08.03.1979
Efri deild: 67. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2420)

166. mál, grunnskólar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eins og hv. síðasti ræðumaður, að ég hélt að um þetta mál væri nokkurn veginn samstaða, það væri ekki neitt sérstakt ágreiningsefni. Ég byggði það m. a. á því, sem er vitað mál, að tækniöldin hefur breytt mörgu hjá okkur á stuttum tíma. Hún hefur skapað visst öryggisleysi um einkalíf einstaklingsins, og hún hefur framkallað vissar hættur sem alls ekki voru fyrir hendi áður. Í öðru lagi er að geta sérstöðu þjóðfélags okkar, sem er lítið þjóðfélag, tiltölulega vel upplýst. Þykir mörgum í útlöndum girnilegt að fá aðstöðu til þess að gera rannsóknir hér á landi, og á þetta við bæði um heilbrigðis- og önnur félagsmál og félagsvísindi. Það er alllangt síðan aðilar úti í löndum sýndu áhuga á slíkum verkefnum, og það mun fara í vöxt að leitað verði eftir slíku.

Ég taldi því öruggt mál hvað varðaði kannanir í skólum okkar, að það væri í raun og veru sjálfsagt að binda hnútana nokkuð fast og örugglega svo að erfitt yrði að misnota kannanirnar síðar meir. Málið hefur nú snúist á allt annan veg og ég á svolítið erfitt með að skilja það, að þeir hv. tveir þm. Alþb., sem hér hafa talað, hafa virst algjörlega andvígir þessu frv. Þeir vilja samt halda því fram, að það sé ekki efnislega, heldur vegna þess sem hv. flm. hefur sagt hér, en sýnilega er það efnislega líka, að þeir eru því ekki sammála. Og þetta kemur mér enn þá meira á óvart vegna þess að ég veit ekki betur en núv. hæstv. menntmrh. hafi síðan ég kom hingað inn í Alþ. a. m. k. sýnt mikinn áhuga á því að hér kæmu lög um tölvunotkun og lög um möguleika til að takmarka upplýsingar um einkahagi einstaklingsins. Í öðru lagi eru mér ofarlega í huga viðbrögð þessara aðila þegar Bragi okkar Jósepsson var að gera könnun vestur á Snæfellsnesi. Þau viðbrögð voru heldur óblíð og virtust eindregið benda til þess, að þeir væru mjög einhuga um að hafa hemil á öllum slíkum könnunum og að þar væri vel og rækilega að öllu staðið.

Varðandi þá könnun, sem hér um ræðir og hefur verið mest um rædd, þ. e. a. s. Árósakönnunina, hef ég það frekast heyrt um niðurstöður hennar, að skátar og íþróttaunglingar á Íslandi hefðu meiri glæpahneigð en aðrir unglingar. Þetta gaf manni strax hugmyndir um að einhvers staðar væru annaðhvort dregnar skakkar ályktanir eða að á vafasaman hátt væri að málum staðið. Þótt ég hafi ekki kynnt mér þá könnun rækilega, sýnist mér að hún hafi að verulegu leyti verið gerð í þeim tilgangi að finna út hvort hér væri stéttaþjóðfélag eða ekki, hvort hér væri stéttafélag meira en annars staðar miðað við afkomu. Það hefur komið fram í skrifum sumra þessara manna, að þeir hafi beinlínis verið að leita eftir því. Skýrist þá e. t. v. einnig hvernig raðað var í sósíalflokkana. Það held ég að hafi verið svolítið öðruvísi gert en venja er að gera. Það lítur út fyrir, að það hafi verið gert nokkuð mikið með þetta atriði í huga.

Það er sem sagt að mínu viti fyrst og fremst sú breytta afstaða, sem tækni nútímans og þá fyrst og fremst tölvuvinnslan veldur, sem gerir að verkum að ný ákvæði í lögum eru nauðsyn til þess að fyrirbyggja að skaði geti skeð.

Ef við tölum um þá sérstöku spurningalista, sem rætt hefur verið um, má segja að flest af því, sem þar er spurt um, sé ósköp eðlilegt, sanngjarnt og sjálfsagt. Er ekki líklegt að það geti valdið unglingum eða fullorðnum mönnum neinum vandræðum þótt farið yrði að gramsa í því seinna meir. En viss atriði gætu þó leitt til leiðinda, svo ekki sé meira sagt. Sumar spurningar, sem þarna er um að ræða, eru svolítið óvenjulegar. Kannske er það af því að ég er orðinn svo gamall að mér finnst ekki viðeigandi t. d. þegar verið er að spyrja um hvort unglingarnir hafi káfað á kynfærum ýmist hins kynsins eða sama kyns. Ýmislegt annað í þessum kynferðisspurningum er frá mínu sjónarmiði mjög vafasamt, eins og að gengið er út frá því að unglingarnir hafi kynmök við sama kyn, enda þótt ekki sé um kynvillu að ræða. Ég veit að þetta kann að vera rétt, en ég held að það sé vafasamt að vekja athygli á þessu. Og ýmislegt er í þessu sem ég býst við að menn vildu ekkert sérstaklega vera að láta hrista upp í seinna meir þegar þeir væru komnir á fullorðinsaldur, en allt slíkt er mögulegt. Þetta fer inn í tölvur, a. m. k. að einhverju leyti, og það m. a. s. úti í útlöndum, og það er vitað mál að sé það þangað komið er aldrei öryggi um leyndina.

Það hefur af hv. flm. verið gerð rækileg grein fyrir því, að hér er ekki um neina nafnleynd að ræða. Það er ákaflega auðvelt, skilst mér, að komast til botns í því hver aðilinn sé.

Það er mikill misskilningur að með frv.-flutningnum sé verið að torvelda vísindarannsóknir. Grundvöllurinn fyrir því, að hægt verði að veita heimild til vísindarannsókna sem þessara í framtíðinni, er einmitt að svo rækilega sé gengið frá ýmsum atriðum, sem menn geta orðið sammála um að nauðsynleg séu, að ekki leiki vafi á því að óhætt sé að hleypa hverjum sem er til vísindarannsókna undir handleiðslu háskóla í þau verkefni.

Það pólitíska moldviðri, sem hér hefur skollið á, álít ég sem sagt að sé út í hött og algjörlega ástæðulaust. Það er enginn vafi á því, að almennur áhugi er á því, að pólitískur áróður sé ekki viðhafður í skólum. Þar með er ekki verið að segja að kennarar þurfi endilega að vera hlutlausir, en þar verður að vera hóf á. Það er það sem verið er að sækjast eftir og virðist vera algjörlega sjálfsagt.

Hvað viðvíkur breytingum á grunnskólalögunum, sem hér er um að ræða, og þá sérstaklega breytingum á 1. og 2. gr., sé ég ekki að það sé annað en það sem við vorum að samþykkja nú alveg nýlega í Sþ. Þar var verið að staðfesta mannréttindasáttmála og þar eru þessi ákvæði efnislega, þótt með eitthvað öðru orðalagi sé. Hér er ekki um að ræða annað en það sem ég hélt að hægt væri að vera nokkurn veginn einhuga um.

Mér finnst sem sagt óeðlileg afstaða, sem þeir tveir hv. fulltrúar Alþb., sem hér hafa talað, hafa tekið, og skil í raun og veru ekki hvað liggur til grundvallar málflutningi þeirra. Ég er búinn að taka það fram áður. Mér finnst það hafa komið fram, að flokkslega séð sé það stefna þeirra að ganga rækilega frá því að ekki sé hægt að misnota tölvur og koma fram síðar meir með upplýsingar sem hafa átt að vera leyndarmál og öllum huldar.

Varðandi þau atriði, sem um er að ræða, er t. d. tekið skýrt fram í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, að fjölskyldan sé í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins og beri þjóðfélagi og ríki að vernda hana. Það stendur í 16. gr. hennar og er eitt af því sem er verið að kveða nánar á um í þessu frv. Enn fremur er það, að fræðslan sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir. Það finnst okkur í raun og veru eðlilegt og sjálfsagt enda þótt það þýði ekki að þar sé gengið út í öfgar.

Það er nokkuð ljóst að við þurfum að fá þessa breytingu á grunnskólalögunum. Ég held að það sé eðlilegt að við verðum að vera nokkuð varkárir með leyfisveitingar til rannsókna, jafnvel þó um stúdenta sé að ræða og þó það sé á ábyrgð prófessora eða kennara, vegna þess að rannsóknirnar geta verið grundvöllur að alls konar upplýsingum sem við kærum okkur ekki um að sé á hvers manns færi að vita. Og ég vil geta þess, að eftir þessu er hægt að fá mjög miklar upplýsingar um þessa unglinga þegar þeir eru komnir á þrítugs- eða fertugsaldurinn. Segjum svo, að sú breyting yrði á, að stjórnvöld fengju sérstakan áhuga á að fá nánari upplýsingar um hagi og fortíð þessara unglinga, sem þá eru orðnir fullvaxið fólk, þá væri opið fyrir þau að fá mjög nákvæmar upplýsingar um allt atferli þessa fólks á fyrrnefndu æviskeiði.