08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3109 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Friðun Faxaflóa fyrir dragnótaveiðum hefur nú staðið í langt árabil og það er bjargföst trú sjómanna og margra fleiri aðila, að þessi friðun hafi þegar borið umtalsverðan árangur. Eins og allir vita er Faxaflói uppeldisstöð fyrir nytjafiska, ekki síst ýsustofninn. Þetta sjónarmið hefur ekki verið hrakið, hvorki af fiskifræðingum né öðrum. Áður en friðun hófst var ördeyða á fiskislóðum í Faxaflóa. Um þetta eru til óyggjandi skýrslur.

Í Breiðafirði hafa dragnótaveiðar verið leyfðar í áratugi, enda er það veiðisvæði öðruvísi samsett en Faxaflóasvæðið. Voru dragnótaveiðar um árabil undirstaða fiskveiða og fiskvinnslu á Snæfellsnesi. Sjómenn og útgerðarmenn við Breiðafjörð hafa ávallt haldið því fram, að í Breiðafirði innanverðum væri hrygningar- og uppeldissvæði fyrir þorskinn. Þess vegna börðust þeir fyrir því að svæði innan línu úr Eyrarfjalli í Skor yrði alfriðað fyrir dragnót, fiskitrolli og netum allt árið. Sumir fiskifræðingar okkar lögðust gegn þessu áliti sjómanna og útgerðarmanna og fullyrtu að fiskur hrygndi ekki í Breiðafirði. Gamlir reyndir sjómenn voru svo sannfærðir um álit sitt að þeir buðu fiskifræðingunum birginn. Niðurstaðan varð sú, að þessi friðun var viðurkennd og sett í reglugerð sem enn gildir, og sjómenn, útgerðarmenn og fiskifræðingar viðurkenna nú að sjá megi greinilegan árangur þessara aðgerða í aukinni fiskigengd, ekki síst ýsu, sérstaklega á norðanverðum Breiðafirði. Hins vegar blasir ein staðreynd við sem ég tel nauðsynlegt að komi fram við þessa umr. Hún er sú, að dragnótaveiði í Breiðafirði hefur algerlega brugðist s. l. þrjú sumur með þeim afleiðingum að áhugi útgerðarmanna og sjómanna er nú enginn fyrir þessum veiðum. Og það furðulega er, að þar sem áður fyrr voru árviss auðug skarkolamið, sem aldrei brugðust, eins og á Skarðsvík og Beruvík, fæst nú enginn afli. Hvað veldur kann ég ekki svar við, en svo mikið er víst að á þessu svæði er ekki finnanlegur gamli skarkolinn hans Stefáns Jónssonar, hv. þm., sem var að senda sjómönnum á Snæfellsnesi miður smekklega kveðju við þessar umr. fyrr.

Ég skal ekki vefengja það álit fiskifræðinga að skarkolastofninn sé vannýttur, og vafalaust væri hægt að veiða talsvert magn af þessum ágæta fiski í Faxaflóa, en ég dreg í efa að opnun Faxaflóa fyrir dragnót verði heillaspor eða hafi afgerandi þýðingu fyrir fiskveiðar og afkomu sjávarútvegs á Íslandi.

Á undanförnum árum hefur skarkolinn ekki skipað þýðingarmikinn sess í útflutningsframleiðslunni, enda oftast heilfrystur, mikil afföll í nýtingu og oft mátti sjá þrær fiskmjölsverksmiðja hálffullar af þessu hráefni og ekki sjaldan komið úr frystiklefunum sjálfum. Ástæðurnar voru að varan var óseljanleg. Flökunarvélar munu að sjálfsögðu breyta þessu verulega. En er það örugg fjárfesting og markaður sem um munar? Hvar eru tölulegar upplýsingar um slíkt?

Ég vil endurtaka það, að hér er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Mitt álit er að við eigum að flýta okkur hægt í þessu máli og þessi till., sem hér er til umr., sé ekki tímabær. Við erum með sérstaka nefnd, fiskveiðinefnd, til að athuga öll þessi mál, þ. e. a. s, nýtingu fiskimiðanna umhverfis landið og hvernig best verður náð árangri í að byggja upp þorskstofninn. Á því veltur framtíð þjóðarinnar, það er ekki of sterkt til orða tekið. Þess vegna ber að taka tillit til reynslu af friðunaraðgerðum, sem í gildi hafa verið í Faxaflóa og á Breiðafjarðarmiðum, og varast að taka einhliða ákvarðanir um eina fisktegund, sem talin er vannýtt, og leyfa veiðarfæri á friðuðu svæði, sem margir telja að valdið gæti óbætanlegu tjóni á öðrum nytjafiskum.

Það vantar stórlega meiri rannsóknir, víðtækari þekkingu á fiskimiðunum umhverfis landið, meiri staðreyndir um nytjafiska. Ég nefni sem dæmi skelfiskinn, hörpudiskinn í Breiðafirði. Í Stykkishólmi hafa um árabil verið byggðar upp vinnslustöðvar sem vinna nær eingöngu þetta hráefni til útflutnings. Er nú svo komið að treyst er á þessa fisktegund sem aðalatvinnugrein í byggðarlaginu, og raunar hafa önnur byggðarlög áhuga á málinu til atvinnuauka. Það er því ekki lítið mál, að fullkomin rannsókn fari sífellt fram á hegðun þessa fisks — rannsókn er leiði í ljós nákvæmar upplýsingar um magn skelfisks, viðkomu hans, vaxtarhraða — og allt veiðisvæði hörpudisks í Breiðafirði sé kortlagt og síðan skipulagt til veiða, miðað við að skynsamlega verði að farið, svo þarna geti þróast fastmótuð atvinnugrein er byggist á vísindalegum staðreyndum sem allir viðurkenna og geta treyst. Á það skortir í dag. Þannig mætti taka dæmi um aðrar fisktegundir, svo sem rækju, humar, síld svo og allar tegundir botnfiska. Sem fiskveiðiþjóð megum við ekki vera fastir á fjármagni til rannsóknastarfa á þessu sviði. Því þurfum við að átta okkur á í tíma. Oft hefur verið þörf, en nú er nauðsyn.

Ég var fyrir nokkrum dögum á ráðstefnu Verkfræðingafélags Íslands um hagnýtingu fiskimiða eða fiskstofna, og þar komu fram ýmsar fræðilegar upplýsingar um þessi mál sem vert er að gefa gaum. Ég er reiðubúinn að ræða ýmsar aðgerðir til verndunar fiskstofnum, friðun fiskveiðisvæða, stjórnunaraðgerðir við fiskveiðar og skipulag veiða. Ég tel að hefja eigi umr. um þessi mál sem víðast. Það eigi að fá okkar ágætu fiskifræðinga til viðræðna við sjómenn okkar og útgerðaraðila og reyna að ná sem víðtækustu samstarfi til að standa að aðgerðum er tryggi skynsamlega nýtingu fiskimiðanna og fullnýtingu sjávarafla.

Ég vil leggja áherslu á það, hversu það varðar miklu að efla þátt fiskifræðinga okkar og annarra sérmenntaðra manna á þessu sviði, vísindalegar rannsóknir hvað varðar fiskstofna, nýtingu fiskimiða, úrvinnslu og skipulag þessara mála almennt. Það sæmir ekki annað fiskveiðiþjóð, sem á alla tilveru sína undir fiskveiðum og fiskvinnslu. Hér er ekki við aðra að sakast. Við ráðum sjálf yfir fiskimiðunum, 200 mílna fiskveiðilandhelgi. Við hljótum því að horfast í augu við þá staðreynd, að framtíð þjóðarinnar er í veði ef við kunnum ekki með fjöreggið að fara.