08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2417)

198. mál, fjörutíu stunda vinnuvika

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, að þetta frv. til l., sem hér liggur fyrir, sé spor í rétta átt og þarna sé um að ræða löggjöf sem miðar að því að draga úr óhóflegu vinnuálagi og kalli jafnframt á nauðsynlegt skipulag við framleiðslustörf og aðra vinnustarfsemi í landinu.

Ég er fylgjandi því, að þessi mál séu jafnframt skoðuð með tilliti til þess að gera vinnutímann sveigjanlegri og reyna að taka upp breytta stefnu í þessum málum hér á landi. Það hefur örugglega verið of lengi þögn um að taka þessi mál til skoðunar fyrir opnum tjöldum og reyna að aðstoða við að tileinka verkalýðshreyfingunni hér á landi nútímaaðferðir og reyna að finna þar upp frjálslegra form, sem mundi auka réttindi verkafólks og gera þessi mál miklu sveigjanlegri til hagsbóta fyrir launþega, og að hægt sé að taka mið af ýmsum sveiflum og framförum sem eru í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

En ég ætlaði nú aðallega að benda á í sambandi við það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. sagði áðan, að mér finnst að það, sem hann túlkaði í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, sé nokkuð mikið í mótsögn við það sem hann og skoðanabræður hans hafa haldið fram undanfarið á hv. Alþ.: að verkalýðshreyfingin og slíkir hagsmunahópar ráði eiginlega öllu sem fram fer í þjóðfélaginu, þeir setji ríkisstj. upp við vegg o. s. frv. Það er ekki hægt að marka af því, að verkalýðshreyfingin sé þar með valdalaus eða áhrifalaus í þjóðfélagi okkar, nema síður sé.

Ég er sannfærður um að þessi mál þurfa skoðunar við. Ég er ekki sammála um að það kerfi, sem við búum við sé endilega það hagstæðasta, og þar þarf að gera vissar breytingar, eins og ég sagði áður. En ég vil mótmæla því, að það sé hægt að taka þessa löggjöf sem sérstakt dæmi um neikvæð áhrif verkalýðshreyfingarinnar á sviði löggjafar á Íslandi. Mér finnst það alveg vera þversögn og ég vil mótmæla því um leið og ég styð þetta frv.