08.03.1979
Neðri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

213. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þessi þrjú frv. fylgja í reynd hvert öðru og byggjast á því, eins og kom fram í máli hæstv. ráðh., að í lögum um matvælarannsóknir, sem sett voru 1977, er gerð sú breyting, að í stað þess að ríkið standi undir öllum greiðslum við starfsemi matvælarannsóknanna á að taka upp sérstakt greiðslukerfi fyrir þá sem um rannsóknir biðja, og það er auðvitað sjónarmið út af fyrir sig. Hins vegar þegar þessi löggjöf var sett, þá byggðist hún á ákvæðum þeirra laga sem hér er einnig flutt breyting á, sem eru lög um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum og lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit.

Lög um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit hafa verið túlkuð á þann veg, að rannsóknastofnanir ríkisins skuli annast nauðsynlegar rannsóknir á sýnishornum vegna heilbrigðiseftirlitsins, og með tilliti til þess, eins og sú grein er í gildandi lögum, hafa sveitarfélög ekki talið að þeim beri að greiða rannsóknastofnunum ríkisins fyrir þá þjónustu sem þær veita sveitarfélögunum í þessu sambandi. Þó má kannske segja það, að sýnishornum, sem send eru til Matvælarannsókna ríkisins, hefur farið ört fjölgandi á síðustu árum, og kannske eru þau fleiri vegna þess að þegar viðkomandi aðilar vita að þeir eiga ekki að standa undir neinum greiðslum sjálfir, þá er ekki verið að skera við nögl að biðja um þessa þjónustu. Hefur það gert að verkum að starfsemi Matvælarannsókna ríkisins hefur stóraukist á undanförnum árum.

Þessar matvælarannsóknir voru lengst af til húsa í Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og voru unnar þar af tiltölulega fáum aðilum. Sá, sem aðallega sinnti þessu, er núv. forstöðumaður Matvælarannsókna ríkisins, sem þá var starfsmaður eða deildarstjóri í Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. En vegna margþættrar aukinnar starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins var lögð mikil áhersla á að matvælarannsóknir yrðu lagðar niður eða fluttar frá þeim, og voru þegar uppi óskir um það á árinu 1974. Að því kom að ekki var hægt að streitast gegn því lengur vegna stóraukinna verkefna Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, og þá var stofnað til sjálfstæðra matvælarannsókna, og sá starfsmaður, sem annaðist þessi mál, tók stjórn þeirra að sér. Þessi starfsemi var tekin um tíma, þangað til lög voru sett á árinu 1977 um matvælarannsóknir ríkisins og þeim komið fyrir í góðu húsnæði og vel að þeim búið. En það kom fljótt í ljós, að aukning var svo mikil, bæði á starfsliði og öðru, að fjárveitingavaldið fór að spyrna gegn því að taka inn fleiri starfsmenn eða ganga lengra í greiðslum til matvælarannsóknanna, og sérstaklega kom það fram við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1979. Þá var séð að matvælarannsóknirnar gátu engan veginn gegnt því þjónustuhlutverki, sem þeim er ætlað lögum samkv., vegna takmarkaðra fjárframlaga.

Ég fyrir mitt leyti tel ekkert því til fyrirstöðu, að stofnun eins og Matvælarannsóknir ríkisins fái samkv. þessu frv. heimild til þess að taka greiðslu fyrir verk sem unnin eru fyrir aðra, og hér er auðvitað fyrst og fremst um að ræða að íþyngja töluvert sveitarfélögunum. Það er verið að færa kostnað, sem ríkið hefur staðið áður undir að öllu leyti, yfir á sveitarfélögin. Ég tel ekkert óeðlilegt við þessa breytingu, og ég tel þörf á því og það kemur mjög til álita að breyta lögum um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit hvað þetta snertir, vegna þess að þau voru túlkuð með þeim hætti frá hendi sveitarfélaganna, sem sennilega stenst lagalega, að þau gátu neitað að greiða rannsóknastofnunum á vegum ríkisins fyrir þessa þjónustu. En nú var talið rétt að láta á þetta reyna.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort hafi verið haft samband við Samband ísl. sveitarfélaga um þessa breytingu og þá hvort þetta frv. og þessi fylgifrv. eru flutt með vitund og vilja stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga. Ég tel eðlilegt að um þetta sé spurt við 1. umr., áður en málin fara til n., af því að hæstv. ráðh. gat ekkert um Samband ísl. sveitarfélaga í framsöguræðu sinni. Hins vegar undirstrika ég það sem mína persónulegu skoðun, að ég tel fyrir mitt leyti, ekkert óeðlilegt við að gera breytingu í þessa átt.