljinn hefur eftir hv. þm. Vilmundi Gylfasyni nú í morgun, þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Stjórnin er efnahagslega dauð. Það er aðeins smekksatriði hve henni er haldið lengi á floti.“ Stuðningurinn grundvallast ekki lengur á hugsjónum eða framtíðarvonum, heldur aðeins á geðþóttaákvörðun Alþfl. hvenær slátrun skal fara fram. Þetta er nú ærið köld kveðja til samstarfsflokkanna. Formaður þingflokks Alþfl. reynir aðeins að bera í bætifláka fyrir stjórnina með þeirri yfirlýsingu sinni í blöðum nú um helgina, að í raun sé stjórnarmyndunartilraununum ekki lokið þótt formlega hafi verið mynduð ríkisstj. s. l. haust. Sem sagt, þegar hv. þm. Vilmundur Gylfason segir að það sé aðeins smekksatriði hvenær stjórnin sé slegin af, þá segir hv. þm. og flokksbróðir hans, Sighvatur Björgvinsson, að hún sé ekki kominn í heiminn. Það er von að stjórninni sé líkt við andvana örverpi; eins og sumir hafa gert.

Þátttaka Alþfl. í þessari hæstv. ríkisstj. hefur verið mikil harmsaga frá upphafi. Hann vann í kosningunum stóran sigur sem nú hefur breyst í martröð. Eins og allir muna taka Alþfl.-menn mikið mark á skoðanakönnunum, enda hafa þær reynst sannspáar. Oft og tíðum voru þær það t. d. fyrir síðustu kosningar. Nú kom ein slík spá í dag hjá Dagblaðinu, og ég leyfi mér — með leyfi forseta — að lesa hér smáklausu úr Dagblaðinu í dag. Þar segir um úrslit þessarar skoðanakönnunar:

Alþfl. mundi nú fá 15.1% atkv. og tapa hátt í þriðjung fylgisins. Alþfl. fékk 22% í síðustu kosningum, fylgi flokksins var 21.1% samkv. könnun Dagblaðsins í desember.“

Auðvitað má ekki taka slíkar kannanir bókstaflega. En ég held að Alþfl.-menn geti verið sammála mér um það, að slíkar kannanir sýna ákveðna tilhneigingu, og þetta er dómur um hve mikinn árangur þeir hafa upp skorið í þessari ríkisstj. Mér segir svo hugur um, að kjósendur séu búnir að missa trú á Alþfl., ekki síst vegna síendurtekinnar undansláttarstefnu hans, eins og hún birtist í þeim almanaksleik sem þm. hans hafa stundað hér á Alþ. í allan vetur og hæstv. viðskrh. kallaði hér réttilega áðan almanakssýki. Sú sýki hófst s. l. haust, 1. sept., þegar gerðar voru ráðstafanir og í kjölfar þeirra lýsti hv. þm. Vilmundur Gylfason yfir að hæstv. utanrrh. hafi verið of heiðarlegur og bláeygur í viðskiptum við Lúðvík Jósepsson, hæstv. yfirráðh. þessarar ríkisstj., svo ég gleymi nú ekki að titla hann með sæmd eins og hann á skilið, og hæstv. forsrh. Með leyfi forseta langar mig til að lesa hér örstutt úr grein sem hv. þm. Vilmundur skrifaði 7. sept. í Dagblaðið. Hún er svohljóðandi:

Alþfl. vann í vor mesta kosningasigur í sögu lýðveldisins. Því er ekki að neita að sá kosningasigur hefur illilega forklúðrast nú um sinn. Hann hefur forklúðrast sennilega fyrst og fremst vegna þess að okkar foringi var of heiðarlegur, kurteis og bláeygur til þess að eiga

pólitísk viðskipti við Ólaf Jóhannesson og Lúðvík Jósepsson, leifarnar af pólitísku kerfi sem er að ganga sér til húðar.“ Og síðar í sömu grein segir hann:

Alþfl. vann kosningasigur vegna þess að hann ætlaði að ráða bug á verðbólgu með gerbreyttri efnahagsstefnu. Þessi ríkisstj. markar ekki gerbreytta efnahagsstefnu. Frambjóðendur Alþfl. í vor vörðu raunvexti og þjóðhagsvísitölu. Hvorugt er til vinsælda fallið samkv. gömlu skrumformúlunum. En fólkið sá og skildi og kaus Alþfl. Alþfl. barðist fyrir þéttriðnu neti af umbótum, uppskurði gegn skattsvikum og neðanjarðarhagkerfi yfir höfuð að tala, umbótum á dómskerfi og atlögu gegn efnahagslegum afbrotum. Þessa sér enn ekki merki. Lúðvík Jósepsson og Ólafur Jóhannesson skilja þetta ekki. En þeir vilja ná sér niðri á Alþfl., þó ástæðurnar séu ólíkar. Og vissulega hefur þeim tekist það í bili.“

Ég vek athygli hv. þm. á því, að ég er ekki að lesa grein eftir Vilmund Gylfason sem birtist í Dagblaðinu í gær. Ég er að lesa grein eftir hv. þm. Vilmund Gylfason sem birtist í Dagblaðinu fyrir sléttum 6 mánuðum, 7. sept. Í dag er 7. mars árið eftir. Þessi grein hefði samt sem áður vel getað verið skrifuð í gær, nema nú liggur fyrir að við höfum 6 mánaða reynslu af undanslætti þessa hv. þm. Hann hefur að vísu haft stór orð á hverjum degi hér í þingsölunum, en það hefur ekkert komið út úr því — ekki neitt, og nú eru atkv. farin að hrynja af þessum spekingum í Alþfl.

En stuðningurinn í haust, stuðningur hv. þm. Vilmundar Gylfasonar við ríkisstj., réttlættist þrátt fyrir allt þetta af því, að fyrir 1. des. yrði tekið tillit til kratanna. Það var ekki gert, eins og allir vita, og hv. þm. Bragi Sigurjónsson sagði af sér forsetatign í Ed. með braki og brestum. Hann vildi ekki vera samstarfstákn ríkisstj. sem notar rangleitnar og bitlausar aðgerðir gegn verðbólgunni.

Eftir að kratarnir höfðu enn einu sinni látið í minni pokann 1. des. var almanakið stillt á jólin, þ. e. a. s. við afgreiðslu fjárl. Allt fór á sömu leið. Það var sorgleg sjón að horfa á allt þinglið Alþfl. þurfa að greiða atkv, gegn eigin sparnaðartillögum og fá í staðinn loðið loforð hæstv. forsrh. um að eitthvað ætti að gerast eftir jólin.

Aftur var dagatal kratanna dregið fram og nú var gerður kross við 1. febr. Svo komu fréttir frá útlöndum, nánar til tekið frá Noregi, þar sem hæstv. utanrrh. lét hafa það eftir sér, að stjórnin væri í hættu ef ekki væri búið að leysa málið fyrir 1. febr. (StJ: Hann var í Svíþjóð.) Var hann í Svíþjóð, ég biðst afsökunar á því. Hann var í Stokkhólmi, það leiðréttist hér með. Alla vega bárust fréttir utan úr hinum stóra heimi, en þaðan berst nú ýmislegt fleira frá þessum ágæta hæstv. ráðh.

Hinn 1. febr. fékk forsrh. síðan handrit frá bestu flug- og skíðaköppum ríkisstj., en ekkert gerðist, bara löng þögn. Hæstv. utanrrh. fór hins vegar ekki á fund Norðurlandaráðs, enda hefðu norrænir blaðamenn gjarnan viljað spyrja hann ýmissa spurninga.

Svo kom mánudagurinn 12. febr., eini ljósi punkturinn í harmsögu Alþfl. Hæstv. forsrh. lagði fram drög að frv. í ríkisstj. og þau voru þannig, að það var hægt fyrir Alþfl. að hrópa húrra — ekki einfalt og ekki tvöfalt, heldur ferfalt húrra. Hér hefði Alþfl. vegna verið gaman að geta sett punkt. En tíminn verður ekki stöðvaður. Og á þessari stundu ætti sjálfsagt betur við að biðja hv. þm. um að rísa úr sætum til að minnast þess flokks sem fyrir 9 mánuðum átti glæsta framtíð, en á nú aðeins mismunandi flekkótta fortíð.

Óþarfi er að nefna fleiri dagsetningar, það hafa aðrir gert. Sprengidagurinn leið með smásprengingum og leiksýningu hér í þingsölunum. Síðan kom 1. mars og hann er liðinn, og nú hefur hv. þm. Bragi Sigurjónsson bætt 17. mars og 20. apríl inn á almanak Alþfl.

Sjálfstfl. hefur lagt fram hér á Alþ. till. um þingrof og nýjar kosningar. Það er rétt til getið, að tilgangurinn er auðvitað sá að gefa krötunum tækifæri til að koma sér út úr því pólitíska stofufangelsi sem þeir sitja nú í. Nú reynir á kjark þeirra og þor. Vilja þeir þingrof og nýjar kosningar eða vilja þeir styðja efnahagslega dauða ríkisstj., svo að notuð séu ummæli hv. þm. Vilmundar Gylfasonar, sem á engan möguleika í baráttunni við verðbólguna og ýtir á undan sér verðhækkunarskriðunni, eða vilja þeir nýjan frest, eins og brtt. hv. þm. Braga Sigurjónssonar ber með sér, í þeirri von að kraftaverk gerist á næstunni? Í nýjum kosningum yrði kosið um skýra kosti: annars vegar efnahagsstefnu Sjálfstfl., sem byggist á stórauknu frjálsræði í viðskipta- og athafnalífi, og hins vegar stefnu ríkisstj.: meiri skattaáþján, meiri ríkisafskipti, minna athafnafrelsi, boð og bönn. Ég tel tímabært, herra forseti, að leggja valið í hendur kjósenda.