08.03.1979
Neðri deild: 60. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2436)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Pálmi Jónsson [frh.]:

Herra forseti. Í fyrri hluta af ræðu minni s. l. mánudag hafði ég lokið við að greina frá brigðum á yfirlýsingum hæstv. iðnrh. varðandi óendurkræf framlög úr ríkissjóði til þess að mæta fjármagnsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Þessi ummæli hæstv. iðnrh. voru m. a. flutt á fundi hv. Nd. 15. des. s. l. þegar rætt var frv. til l. um verðjöfnunargjald af raforku. Þar lýsti hann yfir að hæstv. ríkisstj. hugsaði sér að mæta fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins með tvennum hætti: Í fyrsta lagi með því að ríkissjóður legði stofnuninni til 600 millj. kr. óendurkræft framlag af lánsfjáráætlun ríkisstj. og svo í öðru lagi með framlengingu og hækkun verðjöfnunargjalds af raforku. Það hefur nú komið í ljós, að ekki er staðið við fyrra fyrirheitið. Á því eru alger brigð, vegna þess að í þessari lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að afla að láni 600 millj. kr. sem stofnunin á að taka og standa undir kostnaði við, en ríkissjóður leggi Rafmagnsveitum ríkisins til 120 millj. kr. á ári á næstu 5 árum, sem er nokkuð annað. Ég hafði einnig í fyrri hluta ræðu minnar lokið við að lýsa viðbrögðum stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins og þeim samþykktum, sem þar höfðu verið gerðar um áskoranir til hæstv. iðnrh. og ríkisstj. í heild um að breyta þessu lánsfé í óendurkræft framlag, eins og fyrirheit voru gefin um.

Ekki er þörf á að tíunda það frekar, að fjárhagsvandi Rafmagnsveitna ríkisins verður ekki leystur með nýjum lántökum. Fjármagnsskuldbindingar fyrirtækisins eru þegar það miklar, m. a. vegna óarðbærra félagslegra framkvæmda sem stofnunin hefur orðið að ráðast í, að það leysir ekki þann vanda að taka ný lán eða framlengja eldri lán, eins og hér er gert ráð fyrir. Enn fremur hefur verið iðulega úr þessum ræðustól, bæði af mér og öðrum, lýst því, að upp hefur verið tekin ný stefna af hálfu forráðamanna fyrirtækisins í þá átt að greina í sundur framkvæmdir á vegum þess, m. a. á þessu ári, í annars vegar svokallaðar félagslegar framkvæmdir, sem ekki verður staðið undir kostnaði við af orkusölu á þeim svæðum sem þær eiga að þjóna og hefur verið farið fram á að fá óendurkræf framlög til þess að mæta slíkum framkvæmdum að hluta, og svo hins vegar framkvæmdir sem eru þess eðlis að orkusala getur staðið undir kostnaði við þær.

Í framhaldi af þessu þarf ekki að ítreka það, að sú niðurstaða, sem birtist í lánsfjáráætlun með þessu frv. sem hér er á dagskrá, er í fyllsta máta alvarleg fyrir Rafmagnsveitur ríkisins og þó ekki einasta fyrir það fyrirtæki, heldur fyrir alla þá sem skipta við það fyrirtæki. Rafmagnsveitur ríkisins hafa mótað stefnu sína varðandi gjaldskrármál nú síðustu mánuðina með tilliti til yfirlýsinga hæstv. iðnrh. sem hér hefur verið vitnað til og nú hafa því miður brugðist.

Það hefur verið rakið hér á hv. Alþ., að á síðasta ári var svo komið að m. a. heimilistaxtar hjá Rafmagnsveitum ríkisins voru orðnir um 88% hærri en t. a. m. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, svo að einhver viðmiðun sé gerð. Þessi mikli munur á orkuverðinu í landinu er óþolandi og getur ekki gengið til frambúðar.

Í framhaldi af yfirlýsingu hæstv. ráðh. og fyrirheitum um hækkun verðjöfnunargjaldsins hefur verið haldið nokkuð aftur af gjaldskrárhækkunum hjá Rafmagnsveitum ríkisins, þó að gjaldskrárbreytingar hafi raunar orðið nokkrar. Gjaldskrá breyttist hinn 15. febr. s. l., en þó miklu minna en hjá ýmsum öðrum orkusölufyrirtækjum. Þetta leiddi til þess, að nokkuð hefur dregið saman með verði raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins annars vegar og ýmsum orkusölufyrirtækjum sveitarfélaga hins vegar. Þannig er t. d. heimilistaxtinn nú hjá Rafmagnsveitum ríkisins frá 56.1% upp í 72.5% hærri en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur eftir notkun, en það breytist miðað við hversu mikið magn er notað, í stað þess sem áður var, að á þessum liðum munaði kringum 88%. Húshitunartaxti er nú 56.5% hærri hjá Rafmagnsveitum ríkisins og vélataxti er frá 63.7% upp í 70% hærri en er hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, og er þessi munur nokkuð miklu minni en var fyrir þær gjaldskrárbreytingar sem urðu hinn 15. febr. s. l. Þetta er gert í trausti þess, að staðið yrði við þær yfirlýsingar sem hæstv. iðnrh. hafði gefið hér á hinu háa Alþ. og í viðræðum við starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins. Þess vegna hlýtur að verða spurt hvort hæstv. ríkisstj. ætli sér að reka þetta þannig áfram að ekki verði hjá því komist að stórhækka gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins vegna þess að þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið, hafa reynst orðin tóm. Ég harma það að hæstv. ráðh. skuli ekki geta verið hér viðstaddur þessa umr., en ég get sagt það og hef sagt það fyrr úr þessum ræðustól, að mér hefur fundist að það ríkti skilningur á því hjá hæstv. iðnrh., að það þyrfti að koma til móts við Rafmagnsveitur ríkisins og það fólk, sem það fyrirtæki þjónar í orkumálum, til þess að draga úr þeim mismun sem er á verði orkunnar hjá þessu fyrirtæki og ýmsum öðrum fyrirtækjum í landinu sem fást við orkusölu. En þegar ekkert kemur annað en orðin tóm, þá fer ekki hjá því að það dregur úr því trausti sem ég hafði tilhneigingu til þess að bera til þessa hæstv. ráðh.

Ég ítreka þá kröfu Rafmagnsveitna ríkisins, að þeim 600 millj. kr., sem lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir að varið verði sem lánsfé til Rafmagnsveitna ríkisins, verði breytt í óendurkræf framlög. Og ég hlýt að greina frá því, að það verður ekki hjá því komist að leggja fram brtt. við þetta plagg, ef ekki verður orðið við þeirri kröfu sem ég hef borið fram við meðferð þessa máls. Ég mun ekki ræða þetta að sinni frekar, aðeins ítreka að þær lagfæringar, sem orðið hafa á orkuverðinu og að nú skuli nokkuð hafa dregið saman með verði á seldri raforku frá Rafmagnsveitum ríkisins annars vegar og ýmsum öðrum orkusölufyrirtækjum í landinu hins vegar, það er auðvitað háð því, að orðið verði við þessari kröfu sem er alger lágmarkskrafa. Verði það ekki gert þá hlýtur að draga þarna stórkostlega sundur að nýju, óréttlæti í orkumálum að vaxa. Og það verður þá að bregðast við því með nýjum hætti og m. a. með því að það fólk, sem býr við það misrétti sem hér virðist stefnt að, láti til sín heyra.

Í þessu frv. og þeirri skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir næsta ár, sem frv. fylgir, er gert ráð fyrir að varið sé 600 millj. kr. til Bessastaðaárvirkjunar. Að undanförnu hafa orðið miklar umr. um Bessastaðaárvirkjun og raforkumál Austurlands í tengslum við hana. Þessar umr. hófust með því, að tveir starfsmenn Orkustofnunar ríkisins rituðu öllum alþm. bréf þar sem þeir bentu á að hér væri um óhagkvæman kost að ræða til þess að ráða bót á orkumálum Austurlands og aðrir kostir væru vænlegri. Í umr. um þetta mál hefur nokkrum sinnum verið vitnað til samþykktar sem gerð var í des. 1977 af fyrrv. stjórn Rafmagnsveitna ríkisins, en þar mælti sú stjórn Rafmagnsveitna ríkisins með því, að haldið yrði áfram af fullum krafti við undirbúning Bessastaðaárvirkjunar og ráðist yrði í þá framkvæmd. Í tilefni þeirra umr., sem orðið hafa um þessi mál nú síðustu mánuðina, tók ég þetta mál upp í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins og á fundi hinn 14. febr. s. l. var gerð svofelld bókun á fundi stjórn RARIK, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirra umr., sem orðið hafa um Bessastaðaárvirkjun í fjölmiðlum að undanförnu, og af því að Rafmagnsveiturnar mæltu með virkjuninni á sínum tíma samþykkir stjórn Rafmagnsveitnanna að fela starfsmönnum stofnunarinnar að gera nýja úttekt á hagkvæmni hennar miðað við þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi, þ. e. Kröfluvirkjun í rekstri og/eða miðað við lagningu línu Sigalda-Hryggstekkur sunnan jökla. Eins verði tímasetning Bessastaðaárvirkjunar endurskoðuð út frá þessum forsendum. Grg. þessi verði lögð fyrir stjórnarfund.“

Síðan þessi samþykkt varð gerð í stjórn Rafmagns veitna ríkisins hafa starfsmenn stofnunarinnar unnið að nýrri úttekt á þeim kostum sem eru fyrir hendi til þess að leysa orkumál Austurlands á næstu árum. Þeir hafa tekið það ráð að vinna þessa úttekt í samvinnu og samráði við starfsmenn Landsvirkjunar. Þessari úttekt er ekki að fullu lokið, en bráðabirgðaniðurstöður benda samt mjög sterklega til að Bessastaðaárvirkjun sé nú óhagkvæmasti kosturinn sem sé að finna til þess að leysa orkumál Austurlands. Enn er ekki tímabært að fullyrða um þetta, en vísbendingar eru mjög sterkar í þessa átt. Enn fremur hefur Orkustofnun unnið að úttekt á þessu máli sem send hefur verið iðnrn., og í þeirri úttekt hygg ég að niðurstöður lúti mjög í sömu átt. Það kemur sem sé í ljós, að við þessa frumkönnun virðist lína sunnan jökla frá Sigöldu um Hornafjörð, Djúpavog og að Hryggstekk í Skriðdal vera hagkvæmari kostur til þess að leysa orkumál Austurlands nú á næstu árum, auk þess sem það tengist þessum framkvæmdum að stórkostlegur sparnaður verður á dísilvélaorku í Höfn í Hornafirði og á sunnanverðum Austfjörðum, en með hækkun á olíuverðinu, sem nú hefur skollið yfir, og horfum í þeim efnum hafa þessi atriði verulega þýðingu. Einnig er talið að öryggi í orkumálum Austurlands og orkumálum Norðurlands muni vaxa, einkanlega orkumálum Norðurlands, við hringtengingu þá sem hér er um að tefla. Inn í þetta dæmi kemur svo Kröfluvirkjun, sem nú hefur um hríð framleitt nokkuð stöðugt um 8 mw. af raforku. Ef aukning verður á orkuframleiðslu þar, þá er ekki eins brýn þörf á öðrum virkjunarkostum fyrir Austurland sérstaklega, vegna þess hve stutt er frá Kröflu að aðveitustöðinni í Hryggstekk og flutningsgeta milli þessara úttakspunkta raforku á byggðalinunni vex stórkostlega við að orka kemur inn á línuna hjá Kröflu.

Nú er auðvitað Krafla, eins og allir þekkja, þeim annmörkum háð, að menn vita ógjörla hvað þar gerist. En þó virðist sem hin stöðuga orkuframleiðsla, sem þar fer nú fram, gefi bendingar um að tekist hafi að ná betri tökum á bæði borholum og orkuframleiðslu en áður var. Á mánudaginn var flutti hv. 1. þm. Norðurl. e. ræðu um þetta mál og boðaði brtt. við frv. á þá lund að verja 600–660 millj. kr. til borunarframkvæmda við Kröflu og þarf ég ekki að fara út í það frekar. En mér sýnist að slíkar framkvæmdir þurfi að takast til athugunar í sambandi við aðrar leiðir til þess að mæta orkuþörf Austurlands á næstu árum. Rétt er að geta þess í sambandi við það, hvort ráðist skuli nú í frekari boranir við Kröflu eða ekki, að í þessari lánsfjáráætlun er gert ráð fyrir að bora í Bjarnarflagi og flytja bor þangað norður, en mér er tjáð að flutningur borunartækja norður í Bjarnarflag og suður aftur kosti um 40 millj. kr. Þess vegna hlýtur að koma til athugunar í sambandi við þá framkvæmd hvort þá sé ekki rétt að ráðast á borun á einni eða tveimur holum við Kröflu í því skyni að auka þar orkuframleiðslu. Það hefur sem sé komið í ljós, að ef borholur við Kröflu eru fóðraðar niður í hin svokölluðu neðri jarðlög, þá hafa þær haldist óskemmdar, en sé tekin gufa inn í holurnar í efri jarðlögunum, þá hafa þær holur ekki staðist. Þessi nýja vitneskja gefur þarna nokkru meiri líkur um öryggi en áður hefur verið.

Í bráðabirgðaniðurstöðum starfsmanna Rafmagnsveitna ríkisins og starfsmanna Landsvirkjunar er gert ráð fyrir að lína sunnan jökla með tengingu á milli Sigöldu og Hryggstekks geti frestað Bessastaðaárvirkjun til áranna 1986 og 1988, og þrátt fyrir að þá yrði ráðist í Bessastaðaárvirkjun, sem er mjög dýr virkjun miðað við orkueiningu, kemur út verulegur sparnaður. Ef unnt er að fresta Bessastaðaárvirkjun til 1986, þá hljóta að verða uppi spurningar um það, hvort ekki eigi að ráðast í aðrar virkjanir fyrr sem gætu mætt orkuþörf Austurlands um leið og þær fóðruðu landskerfið í heild. Þessar spurningar hljóta að vakna vegna þess að þær kostnaðaráætlanir, sem gerðar hafa verið um Bessastaðaárvirkjun, eru þess eðlis, að sú virkjun virðist 50–60% dýrari á orkueiningu en ýmsir aðrir virkjunarkostir í landinu.

Við þurfum að gæta þess að verja fjármagni til þess að nýta innlenda orkugjafa. Þetta höfum við vitað undanfarin ár. Ný verðhækkunaralda á olíu hvetur okkur til þess að draga ekki úr á þessum vettvangi, bæði á sviði varmaveitna og raforkuframkvæmda, en við þurfum jafnframt að gæta þess að verja því fjármagni, sem til þessara hluta verður varið, skynsamlega. Orkuframkvæmdir eru ákaflega dýrar. Þær kosta gífurlegt fjármagn. En þær eru nauðsynlegar til þess að við getum hagnýtt okkar innlendu orkugjafa og séum ekki háðir þeim ósköpum sem kunna að verða á olíumörkuðum heimsins, hvað þá þegar að því kemur að olían fer þverrandi, sem spáð er að gerist innan mjög langs tíma. En það er alveg nauðsynlegt að við nýtum þetta mikla fjármagn af hyggindum og framsýni. Þar þurfum við auðvitað að mæta þörfum allra landshluta, en við eigum þá jafnframt að hafa hagsmuni landsins alls eða allrar þjóðarinnar í huga og haga framkvæmdum í samræmi við það.

Ég taldi skylt að geta hér um þá athugun, sem er í gangi í þessum efnum, og þær horfur, sem eru á hverjar niðurstöðurnar verði, vegna þess að það kann að verða um algera breytingu að ræða á afstöðu Rafmagnsveitna ríkisins til þessa máls. En eins og ég hef áður sagt mælti fyrrv. stjórn RARIK með því að ráðist yrði í Bessastaðaárvirkjun og hraðað undirbúningi þess mannvirkis.

Ég sagði áðan að Bessastaðaárvirkjun væri kannske 50–60% dýrari heldur en ýmsir aðrir virkjunarkostir. Ég er ekki með nýjar tölur um þessi efni, en tölur, sem ég man eftir frá sept. 1977 bentu til þessa. Þá var t. d. Blanda á 2.90–3 kr. kwst., en Bessastaðaárvirkjun milli 4.50 og 4.60 kr. kwst., ef virkjunin var þar tekin í heild, en fyrri áfangi mun dýrari. Þá var t. d. smávirkjun, um 30 mw. virkjun við Villinganes í Skagafirði, talin kosta 4 kr. á kwst. eða verulega lægra en Bessastaðaárvirkjun, og flestar stærri virkjanir voru þarna mun hagkvæmari.

Nú er það svo, að á Austurlandi eru einhverjir mestu virkjunarkostir okkar Íslendinga. Ég hef nýlega fengið í hendur skýrslu um það dæmi í heild eins og það liggur fyrir miðað við þær frumáætlanir sem gerðar hafa verið. Þar kemur fram að virkjanlegt vatnsafl á Austurlandi eða virkjanleg orka er hvorki meira né minna en 10 300 gwst. á ári. Ýmsir þeir kostir, sem þar er um að tefla, eru mjög miklu ódýrari en Bessastaðaárvirkjun. Og ef það kemur í ljós, að við getum frestað þessari virkjun með aukinni hagkvæmni, jafnmiklu eða meira öryggi en aðrar leiðir til þess að mæta orkuþörf Austurlandsveitna, þá er að mínum dómi rétt að staldra við og hugleiða þær leiðir í fullri alvöru, því að eins og ég hef þegar sagt, allar framkvæmdir í þessum efnum kosta gífurlegt fjármagn og það mikla fjármagn, sem við verjum til þeirra mála, þurfum við að nota af hyggindum og hagsýni. Bruðl á þessum vettvangi sem gert er kannske með ónógar upplýsingar að grundvelli, er ákaflega misráðið og skaðlegt.

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þessi sérstöku mál frekar. Ég taldi mér skylt að benda hér á þessi efni er varða Bessastaðaárvirkjun. Væntanlega liggur sú úttekt, sem ég hef gert hér að umtalsefni, fyrir að fullu áður en þetta frv. verður afgreitt. Ég hef einnig í þessari ræðu minni, sem er slitin í tvennt, mótmælt harkalega þeim brigðum sem orðið hafa á fyrirheitum iðnrh. að því er snertir Rafmagnsveitur ríkisins og verða til þess, ef ekki verður úr þeim brigðmælum bætt, að ójöfnuður í þjóðfélaginu fer vaxandi, og það kemur harkalega niður á því fólki sem kaupir orku frá RARIK. Almenna umr. um lánsfjáráætlunina ætla ég ekki frekar út í að þessu sinni og get þess vegna látið máli mínu lokið.