07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2395)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég er móti þessari till. Ég er hins vegar ekkert hissa þó að sjálfstæðismenn langi til að minna á sig. Það hefur verið róstusamt á stjórnarheimilinu og stundum hefur manni fundist að stjórnarandstaðan, sú raunverulega stjórnarandstaða, væri innan stuðningsmannaliðs ríkisstj. Ég vil ekki taka svo sterkt til orða sem hv. síðasti ræðumaður gerði áðan þar sem hann fór með vísu eftir Grím Thomsen, en allt um það hafa menn kastað hnútum og verið óþolinmóðir og stundum látið hálfilla. Það er leiðinlegt fyrir sjálfstæðismenn, ef þeir hafa alveg gleymst, og þess vegna hafa þeir flutt þessa till.

Það var reyndar upplýst í umr., að höfundur till. væri hv. þm. Vilmundur Gylfason. Mér finnst, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Sjálfstfl., að þeir þyrftu að fá sér betri ráðunaut til þess að semja fyrir sig till. en þennan tiltekna ágæta þm. Ég er ekki þar með að mæla með hv. þm. Braga Sigurjónssyni, sem bætti um betur með brtt. á þskj. 421. Þeir eru miklu betri sumir Alþfl.-þm. til þess arna, að koma skynsamlegum till. saman fyrir Sjálfstfl. Ég bendi t. d. á bræðurna. Hv. þm. Sjálfstfl. hefur bæst liðsauki, vegna þess að við sáum í dag að nú er Dagblaðið hætt stuðningi við Alþfl. og farið að styðja Sjálfstfl. Það er orðið leitt á Alþfl.-mönnum og er nú hætt að styðja þá, farið að renna blóðið til skyldunnar, búið að setja upp skoðanakönnun þar sem það spáir Sjálfstfl. sigri, reynir nú að koma einhverjum vindi í seglin hjá sjálfstæðismönnum og setja á svið skoðanakönnun, sem birt er í dag.

Hv. þm. Vilmundur Gylfason var óhress yfir þessari skoðanakönnun og trúir eins og nýju neti að þetta sé tilfellið. Ég vil benda hv. þm. á miklu betra ráð. Hann ætti að láta Alþýðublaðið, Vikuna eða tímaritið Samúel efna til skoðanakönnunar til styrktar Alþfl. Það er eina viðeigandi svarið sem hv. þm. gæti átt við þessum ljóta leik Dagblaðsins.

Hvað hefði svo þjóðin upp úr kosningum núna, ef þessi till. væri samþykkt? Hvað hafa hv. sjálfstæðismenn til málanna að leggja? Þeir voru þrautreyndir síðustu 4 ár. Ég var stuðningsmaður ríkisstj. og samstarfsmaður þeirra í 4 ár — og við framsóknarmenn. Þetta eru góðir náungar. Þetta eru elskulegir menn og skemmtilegir.

En þeir eru ekki góðir til að stjórna efnahagsmálum. Ég ætla ekki að fara að rekja raunasögu fjögurra síðustu ára. Það er orðið kvöldsett og það er ekki vert að vera að rifja slíkt upp undir svefninn. Það er ekki heppilegt að fara að tala um febrúarlögin frá í fyrra. Þeim var klúðrað, þeim var endurklúðrað, þeim var síklúðrað, þráklúðrað og þrautklúðrað. Og ég tala ekki um verkfallsrétt opinberra starfsmanna, ég sleppi því. Það mætti kannske rifja fleira upp. Það var gjarnan tvístigið í „den tid“, það var gjarna huklað, og menn drifu sig ekki í nauðsynlega hluti. Menn byrjuðu eða hættu við, menn voru lengi að koma sér saman, m. a. s. í þingflokki Sjálfstfl., þar voru heldur en ekki þingflokksfundir.

Hvað hefur svo breyst á þessum 6 mánuðum sem Sjálfstfl. hefur verið utan stjórnar? Sjálfstfl. er búinn að prenta, í Morgunblaðinu 21. febr., efnahagsmálaprógramm. Það er nú heldur en ekki efnahagsmálaprógramm sem þeir .bjóða þjóðinni. Gengið verði nú látið lafa eða leka, hver mætti okra að getu sinni, félagsleg þjónusta skorin niður, ótakmörkuð og eftirlitslaus skuldasöfnun erlendis. Svo á að létta af sköttum til þess að gera þetta gómsætara fyrir fólkið. En nafnið er gott. Það heitir: „Endurreisn í anda frjálshyggju.“ Þetta er nú meiri „renaissansinn“!

Hv. þm. Vilmundur Gylfason talaði fyrr í kvöld af aðdáun um viðreisnarstjórnina. Hann langar í þess háttar stjórn aftur. Hann er að vísu búinn að skrökva svo upp á suma hv. þm. Sjálfstfl., að hann er farinn að trúa því sjálfur að þeir séu slæmir, og kann ekki við að biðla opinberlega til þeirra í bili, enda sjálfsagt hræddur um að fá hryggbrot og láir honum það enginn. Hann vill viðreisnarstjórn og fer ekki dult með það. En þó hv. þm. sé sögufróður að vissu leyti, þá er ég hræddur um að hann viti ekki gjörla hvað gerðist, nema þá á ónefndri götu vestur í bæ, á þessum árum. Það var allt öðruvísi ástand í Norðurlandskjördæmi vestra en í þessari ónefndu götu, sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson er búinn að tala svo mikið um að mér dettur ekki í hug að nefna með nafni. Það var hreint ekkert gæfulegt atvinnuástand í Norðurl. v. á þessum árum. Þá urðu heimilisfeður á Skagaströnd, á Sauðárkróki, á Hvammstanga, á Siglufirði, á Hofsósi að flengjast um allt land í von um vinnu. Það var enga vinnu heima hjá eim að hafa. Það var ekki fyrr en með tilkomu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1971 að þetta breyttist. Á þessum áratug hefur fólk í Norðurl. v. yfirleitt alltaf haft vinnu þegar það vildi og eins mikla og það vildi.

Það var að vísu rétt hjá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, að verðbólgan var ekki eins ör á áratugnum 1960–1970 og hún hefur verið síðan. Það er það ólukkulega við efnahagskerfið okkar, að meðan við höfum skattana inni í vísitölunni hlýtur verðbólgan að aukast, það er óhjákvæmilegt. Þegar launþeginn fær ævinlega endurgreiddan skattinn sinn í hækkuðu kaupi næst þegar vísitalan er reiknuð út, þá getur ekki nema sigið á ógæfuhlið. Þetta er skiljanlegt lögmál. Verðbólgan var ekki eins mikil og hún er nú. Það var þó ekki að þakka neinni snilldarstjórn þá. Ætti ég að velja milli ástandsins eins og það var meðan viðreisnarvesöldin var fyrir 10 árum og ástandsins eins og það er í dag, þrátt fyrir mikla verðbólgu, allt of mikla verðbólgu, stórhættulega og skaðlega verðbólgu, sem ég er á móti eins og hæstv. fjmrh. Tómas Árnason, þá held ég að ég vildi heldur ástandið eins og það er í dag.

Menn hafa vitnað hér óspart í Grím Thomsen og gert það að umræðuefni, að nú væru sumir ráðh. að renna sér á skíðum, sumir væru í afmælisveislu eða einhvers staðar fjarstaddir. Við erum nú alveg einfærir um það, þó að eitthvað af ráðh. vanti, að halda uppi umr. í hv. Sþ. En ég held að það sé góðs viti að ráðh. hafi þá mannrænu í sér að bregða sér á skíði. Eins og títtnefndur Grímur Thomsen sagði um Halldór Snorrason var það svo með Halldór, „þó að komið væri í óvænt efni, ekki stóð honum það fyrir svefni“. Og kannske eru þeir farnir að sofa einhverjir, enda er orðið kvöldsett eins og menn vita. Ég held meira að segja að það væri heppilegt fyrir fleiri þm. en tiltekna ráðh. að fara á skíði, og mættu sumir vera lengi í túrnum.

Við erum ekki þjakaðir af hræðslu hver við annan, stjórnarsinnar. Það var ekki rétt athugað hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur. Við erum ekki þjakaðir af hræðslu hver við annan. Það er allt gott um það sem hún sagði, að menn eiga að gegna skyldu sinni og tala fullum hálsi hver við annan. Það var vel mælt hjá hv. þm. Ragnhildi Helgadóttur. Á mánudaginn var töluðust þau við, hún og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, alveg óhrædd. Þau þurftu þá að ræða málin nokkuð djarflega. Þau gerðu það líka í kvöld. Ég held að það væri þó samt betra fyrir okkur hin, fyrir okkur Nd.-menn, ef þau gætu komið sér saman um að láta þessar umr. fara fram í Ed., þegar sá gállinn er á þeim að þau þurfa að gegna þeirri skyldu sinni.

Ráðh. okkar verða að drífa sig í að koma sér saman og þessi ríkisstj. verður að sitja áfram. Hún þarf að sitja áfram af því að þjóðin þarf á því að halda að hún sitji áfram. Samstarfsflokkar okkar verða að passa það að vera ekki að hugsa um að riða hvor annan niður. Þeir verða að sýna ábyrgðartilfinningu og fyrirhyggju. Þeir verða að takast á við þennan vanda af ábyrgðartilfinningu og hjálpa okkur við að leysa hann. Önnur ríkisstj. mundi nefnilega ekki fremur, þegar allt kemur til alls, ráða við það verkefni.

Ég átti eftir að koma aðeins að dómsdögunum. Hæstv. forsrh. benti um daginn hv. þm. Vilmundi Gylfasyni á það, hvort hann vildi ekki prófa að flytja till. um að fresta 1. mars. Ég vil út af mínum afmælisdegi taka það fram, að ég tek það ekki í mál að fresta 17. mars, vegna þess að ég hlakka til að eiga afmæli. Ég bendi hins vegar á að ýmsir góðir framsóknarþm. eiga afmæli síðar á árinu og það er hægt að fara að sigta á þá, ef menn þurfa á að halda. Hæstv. viðskrh. kallar þetta almanaksveiki. Ég held að það sé ekki rétt orð, þetta komi ekkert almanakinu við. Ég held að þetta sé eitthvað í sambandi við tunglið.