08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3111 í B-deild Alþingistíðinda. (2409)

194. mál, veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Það er alveg rétt, að sumir eru hálfgert bólusettir gegn dragnót — en hvers vegna? Þeir vita nefnilega hver hefur verið reynslan af notkun dragnótar, t. d. í Faxaflóanum. Síðast þegar leyfð var dragnót í Faxaflóanum voru líka til fiskifræðingar og það voru líka til skip sem áttu að fylgjast með veiðinni, en það var ekki gert. Verulegur hluti af fiskafla úr Faxaflóanum rýrnaði til stórkostlegra muna á örfáum árum sem dragnótin var leyfð. Um þetta þarf ekkert að deila, því að það eru til aflaskýrslur sem sanna þetta. Faxaflóanum var aftur lokað fyrir dragnót. Líka eru til skýrslur, aflaskýrslur, sem sanna að fiskgengd óx í flóanum eftir að honum var lokað. Með hverju einasta ári þar á eftir jókst afli smábáta hér við flóann, á hvern róður og á hvern bát. Bátunum fjölgaði líka. Þá á ég fyrst og fremst við smábátana, en einnig stærri bátana.

En við erum bólusettir, segir hv. þm., og rétt er það að því leyti líka, að við treystum ekki einu sinni alltaf ljósmyndum. Því var áður fyrr treyst sem stóð á prenti, það væri ekki logið á prenti. Og það er ekki togið á myndum. En það er bæði hægt að ljúga á prenti og ljúga á myndum ef þær eru þannig teknar, ef þær eru teknar í ákveðnum tilgangi, þegar myndin á að sanna fyrir fram ákveðna stefnu, sanna það sem menn hafa áhuga á. Hv. þm. Ólafur Björnsson sýndi mér einmitt sumar af þessum myndum og þær sönnuðu mér líka svolítið annað en hann ætlaði að sanna. Möskvinn, sem er að vísu mjög stór, 17 cm, í þessu hleralausa trolli verður nefnilega ekki eins og ferhyrningur í laginu, heldur eins og tígull og tígullinn í snurvoðinni hleypir ekki stórum fiskum í gegn. Hann hleypir nánast engu í gegn þegar vængurinn er farinn virkilega að strekkjast. Og þegar nokkur kolaafli er kominn í pokann þar að auki, og að ég tali nú ekki um að þeir hnýti fyrir pokann, eins og sagt var að væri gert á vissum stöðum, þá fer ekki neitt í gegnum möskvana nema vatnið. Þetta vita menn líka. Smábátaeigendurnir við Faxaflóann, hvort sem er á Akranesi, í Reykjavík, Hafnarfirði, jafnvel sums staðar á Suðurnesjum, vita ósköp vel að það er verið að eyðileggja miðin þeirra með þessu. Það er kannske ekki stórt innlegg í þjóðarbúið, en það er þó töluvert drjúgt.

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar gerði samþykkt um þetta efni fyrir skömmu, þar sem hún skoraði á Alþ. að opna ekki Faxaflóann fyrir dragnót. Ég býst við að þessi samþykkt sé engu ómerkari en það sem gert var í Keflavík og Njarðvík. — Menn skyldu nú vara sig, því að menn vita hver hefur verið reynslan af þessu.

En hvernig sem við treystum læknum, hómópötum, fiskifræðingum eða sjómönnum, þá vil ég segja að ég treysti fiskifræðingum æðivel, ef þeir hafa aðstæður til þess að dæma um það sem þeir eru að segja, ef þeir hafa mannafla, skipakost og fjármuni til þess að gera sér grein fyrir hver miðin eru, hvað þau eru stór og afkastageta þeirra er mikil og að þeir geti fylgst með þeim. Jafnvel þar sem þeir hafa sumstaðar vel gert og fylgjast náið með hefur þeim orðið á ill skyssa í því að dæma um stöðu fiskstofnanna. Þessa höfum við dæmi alls staðar í kringum landið og um hvern einasta fiskstofn sem um hefur verið fjallað. Ég bið því fyrst og fremst um það, að hér verði ekki flanað að neinu.