31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

21. mál, aðbúnaður og hollustuhættir á vinnustöðum

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur orðið æ tíðara að stjórnvöld gerðust beinn eða óbeinn aðili að gerð kjarasamninga. Hefur þáttur ríkisins einkum verið í því fólginn að fallast á að gera ýmsar félagslegar úrbætur til handa launafólki. Verkalýðssamtökin hafa og í sívaxandi mæli gert kröfur til stjórnvalda: kröfur um úrbætur í húsnæðismálum, tryggingamálum, lífeyrismálum dagvistunarmálum og um stuðning ríkisins við umbætur í aðbúnaðar- og öryggismálum. Verkalýðshreyfingin hefur haldið því fram, að félagslegar umbætur væru jafnmikilvægar og kauphækkanir. Því hefur kauphækkun hvað eftir annað þokað fyrir loforðum stjórnvalda um þessa málaflokka.

Fyrirheit ríkisstj. hafa hins vegar oft reynst haldlítil, eins og sjá má af því, að árið 1974 var því lýst yfir af hálfu ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að á árunum 1976–1980 yrðu byggðar íbúðir fyrir efnalitið fólk í stéttarfélögum innan Alþýðusambands Íslands og hliðstæðra samtaka um land allt. Skyldi að því stefnt, að eigi minna en þriðjungur af áætlaðri íbúðaþörf landsmanna á umræddu tímabili yrði leystur á þennan hátt, með byggingu verkamannabústaða, söluíbúða og leiguíbúða á vegum sveitarfélaga eða sérstakra samtaka á vegum verkalýðsfélaga. Í yfirlýsingunni var gert ráð fyrir að launaskattur yrði hækkaður um 1% og skyldi sú hækkun renna óskipt í Byggingarsjóð ríkisins. Jafnframt var reiknað með að þátttaka lífeyrissjóða stéttarfélaga í fjármögnun fyrrnefndra félagslegra bygginga yrði 20% af árlegu ráðstöfunarfé þeirra í formi kaupa á verðtryggðum skuldabréfum. Við þessi fyrirheit stóð verkalýðshreyfingin og vel það. Ekkert varð hins vegar úr því, að ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar framkvæmdi sín loforð, enda hrökklaðist hún frá völdum skömmu síðar.

Þessu næst staðfesti félmrh. stjórnar Geirs Hallgrímssonar í bréfi frá 26. febr. 1976, að staðið yrði við áðurgreinda yfirlýsingu. Í framhaldi af því var skipuð nefnd er ekkert gerði. Þá var það í sólstöðusamningunum í fyrra, að enn var þess krafist að staðið yrði við fyrri yfirlýsingar. Ný yfirlýsing var gefin og ný nefnd var skipuð. Sú nefnd átti að ljúka störfum fyrir síðustu áramót, þannig að frv. að breyttri löggjöf yrði lagt fyrir Alþ. Mér vitanlega hefur nefndin ekki lokið störfum. Ekki tókst því ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar að standa við fyrirheit sín í þessum málum þótt endurtekin væru.

Þá hefur verkalýðshreyfingin lagt mikla áherslu á aðgerðir er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Við gerð sólstöðusamninganna gaf ríkisstj. fyrirheit um að stefnt skyldi að því að ný lög um þessi mál tækju gildi eigi síðar en í ársbyrjun 1979. Þá var því lýst yfir, að í næsta mánuði yrði gerð sérstök athugun á aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum. Athugun þessi átti að ná til ákveðins og takmarkaðs fjölda vinnustaða, gerð í því skyni að knýja á um úrbætur á aðbúnaði og öryggi á vinnustöðum. Stefnt skyldi að allsherjareftirliti í öryggismálum og vinnuvernd á öllum vinnustöðum. Mér er kunnugt um nefndarskipun í þessi mál. Hins vegar mun Heilbrigðiseftirlit ríkisins og Öryggiseftirlitið hafa farið fram á sérstaka fjárveitingu í því skyni að geta sinnt þessu verkefni. Þessum óskum var neitað af þeirri sömu ríkisstj. er fyrirheitin hafði gefið. Sú athugun á vinnustöðum hafði ekki hafist er fyrrv. ríkisstj. fór frá. Það er því ljóst, að fyrrv. ríkisstj. mat það lítils að standa við gefin fyrirheit. Því er það, að ég hef leyft mér að bera fram eftirfarandi fsp., sem ég tes hér upp, með leyfiforseta:

„Hefur ríkisstj. í hyggju að efna þau fyrirheit sem fyrrv. ríkisstj. gaf verkalýðssamtökunum við gerð kjarasamninganna er undirritaðir voru 22. júní 1977 um húsnæðismál og um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum?“