07.03.1979
Sameinað þing: 63. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3099 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

207. mál, þingrof og nýjar kosningar

Flm. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það dregur nú að lokum þessara umr. um þáltill. okkar sjálfstæðismanna um þingrof og nýjar kosningar. Ég skal engu spá um úrslit þeirrar atkvgr., sem fram fer á morgun. Að vísu sýnist, eftir yfirlýsingum þm. að dæma, að hún muni ekki njóta fylgis meiri hl. þm. Er það út af fyrir sig illt, vegna þess að hún er tímabær og það væri þjóðarnauðsyn að hún yrði samþ. Samt sem áður hefur þessi tillöguflutningur og þær umr., sem orðið hafa um þessa þáltill., náð ákveðnum tilgangi og gert sitt gagn.

Það fer ekki milli mála, að hér hafa verið upplýstir ýmsir athyglisverðir þættir í samstarfsháttum núv. ríkisstjórnarflokka. Það hafa verið upplýstir ýmsir þættir í bardagaaðferðum núv. ríkisstjórnarflokka, bæði fyrir og eftir kosningar.

Það hefur komið fram í umr. manna, að saknað hefur verið ræðuhalda af hálfu okkar sjálfstæðismanna á yfirstandandi þingi. Það er vel, að menn vilji gjarnan heyra meira í þm. sjálfstæðismanna á Alþ., og furðar mig ekki á því. Við höfum kvatt okkur hljóðs og tekið þátt í umr., flutt mál eftir því sem tilefni hafa gefist, en við höfum af ásettu ráði viljað gefa núv. ríkisstj. starfsfrið og sýnt með því ábyrgðartilfinningu. Við höfum ætlast til þess, að ríkisstj. notaði þennan starfsfrið til góðra verka. Hún hefur að vísu notað þennan starfsfrið, en ekki til neinna annarra verka en þeirra að deila innbyrðis. Og sannleikurinn er sá, að það hefur oft og tíðum verið svo upplýsandi að hlusta á þessar innbyrðis deilur stuðningsmanna ríkisstj. að við höfum ekki haft ástæðu til þess að kveðja okkur hljóðs, og að sumu leyti á það við við lok þessarar umr. eins og ég drap á áðan.

Önnur meginröksemdin fyrir tillöguflutningi okkar sjálfstæðismanna er vanefndir ríkisstjórnarflokkanna allra þriggja á loforðinu „samningana í gildi“, eins og getið er um í grg. fyrir till. okkar. Að vísu eiga aðallega Alþb. og Alþfl. hlut að vanefndunum, en þó hefur Framsfl. einnig tekið á sig ábyrgð á vanefndunum með því að gangast fyrir myndun þessarar ríkisstj. og taka á sig ábyrgð á því að hrinda þessu loforði í framkvæmd. En hvað kemur fram í umr. í gærkvöld og í dag? Að þessir málsvarar Alþb. og Alþfl. eru komnir svo upp að vegg, orðnir svo rökþrota, þegar þeir þurfa að verja kosningaloforðið „samningana í gildi“ og vanefndir þeirra sjálfra á því kosningaloforði, að þeir segja hver um annan þveran að þeir hafi í raun og veru alls ekki lofað því að setja samningana í gildi.

Þannig lýsir Svavar Gestsson því yfir í ræðu, að hann hafi í raun og veru aldrei ætlað sér að setja samningana alveg í gildi, hann hafi alltaf verið fylgismaður hins svokallaða vísitöluþaks, hann persónulega sé á móti úrskurði Kjaradóms. En ekki heyrðist þessi skoðun hans fyrir kosningar. Þá var krafan og kosningaloforðið um „samningana í gildi“ alveg óskilorðsbundið af hálfu Alþb. Þá átti að veiða atkv. frá Bandalagi háskólamanna, þá átti að veiða atkv. frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og þá átti að vinna atkv. frá t. d. mönnum innan Alþýðusambands Íslands er höfðu hærri tekjur, þannig að þeir hlytu að verða fyrir barðinu á þessu vísitöluþaki. En jafnvel eftir kosningar, þegar Reykjavíkursamþykktin var gerð af hinum nýja meiri hl. borgarstjórnar, var ákveðið að samningarnir skyldu aðeins taka gildi í áföngum og ekki ná fullu gildi fyrr en eftir að samningstími almennra launþegasamtaka innan ASÍ væri á enda runninn, þ. e. a. s. nú um síðustu áramót, með því að hafa ekkert vísitöluþak. Og það létu menn gott þykja þá, vegna þess að alþingiskosningar voru þá eftir. Nú eftir kosningar er sagt að þeir hafi ekki lofað „samningana í gildi“ eins og þeir sögðu fyrir kosningar.

Eftirtektarverð var yfirlýsing Vilmundar Gylfasonar, sem sagði að Alþfl. hefði aldrei staðið að því að lofa að samningarnir færu í gildi. Hins vegar hefði Alþfl. látið kyrrt liggja þótt forseti Alþýðusambands Íslands og jafnframt einn af frambjóðendum þeirra hefði barist fyrir því. Hann lét í veðri vaka, að Alþfl. hefði stutt forustumenn launþegasamtakanna þegar þeir hefðu sagt að samningarnir ættu að ganga í gildi. Og enn fremur fullyrti hv. þm. Vilmundur Gylfason, að hann hefði í sjónvarpsviðtali milli sveitarstjórnarkosninga og alþingiskosninga sagt að hann felldi sig við samþykkt meiri hl. borgarstjórnar Reykjavíkur, sem var þess eðlis að setja samningana í gildi á mörgum mánuðum í stað þess að þeir áttu að komast í gildi strax, en í þeim fólst m. a. að virða ekki vísitöluþakið. Hver er nú siðferðisvitund þm. eins og hæstv. viðskrh. og hv. þm. Vilmundar Gylfasonar að,koma nú eftir kosningar og segja: Við lofuðum nú eiginlega ekki að setja samningana í gildi. En við höfum þó sett samningana í gildi að nokkru leyti?

En það er ekki eingöngu þetta ábyrgðarleysi þessara forsvarsmanna Alþb. og Alþfl. sem við sjálfstæðismenn gagnrýnum, heldur og beinar vanefndir þessara flokka á þessu kosningaloforði — vanefndir sem út af fyrir sig gefa tilefni til þess að kjósendur, sem gengu í góðri trú að kjörborðinu á síðasta ári, fái nú tækifæri til þess að greiða atkv. aftur, eftir að blekkingar þessara flokka og fulltrúa þessara flokka eru afhjúpaðar og vanefndirnar komnar í ljós.

Sannleikurinn er sá, að auðvitað hafa samningarnir ekki verið settir í gildi, hvorki með samþykkt hins nýja meiri hl. borgarstjórnar Reykjavíkur á miðju s. l. sumri né með brbl. núv. ríkisstj. í byrjun sept. s. l. Það er fjarri því. Það er upplýst, og ég gat um það í framsöguræðu minni í gærkvöld, að það, sem formælendur verkalýðssamtakanna og launþegasamtakanna áttu við þegar krafist var að samningarnir gengju í gildi, var að kaupmátturinn yrði sá hinn sami og samningarnir stefndu að. Sá kaupmáttur hefur ekki náðst, hvorki á s. l. ári né næst hann á þessu ári — fjarri fer því. Kaupmátturinn var á síðasta ári og verður ekki meiri á þessu ári en hefði orðið með maílögum fráfarandi ríkisstj., sem mestur gauragangurinn var út af af hálfu forsvarsmanna Alþb. og Alþfl.

Til viðbótar þessu hafa ríkisstjórnarflokkarnir auðvitað vanefnt loforðið „samningana í gildi“ með misbeitingu niðurgreiðslna bæði í byrjun september og í desembermánuði. Þeir hafa vanefnt þetta loforð með því að láta ekki 8% verðbótaauka koma til útborgunar kaups í byrjun desember. Það felst engin afsökun í því að segja að niðurgreiðslur hafi komið á móti né heldur að skattalækkun komi á móti, vegna þess að hvað skattalækkunina snertir liggur fyrir sú yfirlýsing hagfræðings Alþýðusambands Íslands, að almennir félagsmenn Alþýðusambands Íslands muni ekki njóta neinnar 2% skattalækkunar á þessu ári eins og þá var lofað. Og hvað snertir félagslegar umbætur, þá hafa þær ekki séð dagsins ljós og sjá ekki dagsins ljós nema þá á löngum tíma og koma þá, eins og hér hefur verið bent á, sem byrði á atvinnureksturinn, engu ódýrari en samsvarandi launahækkun.

Með öllu þessu hafa þessir ríkisstjórnarflokkar vanefnt loforðið „samningana í gildi“ og þeir hafa játað það sjálfir. Og það er kannske von að þeir hafi vanefnt þetta loforð, vegna þess að það er útilokað að efna það.

Það var þrennt sem ríkisstj. gerði í upphafi síns ferils. Það var í fyrsta lagi að lækka gengið. Út af fyrir sig var það ekki gagnrýnisefni að lækka gengið um 15% í byrjun september. En það er líka sú eina ráðstöfun sem gerð var til þess að halda atvinnuvegunum gangandi, og það var það eina sem nauðsynlegt var að gera til þess að atvinnureksturinn héldist með sæmilegum hætti. Vegna hvers þurfti í rauninni ekki á því stigi málsins að gera aðrar ráðstafanir? Það var vegna þess að viðskilnaður fyrri ríkisstj. var svo traustur að atvinnuvegirnir þurftu ekki á öðru að halda en þessari 15% gengisbreytingu í sept. s. l.

Það er ólíku saman að jafna, viðskilnaði fyrri ríkisstj. og ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar 1974, vinstri stjórnarinnar þá. Þá var mikill halli á viðskiptunum við útlönd. Nú hafði fyrri ríkisstj. náð viðunandi viðskiptajöfnuði við útlönd, bæði árið 1976 og 1977, og skildi svo vel við að hagstæður viðskiptajöfnuður var á síðasta ári gagnstætt miklum halla á fráfararári fyrri vinstri stjórnar, á árinu 1974. Þessi árangur náðist þrátt fyrir að viðskiptakjör út á við versnuðu um 25–30% á fyrstu tveim starfsárum fyrri ríkisstj. Í öðru lagi náðist í tíð fyrri ríkisstj. jöfnuður í ríkisfjármálum á s. l. ári miðað við áætlun sem gerð var þegar hún fór frá. En svo snarlega snerist á verri veginn þegar núv. ríkisstj. tók við, að um 4–5 milljarða kr. halla á ríkissjóði var um að ræða til viðbótar 11 milljarða kr. gengistapi sem varð á skuld við Seðlabankann. Það er núverandi ríkisstj. sem eykur nú skuldina við Seðlabankann jafnt og þétt. Og í þriðja lagi var ólíku saman að jafna viðskilnaði fyrri ríkisstj. og forvera hennar hvað snertir jafnvægi í peningamálum. Á árinu 1974 voru allir viðskiptabankarnir komnir í stórkostlegan yfirdrátt við Seðlabankann, en jafnvægi í peningamálunum tókst á síðasta ári, og stöðvuð var í tíð fyrrv. ríkisstj. rýrnun sparifjár miðað við þjóðarframleiðslu með því að koma á vaxtaaukareikningunum og meira raunsæi í vaxta- og verðtryggingarmálum, þótt ekki hafi náðst sá árangur að auka sparifé landsmanna vegna ágreinings innan fráfarandi ríkisstj. í vaxta- og verðtryggingarmálum.

Það er alveg rétt, að baráttan gegn verðbólgunni náði ekki þeim árangri sem að var stefnt í fráfarandi ríkisstj. En jafnvel hæstv. viðskrh. taldi upp tölur, sem þó voru ekki nákvæmar og þarfnast leiðréttingar, þar sem kom fram að á tveim starfsárum fráfarandi ríkisstj. var verðbólgan þó um 30%, gagnstætt yfir 50% í tíð vinstri stjórnarinnar 1974, og var komin niður í 26% vorið 1977, áður en hinir óraunsæju kjarasamningar voru gerðir þá um vorið. Og hvað er núv. ríkisstj. að reyna að miða við í baráttunni við verðbólguna? Hún er að reyna að miða við að koma henni niður í 30% á yfirstandandi ári, en ráðstafanir fráfarandi ríkisstj. í febrúar og maí s. l. hefðu komið verðbólgunni niður í 30% á s. l. ári, þannig að andstaða Alþb. og Alþfl. og óábyrgra verkalýðsleiðtoga þeirra flokka gegn ráðstöfunum fráfarandi ríkisstj. hefur aðeins orðið til þess að fresta að sá árangur náist, sem nauðsynlegur er í baráttunni gegn verðbólgunni, að lækka hana niður í 30% í fyrsta áfanga, og þessi frestur verður ekki eingöngu eitt ár, vegna þess að þessu marki verður alls ekki náð á yfirstandandi ári eins og útlit er nú varðandi þau mál.

Gengisbreytingin eða gengislækkunin í upphafi hjá núv. ríkisstj. er ekki gagnrýnisverð nema að einu leyti, að Alþb. og formælendur þess töldu gengislækkunina óþarfa og töldu unnt að leysa efnahagsmálin án breytingar á gengi íslensku krónunnar, en gáfust upp þegar þeir komu í ríkisstj. og féllust á nauðsyn þessarar gengisbreytingar. Og þeir hafa gert meira. Þeir hafa haldið áfram að fella gengið eftir sept. s. l. Frá þeim tíma hefur gengið sigið um 6–8% . Samkv. venju fráfarandi ríkisstj. voru starfshættirnir þeir, að viðskrh. þurfti að gefa út heimildarbréf til Seðlabanka Íslands um að hann gæti látið gengið síga um 2 prósentustig í senn. Ég geri ráð fyrir að þessi starfsháttur hafi haldist, þ. e. a. s. núv.

hæstv. viðskrh., fulltrúi Alþb. í ríkisstj., hafi haldið áfram að lækka gengið, gagnstætt því sem Alþb. sagði fyrir kosningar, að gengisbreyting væri algerlega nauðsynjalaus, það væri hægt að færa peninga til í þjóðfélaginu og heimta skatta af hinum ríku og þeim atvinnugreinum sem hefðu hagnað til þess að borga tapið hjá helsta útflutningsatvinnuvegi landsmanna. Ég er hræddur um að hæstv. iðnrh. lítist ekkert á slíkt, ef hann ber hag iðnaðarins fyrir brjósti. Ef gengi íslensku krónunnar er ekki skráð með raunhæfum hætti væri samkeppnisaðstaða íslensks iðnaðar algerlega vonlaus og hann algerlega úr sögunni.

Það er þessi tvískinnungur, þessi loforð fyrir kosningar og vanefndir þeirra loforða eftir kosningar, sem er auðvitað ein höfuðástæðan fyrir flutningi þingrofstíll okkar. Alþb. hefur, sérstaklega hvað snertir gengislækkunarstefnu sína eftir kosningar, gert þveröfugt á við það sem það lofaði kjósendum sínum fyrir kosningar.

Og komum svo að niðurgreiðslunum, sem var önnur efnahagsráðstöfun núv. hæstv. ríkisstj. þegar hún tók við völdum í septembermánuði. Hér hafa menn hrósað ríkisstj. fyrir þá ráðstöfun. En hvernig er henni beitt? Henni er auðvitað beitt fyrst og fremst til þess að lækka kaupið í landinu. Það er ljóst mál, að allar ríkisstj. hafa notað niðurgreiðslur að vissu marki sem hagstjórnartæki og að vissu marki í þeim tilgangi að draga úr hækkun kaupgjaldsvísitölu. En vegna þess að framfærsluvísitalan mælir útgjöld vísitölufjölskyldunnar í matvörum meiri og þyngri en þau útgjöld raunverulega eru, þá er þarna auðvitað verið að rýra kaupmátt launa. Þess vegna verður að fara varlega þessa leið og af fleiri sökum, m. a. þeim, að óeðlilegt er að greiða landbúnaðarvörur meira niður en sem nemur mismuninum á verði til bóndans og verði til neytandans. Vegna þessa má segja að óhófleg notkun þessarar aðferðar sé fölsun á kaupgjaldsvísitölunni, þótt ekki sé tekið tillit til að í upphafi stjórnarferilsins var kjötið, sem miðað var við í vísitölunni, alls ekki til á markaðinum, þ. e. a. s. gamla kjötið. Þess vegna er ekki ofmælt að þessi ríkisstj. hafi falsað vísitöluna og dregið þannig úr kaupmætti launa.

En þarna hangir meira á spýtunni. Núv. ríkisstj. hefur heykst á þessari stefnu, hún er sprungin á þessari stefnu, hún hefur ekki treyst sér til þess að ætla nægilegt fjármagn á fjárl. til þess að halda núverandi niðurgreiðslustigi út árið. Það er fyrirsjáanlegt, að landbúnaðarvörur munu um mitt árið hækka meira en þær hækkuðu um s. l. mánaðamót. Hæstv. viðskrh. hrósaði sér af því, að matvörur væru nú í lægra verði en fyrir 6 mánuðum. Það er skammgóður vermir. Þegar eftir hækkunina um síðustu mánaðamót eru landbúnaðarvörur orðnar í hærra verði. Og það segir sig sjálft, að þegar landbúnaðarvörur hækka í verði um 12–20%,en laun ekki nema um 6.9%, þá rýrnar kaupmátturinn. Þetta eru nú efndir í lagi hjá fulltrúum Alþb., Alþfl. og raunar Framsfl. líka.

Og hvernig eru svo auknar niðurgreiðslur fjármagnaðar? Þær eru fjármagnaðar með skattheimtu á hina ríku, á fyrirtækin í landinu. Það er tilflutningur á fjármagni, segja stjórnarsinnar. Er þetta rétt? Við skulum segja að hér sé um skattheimtu að ræða á atvinnufyrirtæki, á nýbyggingar og verslunar- og skrifstofuhús. En dettur nokkrum í hug annað en þessi skattheimta lendi að lokum á öllum almenningi í landinu? Fyrirtækin verða síður þess megnug að bæta rekstur sinn, síður þess megnug að greiða hærra kaup. Það er kvartað yfir nýbyggingarskattinum, ekki bara af þeim sem ætla að byggja, heldur og af iðnaðarmönnunum í landinu, þar sem farið er að bera á atvinnuleysi. Og halda menn að skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði komi ekki niður sem hærri húsaleiga notenda þessara húsa og að þeir muni velta honum yfir í vöruverðið? Það liggur í eðli málsins. En sannleikurinn er sá, að hér er um annað og meira að ræða en skattheimtu á fyrirtæki. Skattheimtan hlýtur að lenda á öllum almenningi. Hesturinn ber ekki það sem ég ber, sagði karlinn einhvern tíma. Þetta er hundalógik sem er ekki sæmandi að flytja í þingsölum eins og málsvarar ríkisstj. hafa gert.

Nei, sannleikurinn er sá, að þessi aukna skattheimta lendir á öllum almenningi í landinu. Bæði eignarskattar einstaklinga og tekjuskattar einstaklinga stórhækka samkv. fjárl. um u. þ. b. 100%, ef ég man rétt. Og þetta eru ekki eingöngu skattar á hátekjufólk eða stóreignamenn. Þetta eru skattar á millitekjufólk, menn sem eiga kannske rúmlega íbúð og bíl, sem getur ekki verið neitt til þess að sjá ofsjónum yfir. Þetta er skattur á forsjálni fólks og sparnaðarviðleitni fólks. Þetta er skattur á þær höfuðdyggðir sem hafa verið í metum meðal Íslendinga og eru undirstaða framfara í efnahags- og atvinnulífi.

Með sama hætti eru auðvitað fyrirætlanir núv. hæstv. ríkisstj. um eignakönnun. Það er von að hæstv. forsrh. reiðist, þegar bent er á skaðsemi fyrirætlana ríkisstj. hans um svo aukna skattheimtu sem raun ber vitni og eignakönnunina. En hinu bjóst ég ekki við, að hæstv. forsrh. brygðist svo ódrengilega við að fara að reyna að rangtúlka lög sem hann sjálfur ber ábyrgð á jafnt og við aðrir sem sátum í fyrri ríkisstj. og studdum hana. Fyrst var vitnað í 44. og 45. gr. skattalaganna, sem afgreidd voru á þinginu s. l. vor, en þegar upplýst var að þessar greinar fjölluðu eingöngu um hvernig fara skyldi með skattlagningu á söluhagnaði eigna þegar skuldir stæðu á bak við þá eignamyndun, þá þagnaði hæstv. forsrh. og sagði ekki meira um þær greinar, en hvarf aftur til ákvæða 94. gr., sem hann líkti við lögregluríki. Upplýst hefur verið fyrr í dag, að hér er um nákvæmlega sams konar heimildir skattaeftirlits að ræða og hafa verið í lögum síðustu áratugi, enda er það svo, að það væri ekki þörf á eignakönnun ef innihald þessara greina skattalaganna, sem afgreidd voru á s. l. vori, væri eitthvað í líkingu við það sem hæstv. forsrh. lætur sér sæma að túlka.

Ég vildi þess vegna segja að allt þetta, sem ég nú hef talið, sýnir að núv. ríkisstjórnarflokkar hafa gengið á bak orða sinna gagnvart kjósendum og vanefnt kosningaloforðin, þótt varðandi skattheimtu hafi e. t. v. enginn vanefnt meira en Alþfl., sem ætlaði að afnema tekjuskattinn, að því er manni skildist jafnvel algerlega.

Til viðbótar þessu hefur komið fram, að þessum flokkum, sem þóttust hafa ráð undir rifi hverju til að marka efnahagsstefnu til frambúðar, hefur verið um megn að koma sér saman um nokkra efnahagsstefnu eftir kosningar. Þá greinir á um ö(1 aðalatriði efnahagsstefnunnar, eins og ég gat um í frumræðu minni í gær og skal ekki rekja nákvæmlega nú.

Ég nefni sem dæmi að þá greinir á um hver ríkisumsvifin eigi að vera. Þau eru talin af hæstv. fjmrh. vera 30% og þá miðað við ríkisútgjöld í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Við sjálfstæðismenn teljum það vera of mikil ríkisumsvif og teljum að fjárl. hafi í raun í för með sér 31–32% ríkisútgjöld miðað við þjóðarframleiðslu, sem þýðir í heild sinni 25–30 milljarða kr. aukna skattheimtu á landsmenn á þessu ári, og er þá ekki talin aukin skattheimta sveitarfélaga.

Ríkisstjórnarflokkana greinir á um, hvað fjárfestingarstigið eigi að vefa og hvernig stjórn fjárfestingarmála eigi að vera fyrir komið. Ríkisstjórnarflokkarnir eru jafnvel komnir í þær ógöngur að till. liggja fyrir ríkisstj. um haftaráð, sem heitir víst framfaranefnd atvinnuveganna eða eitthvað því um líkt.

Ríkisstjórnarflokkana greinir á um vexti og verðtryggingu, um vísitölumál og um verðlagsmál. Raunar er ekki unnt að nefna þann þátt í efnahagsstefnunni sem flokkana greinir ekki á um.

Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju að við sjálfstæðismenn höfum flutt till. um að þing verði rofið og nýjar kosningar fari fram. Það er nauðsynlegt til þess að dómur verði kveðinn upp yfir ríkisstjórnarflokkunum hvað snertir vanefndir og hvað snertir getuleysi þeirra og vanmátt að marka eða móta efnahagsstefnu til úrlausnar þeim vandamálum sem við er að glíma, ekki síst varðandi viðnám og baráttu gegn verðbólgunni.

Það er út af fyrir sig afskaplega lítið öfundsvert hlutverk sem hæstv. forsrh. hefur — og raunar Framsfl. í heild — að snúast sitt á hvað í átt til Alþb. eða Alþfl. án þess að hafa nokkra sjálfstæða stefnu. Og það er merkilegt að hæstv. forsrh. og framsóknarmenn vilja ekki í rauninni ganga til kosninga og standa einhvern tíma á eigin stefnu í stað þess að vera í hlutverki sendisveins og sendiboða á milli Alþb. og Alþfl. Ástandið á stjórnarheimilinu er svo illt, að hæstv. forsrh. verður að tala við ráðh. stjórnarflokkanna í sitt hvoru lagi til þess að kynna þeim hugmyndir sínar um stefnumörkun!

Það er líka afskaplega merkilegt, að Alþb.-menn skuli ekki vilja þingrof og nýjar kosningar. Hæstv. yfirráðh. Lúðvík Jósepsson lét þess þó getið í áramótaspjalli, að það væri sín skoðun að réttast væri að stefna að nýjum kosningum á þessu ári. En þeim hefur snúist hugur. Sumir segja að ein skýringin sé sú, að ráðh. Alþb. kunni svo vel við sig í ráðherrastólunum að þeir hafi gleymt hugsjónunum og stefnunni og vilji halda í völdin.

Það er líka afskaplega merkilegt, að hv. þm. Vilmundur Gylfason og þeir Alþfl.-þm. skuli ekki vilja þingrof og nýjar kosningar og segja núna að nauðsynlegt sé að fullreyna hvort unnt sé að fá 32 þm. til þess að samþykkja efnahagsstefnu. Þeir hafa verið að reyna þetta, að því er manni skilst, í 6 mánuði — og tveimur mánuðum betur þó. Þessi ástæða vafðist ekki fyrir hv. þm. Vilmundi Gylfasyni þegar hann flutti till. sína um þjóðaratkvgr, um frv. forsrh. Þá þurfti ekkert að fullreyna hvort 32 þm. fengjust hér á þinginu til þess að samþykkja það frv. í upphaflegu eða breyttu formi.

Það er talað um að ef till. okkar sjálfstæðismanna yrði samþykkt hæfist tímabil stjórnleysis. Það getur ekki verið meira stjórnleysi hér á landi en er nú og búið er að vera í margar vikur og mánuði, og þingrof og nýjar kosningar geta farið fram innan tveggja mánaða ef menn hafa vilja til þess.

Ég skal, herra forseti, láta máli mínu lokið, en hlýt þó að segja það að lokum um ummæli eins og hér hafa fallið um að hugur fylgdi ekki máli í tillöguflutningi okkar sjálfstæðismanna, að þá skýtur skökku við þegar hver ræðumaðurinn á fætur öðrum spáir okkur svo mikilli fylgisaukningu að nærri liggur að við fáum hreinan meiri hl. á Alþ. Hvað skyldi vera meiri hvati fyrir okkur sjálfstæðismenn en ef rétt væri sú spá sem ýmsir alþm. hafa viðhaft og ég tek fram að ég skal engan dóm á leggja á þessu stigi málsins? Og skyldi það þá ekki vera skýringin á því, að öðrum hv. þm., sem hingað til hafa talað um dóm kjósenda í ágreiningsefnum milli stjórnarflokka og hér á þingi, hefur nú snúist hugur og vilja ekki um það heyra?

Langlundargeð þeirra Alþfl.-manna er með eindæmum, eins og fram hefur komið af málflutningi fulltrúa þeirra. Tilvitnun hv. þm. Eiðs Guðnasonar í Grím Thomsen var svo dæmigerð lýsing á heimilisástandi hjá ríkisstjórnarflokkunum, að önnur orð hitta ekki betur í mark.

Herra forseti. Ég vonast til þess að sú atkvgr., sem fram fer á morgun um þáltill. okkar sjálfstæðismanna, leiði í ljós hvaða þm. hafa þor og kjark til þess að áfrýja málum til kjósenda. Ég vil svo láta það verða lokaorð mín í þessum umr., að hvort sem þessi þáltill. verður samþ. eða felld og hvort sem núv. hæstv. ríkisstj. kemur sér saman um málamyndafrv. um efnahagsmál eða ekki, þá er ljóst, m. a. af umr. um þessa þáltill. okkar, að þessi ríkisstj. verður aldrei til stórræðanna fallin. Hún er í raun dauð úr öllum æðum og það er því þjóðarnauðsyn að hún fari frá sem allra fyrst og landsmenn marki að nýju ferska stefnu sem megnug sé þess að leiða þjóðina á heillavænlegri brautir en hún hefur gengið síðustu mánuðina.