08.03.1979
Neðri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3132 í B-deild Alþingistíðinda. (2427)

213. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Vestf. fyrir góðar undirtektir. Það er auðvitað rétt sem kom fram í hans máli, að það er verið að færa kostnað frá ríkinu yfir á sveitarfélögin, en það er svo líka til að taka, að í öðru af fylgifrv. þessa frv. er gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fái þennan kostnað greiddan aftur, þ. e. a. s. það verði samin gjaldskrá sem heimilar þeim að taka þennan kostnað af þeim sem unnið er fyrir í hvert skipti. Vona ég að það fari langleiðina með að greiða þann kostnað sem sveitarfélögin verða fyrir.

Ég verð að játa það, að ég hef ekki haft samband við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga um þetta mál. Ég taldi satt að segja að með því fylgifrv. og þeirri gjaldskrá, sem verður sett í framhaldi af því, mundu sveitarfélögin fara út úr þessu máli skaðlaus. Það var a. m. k. von mín.