07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (2388)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það kom ýmislegt fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Nú veit þingheimur að Alþfl. vildi ekki samningana í gildi og vill ekki samningana í gildi. Þar er komið eitt nýtt ágreiningsefni milli núverandi stjórnarflokka, að manni sýnist. Samt sem áður tók þessi hv. ræðumaður fram, að forseti ASÍ og ágætur krati hafi verið sá sem stóð fyrir þessu slagorði: „Samningana í gildi.“ Samt sem áður vildi Alþfl. ekki samningana í gildi og vill það væntanlega ekki enn.

Það sýnist nú kannske fleirum en mér erfitt að melta þetta loforð. Hv. þm. sagði að forsendur fyrir þessu stjórnarsamstarfi væru brostnar og honum sýndist að það ætli að vera eitthvað styttra, þetta stjórnarsamstarf, en annað vinstristjórnarsamstarf, að mér skildist, eins og öllum væri kunnugt. Þá er okkur þetta kunnugt, að hv. þm. spáir þessari ríkisstj. ekki langra lífdaga.

Hins vegar var ég að reyna að hlusta eftir því, hvort hv. þm. tæki efnislega afstöðu til þeirrar till. sem hér er á dagskrá. Hann talaði hér langt mál og skörulegt, en ég fékk ekki botn í það. Ég ætlaði raunar að kalla fram í fyrir honum og fá svar við því, hvort hann væri með eða móti þessari till. um kosningar. (VG: Ég tel það ekki tímabært af ástæðum sem ég lýsti áðan.) Það er gott að þessi afstaða hv. þm. er komin fram. En þá er það eins og önnur röksemdafærsla hjá honum að flytja fyrst till. um þjóðaratkvgr., sem væntanlega yrði umfangsmikil kosning, og höfða til þjóðarinnar um mjög flókið mál. Ég hef raunar aldrei skilið hvernig sú þjóðaratkvgr. ætti að fara fram, kannske ætti hún að vera eins konar krossapróf eins og tíðkast núna í gagnfræðaskólum, að menn setji kross við já eða nei hjá hverri efnisgrein frv., sem er stór og mikill langhundur eins og alþjóð veit. Ég sagði við einn góðan fylgismann þessa hv. þm. fyrir norðan, — hann spurði mig: Hvernig stendur á því að þú situr ekki að á þingi? — ég þurfti af persónulegum ástæðum að vera fyrir norðan um sinn, — ég sagði að ég biði eftir krossaprófinu mínu hérna, því að nú ætti að fara að stjórna með krossaprófum og láta þjóðina skera úr með því að segja já eða nei um allflókin mál, eins og efnahagsmálin. Þeir fengju send frv. heim til. sín, kratarnir fyrir norðan, og fengju þau sem krossapróf og segðu bara já eða nei við hverri grein og þannig ætti að fara að stjórna þjóðinni. (Gripið fram í: Var ekki hv. þm. kosinn með krossaprófi?) Ja, það er önnur saga. Það er það sem ég er að fara fram á, að þjóðin fái að velja nýja menn, nýja forustu, með krossaprófi. En það er einfaldara að gera heldur en greiða atkv. um 60 gr. um flókin efnahagsmál í þjóðaratkvgr.

Í þessum umr. hefur ýmislegt fróðlegt komið fram. Hjá hæstv. utanrrh. kom það fram, að hann setti í rauninni núv. ríkisstj. enn einn úrslitakostinn um enn einn almanaksdaginn. Hann endaði ræðu sína á því að segja að yrði frv. ekki komið fram í næstu viku, þá væri þessu stjórnarsamstarfi slitið, þannig að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., heldur sig enn við þessa almanakssýki sem hæstv. viðskrh. kallaði svo. Hann hefur í raun tekið undir þá till., sem hér hefur komið fram sem brtt. við till. okkar frá hv. þm. Braga Sigurjónssyni um að veita nú ríkisstj. einn almanaksfrestinn enn og ef sá frestur verði notaður sé hugsanlegt að stjórnarsamstarfinu verði haldið áfram, en að öðrum kosti verði því slitið. En þá er það athyglisvert, sem kom fram í máli hans, að hann taldi að það ætti þá fyrst að reyna nýja stjórnarmyndun án þess að fara til þjóðarinnar og spyrja hana. Hann virðist ekki vera á sama máli og hv. þm. Vilmundur Gylfason um að spyrja þjóðina í gríð og erg hvað hún vilji, heldur var hann þeirrar skoðunar — og raunar kemur þetta fram í till. hv. þm. Braga Sigurjónssonar — að hann vill stefna að nýrri stjórnarmyndun á grundvelli núverandi þings án kosninga.

Ég verð að segja það við þá menn, sem tala um það úr hópi þessara manna að þetta sé furðuleg tillaga okkar sjálfstæðismanna um að við viljum þingrof og nýjar kosningar, við viljum leita til þjóðarinnar að hún kjósi sér nýja forustu vegna þess að sú forusta, sem fyrir er, hefur sýnt að hún er ekki verkinu vaxin, — að mér finnst það allfurðulegur málflutningur hjá þessum ágætu mönnum að tala í öðru orðinu um að það þurfi að fara til þjóðarinnar og það þurfi að leita atfylgis hennar í flóknum efnahagsmálum beint, en það má ekki efna til kosninga. Það sýnir að þeir trúa staðfastlega, eins og kom fram hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, á það, að það sé fylgishrun meðal þjóðarinnar hjá þeim, eins og kom fram í skoðanakönnun Dagblaðsins, enda er þjóðin orðin mjög undrandi yfir þeim vinnubrögðum sem þessir hv. þm. hafa beitt sér fyrir hér á hinu háa Alþ. og oft og tíðum hefur verið vitnað til sem eins konar trúðleiks.

Hæstv. forsrh. er víst því miður ekki staddur hér, en ég verð að fara nokkrum orðum um það sem hann sagði hér í gær, um nokkur efnisatriði ræðu hans sem komu mér allundarlega fyrir sjónir. Hann sagði að þessi till. væri fátíð í þingsögunni og eiginlega ekki lítandi alvarlegum augum, eins og hann sagði. Hins vegar sagði hann það sem stórkostlega frétt, eins og það ætti að koma þjóðinni afar mikið á óvart, að ef till. yrði samþykkt mundi hann samstundis segja af sér. Það var sem sagt stórfrétt í þingræðislandi að forsrh. mundi segja af sér ef till. um þingrof og nýjar kosningar hlyti meirihlutafylgi á Alþ.

Ég held að það hefði verið stórfrétt í hvaða þingræðislandi sem var, að sjálfur forsrh. skyldi segja slíkt, eins og það væri ekki sjálfsagt að hann segði að sér ef þingmeirihl. væri fyrir þingrofi og nýjum kosningum.

Hæstv. forsrh. veittist mjög að okkur sjálfstæðismönnum fyrir okkar skattalög. Hv. þm. Matthías Á. Mathiesen hefur talað um þau mál og ég þarf ekki mikið um þau að fjalla hér, en vil þó aðeins benda á nokkur atriði.

Hæstv. forsrh. sagði að það væri rétt, að skattar hefðu verið hækkaðir á hærri tekjum og eignum og atvinnurekstri, og hæstv. viðskrh. tók undir þetta. Hann sagði að skattar hefðu verið hækkaðir á eignum og atvinnurekstri umfram allt. Ég vil benda þessum hæstv. ráðh. á að kynna sér betur þeirra eigin stefnu í skattamálum, eins og hún kemur fram í því sem þeir eru að samþykkja hér á hinu háa Alþ. Það eru milljarðar sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur hækkað óbeina skatta á fólki, eins og t. d. í formi vörugjalds sem kemur við hvern einasta mann í landinu, hvern einasta mann, hvort sem hann hefur háar eða lágar tekjur. Hæstv. ríkisstj. hefur líka beitt sér fyrir öðrum skattaálögum, og ég vil taka hér eitt dæmi. Það er raunar í sambandi við þingmál sem hér er til afgreiðslu á Alþ., en þar er hugmynd hæstv. ríkisstj., og það voru raunar forsendur fyrir fjárlagaafgreiðslunni, að taka í ríkissjóð a. m. k. 10% af launaskatti sem lagður er á fólk. Og ekki nóg með það. Það er þannig um hnútana búið, að launaskatturinn er áætlaður eins og hann yrði á desemberverðlagi, en ef það frv., sem hér er til umr. um lánsfjáráætlun og er stjfrv. og ég vænti að ríkisstj. sé um það sammála, verður að lögum, þá fer öll hækkun launaskattsins beint í ríkissjóð. Þetta þýðir í raun sérstakan tekjuskatt á allan almenning í landinu, hvort sem menn hafa nokkur hundruð þús. kr. í árslaun eða nokkrar milljónir.

Það er kannske rétt að endurtaka það hér einu sinni enn, að að sjálfsögðu verður slík gífurleg skattahækkun sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir ekki framkvæmd öðruvísi en hún komi við hvern einasta mann, því að svo gífurlega er skattheimtan aukin að 31.5% af þjóðartekjum fara nú í ríkissjóð í stað þess að þetta hlutfall var komið niður í 28% áður. Þetta hef ég beint eftir forstjóra Þjóðhagsstofnunar. Þetta eru orð sem hann lét falla á fjvn.-fundi, að á árinu 1979 mundu 31.5% af þjóðartekjum fara í ríkissjóð, miðað við þær tekjuáætlanir sem voru lagðar til grundvallar fjárlagafrv. Þarna er um að ræða 25–30 milljarða kr. á desemberverðlagi. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson gerði harða hríð að Alþfl. út af þessum prósentureikningi á sínum tíma og sagði að þeir reiknuðu alltaf skakkt og að þessi tala væri í raun 33% sem færi í ríkissjóð, en ekki 30 eins og þeir vildu vera láta, kratarnir. Þessi útreikningur hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni sýndist mér ekki nákvæmlega réttur, enda vil ég heldur hafa það sem forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir. En þarna er náttúrlega um að ræða svo gífurlega aukna skattheimtu, að það er ekki hægt að koma henni fyrir öðruvísi en hún komi við hvert mannsbarn, enda hef ég bent á tvennt sem er áþreifanlegt. Vörugjald og neysluskattar eru hækkuð um 4 milljarða og síðan er hugmyndin að taka nýja skatta af umferðinni, láta alla hækkun á launaskatti í krónutölu eins og hún leggur sig renna beint í ríkissjóð o. s. frv., þannig að hér er auðvitað um skattlagningu að ræða á allan almenning, hvort sem menn hafa háar eða lágar tekjur, þó að reynt sé að halda því fram, og það sé rétt að vissu marki að eignir manna séu fyrst og fremst skattlagðar og hærri tekjur með 50% skattþrepinu o. s. frv.

Þá sagði hæstv. forsrh., að lög nr. 40 frá 1978 um skattamál, sem fyrrv. ríkisstj. stóð fyrir að væru samþ. á Alþ., fælu í sér stöðuga eignakönnun og lögregluríki. Ég lít á þetta sem dálítið alvarlegt mál, þegar hæstv. forsrh., sem var þá dómsmrh.- og framsóknarmenn áttu drjúgan þátt í að móta þessi skattalög ekkert síður en sjálfstæðismenn, — þegar hann lýsir því yfir að hann sem dómsmrh. hafi rétt upp hönd hér á Alþ. og samþykkt lögregluríki í skattamálum. Ég held að það sé leitun að því, ef það er til í lýðræðislandi, að slíkar yfirlýsingar finnist, að forsrh. lýsi slíku yfir eða aðrir lægra settir ráðh. Ég efa að það sé til.

Sem betur fer er þetta misskilningur hjá hæstv. ráðh. Hann vildi koma höggi á okkur sjálfstæðismenn, fyrrv. samstarfsmenn sína, eins drengilegt og það er nú, með þessum málflutningi. En á það hefur verið bent og um það lögð fram gögn sem ég vona að hann lesi bæði kvölds og morgna, eins og hann ráðlagði okkur einu sinni, óbreyttum þm. að lesa samstarfssamning fyrrv. vinstri stjórnar, hann ráðlagði okkur að lesa þann samstarfssamning bæði kvölds og morgna, — ég vona að hann lesi þessar greinar og sjái að hér er um að ræða svo til óbreyttar greinar um skatteftirlit frá lögum sem áður giltu. Þó er það alveg einstakt í þessu sambandi, að hæstv. ráðh. hneykslaðist alveg sérstaklega á einni mgr. 94. gr. þessara margræddu laga þar sem er talað um óframtalsskylda aðila, hvaða eftirliti megi beita gagnvart þeim, en þar er um að ræða þrengingu frá því sem var eftir að núv. skattalög eru gengin í gildi. Samkv. breytingunni er skattstjórunum sjálfum óheimilt að knýja fram ýmis gögn og upplýsingar frá óframtalsskyldum aðilum, en það var heimilt samkv. fyrri lögum. Það er sem sagt um þrengri heimildir að ræða einmitt Í því sem hæstv. ráðh. hneykslaðist mest yfir og benti sérstaklega á að væri eins konar lögregluríki í skattamálum. Ég segi því um þennan málflutning eins og sagt var einu sinni um mann sem svipað stóð á og hæstv. ráðh.: Ekki sér hann sína menn, svo hann ber þá líka. — Hann lemur sjálfan sig og samstarfsmenn sína mest með svona málflutningi.

Þá ræddi hann og aðrir stjórnarþm. og ráðh. um efnahagsstefnu ríkisstj., hallalaus fjárl. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Ég skal ekki þreyta menn á að fara að ræða það hér, það er búið að ræða það mikið, en ég vil aðeins benda á það enn einu sinni, að fjárl. ársins 1979 eru ekki hallalaus nema á pappírnum. Það er einvörðungu pappírsgagn. Þar vantar stórar fjárhæðir á að endar nái saman, — fjárhæðir sem ekki eru reiknaðar með. Enn hefur ekki verið dregið úr niðurgreiðslum eins og ætlað var. Enn hafa ekki verið hækkuð lyf hjá sjúklingum og læknishjálp, eins og ætlað var með þessu frv. Enn hefur ekki verið komist hjá því að greiða 3% til BSRB - launþega nú l. apríl. Einn milljarður bætist við núna vegna vísitöluþaksins á bakið á ríkissjóði. Og svo mætti lengi, lengi telja.

Það er því algerlega borin von eins og sakir standa, nema hæstv. ríkisstj. hugsi sér að nota bágindi fólks í sambandi við olíuhækkanir til að ná stórfelldum skattahækkunum til ríkissjóðs, að ríkissjóður verði rekinn hallalaus, enda er það svo, að jafnvel þó ríkissjóður væri rekinn hallalaus, þá er stórfelldur greiðsluhalli hjá flestum stærstu ríkisstofnunum: Pósti og síma, Landsvirkjun og hinum og þessum þjónustuaðilum sem auðvitað verða einhvers staðar að taka peninga. Og hvaðan taka þau peninga? Úr Seðlabankanum, eins og ríkissjóður gerir þegar hann er rekinn með halla.

Það kom fram í umr. um lánsfjáráætlun um daginn, að það er langt frá því að samstaða sé í stjórnarherbúðunum um frv. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun þó það hafi verið flutt sem stjfrv. Hv. þm. Lúðvík Jósepsson hafði mikla fyrirvara þegar hann flutti hér klukkutímaræðu um fyrirvara sína um samþykkt á þessu frv. M. a. sagði hann þá, að það kæmi ekki til mála, það væri siðleysi, algert siðleysi, að taka skatta sem væru markaðir tekjustofnar og ætti að nota til sérstakra þarfa, eins og t, d. launaskatt sem á að nota til húsnæðismálakerfisins, — að taka hann til almennra þarfa ríkissjóðs. Hann sagði það algert siðleysi. Ég benti honum á að það hefði verið forsenda fyrir fjárlögunum sjálfum að gera slíkt. Hann virtist ekki hafa lesið aths. við fjárlagafrv. svo vel, að hann áttaði sig á því. Ég býst við að um þetta verði stórkostlegur ágreiningur milli stjórnarflokkanna, þannig að mér finnst að bæði hæstv. forsrh. og fleiri talsmenn ríkisstj. ættu að bíða þangað til þetta frv. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður samþ. hér á hinu háa Alþingi. Rétt er að bíða með að hæla sér af þeirri markvissu stefnu, sem í því frv. kemur fram og verður rædd við þá umr. sem um það mál verður væntanlega næst þegar deildafundir verða hér á hinu háa Alþingi.

Hæstv. ráðh. talaði líka um það, að við sjálfstæðismenn værum afskaplega óábyrgir í málflutningi, við værum að brýna Alþfl. og Alþb. á því að taka samningana í gildi. Við höfum að sjálfsögðu aldrei brýnt þessa ágætu menn á því að taka samningana í gildi, heldur aðeins bent á að það, sem þeir sögðu fyrir kosningar í þessum efnum, hefur ekki gengið eftir. Það er kominn upp hér nýr stórisannleikur um það, að Alþfl. hafi aldrei viljað samningana í gildi, svo að um þetta ætti ekki að þurfa að gera stórt mál milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Sennilega verður það orðið svo að lokum, að enginn vill bera ábyrgð á þessu mikla slagorði sem síðustu kosningar snerust um.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Það var margt, sem kom fram við þessa umr., sem væri freistandi að ræða hér. Eitt af því er t. d. hinn skemmtilegi og kúnstugi talnaleikur Alþb. með vísitöluna. Hæstv. viðskrh. sagði það og endurtók eftir hv. 1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, að verðbólgan væri 22% á þessu stjórnartímabili á ársgrundvelli. Komist er að þessari niðurstöðu eftir að stórfelldar skattaálögur eru lagðar á fólk til þess að greiða niður vísitöluna. Skattaálögurnar eru ekki inni í vísitölunni, en hins vegar reiknast niðurgreiðslurnar inn í vísitöluna. Öllum hækkunum þjónustustofnana er frestað o. s, frv., o. s. frv. Hér er því náttúrlega um að ræða algera fölsun, eins og hæstv. viðskrh. var að reyna að verja áðan að væri ekki fölsun, en er að sjálfsögðu alger fölsun á verðlaginu.

Á það má náttúrlega benda, að þó að landbúnaðarafurðir séu greiddar niður og vísitala framfærslukostnaðar lækki við það, þá er jafndýrt að framleiða landbúnaðarafurðir, og það er alveg jafnmikil verðbólga í landinu hvort sem niðurgreiðslur eru hækkaðar eða ekki.

Herra forseti. Ég held að ég hafi ekki fleira um þetta að segja að sinni.