08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3115 í B-deild Alþingistíðinda. (2414)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, að margt mætti fara betur um stjórnun verkalýðsfélaga, eins og reyndar um mörg önnur mál hjá okkur á okkar ágæta landi.

Hann telur að verið sé að falsa vísitöluna í sambandi við þessi mál öll. Atvinnurekendur hafa nú metið að þetta mál eitt þýddi 1.3% kauphækkun, af þeim 3% sem um var að ræða og um var samið.

Ég vil neita því varðandi lagasetningar af þessu tagi, að það sé verið að taka völd frá verkalýðsfélögunum. Í flestum nálægum löndum og einmitt í þeim löndum, sem verkalýðsfélögin eru sterkust, þ. e. a. s. á Norðurlöndunum, koma stjórnvöld alltaf inn í myndina til þess að létta undir hornið hjá þeim sem verst eru settir, þeim sem minnstu ná í gegnum samninga, þ. e. a. s. lægst launuðu verkamönnum og verkakonum. Það er alltaf í þessum löndum þannig, að stjórnvöld og löggjafinn koma inn í myndina til þess að bæta þeim upp til að jafna hlut þeirra miðað við þá sem betri árangri ná í samningum.