31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

323. mál, málefni áfengissjúklinga

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Örstutt. Í þessari umr. endurspeglast að mínu mati sú þversögn, sem kemur fram í áfengismálum íslensku þjóðarinnar: Annars vegar notar ríkisvaldið áfengi og áfengissölu til að afla sér verulegra tekna. Á hinn bóginn er viss andstaða gegn því að reyna þær aðferðir sem mega koma í veg fyrir þá sjúkdóma sem fylgja of mikilli áfengisneyslu.

Ég vil eindregið taka undir það, sem hv. þm. Einar Ágústson sagði um eflingu gæsluvistarsjóðs. Það er ekki vansalaust hve sjá sjóður hefur haft úr litlum fjármunum að spila. Sjálfur mun ég hér á þingi beita mér fyrir eflingu þessa sjóðs.

Í þriðja lagi vil ég eindregið vara við því, ef sú hugmynd hefur skotið upp kollinum að reyna að draga úr þeim ferðum sem Íslendingar hafa farið á hið margnefnda sjúkrahús í Bandaríkjunum, á meðan við getum ekki boðið svipaða lækningu og svipaða þjónustu hér á landi. Ég er þeirrar skoðunar, að sú lækning, sem á sér stað á þessu sjúkrahúsi, sé tiltölulega fljót að skila sér til þjóðarinnar aftur þegar þeir menn, sem lækninguna hljóta, verða hæfir til starfa á ný.