09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

165. mál, fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu með brtt. minni, sem ég flyt á þskj. 347, við till. þessa til þál. um staðfestingu á niðurstöðu viðræðna um gagnkvæmar fiskveiðiheimildir Íslendinga og Færeyinga.

Ég vil taka undir aths. frá hv. þm. Einari Ágústssyni hér á dögunum vegna þess hversu dregist hefur að greiða málið úr Sþ. Eins og hann upplýsti í ræðu sinni munu Færeyingar þegar hafa veitt svo til alla þá loðnu sem ráðgert er í þessari þáltill. að leyfa þeim að veiða hér við land, og eftir því sem mér var sagt í gær munu þeir vera búnir að bræða a. m. k. 3/4 hluta þessarar loðnu. Ef galli nokkur er á máli þessu, að brtt. meðtalinni, hygg ég hann vera einna helst þann, að svo rækilega eru hendur alþm. bundnar í málinu, þar sem ég sé á því hina stærstu annmarka að Alþ. geri Færeyingum að skila aftur þeirri loðnu sem svo rækilega hefur nú þegar verið deydd.

Ég greindi frá því hið fyrra sinnið þegar þáltill. um fiskveiðiheimildir Færeyinga var til umr. hér, að ég treysti mér ekki til þess að greiða atkv. gegn till., og tíndi til ýmsar ástæður. Flestar hverjar eru þær þó tilfinningalegs eðlis. Enn síður mundi ég treysta mér til þess að greiða atkv. gegn till. nú, eftir að Færeyingar hafa í góðu trausti á orð háttsettra viðmælenda sinna hér í Reykjavík tekið sig til og veitt þetta magn af fiski — efalaust vissir um að Alþ. mundi staðfesta þessa gjörð. Ég er aftur á móti þeirrar skoðunar, að nú sé svo komið að við verðum að taka til eigin nota botnfiskstofnana sem við höfum leyft Belgíumönnum, Norðmönnum og Færeyingum að veiða úr hér við land, á landgrunninu okkar. Það er ljóst mál að við þurfum nú þegar að halda í við sjálfa okkur við veiðarnar og að við höfum ekki efni á því að leyfa útlendingum samtímis veiði á íslenskum botnfiskum. Þegar ég segi að við „höfum ekki efni á“, þá væri kannske réttara að orða það þannig, að Alþ. hefði vafasama heimild til þess að leyfa útlendingum veiðar á þessum fisktegundum hér við land samtímis því sem okkar eigin fiskimönnum verður boðið í land nokkrar vikur á sumri komanda og efalaust að starfsfólki í frystihúsunum verði gefið frí um það leyti, þó e. t. v. kunni sums staðar að verða reynt að haga því svo til að það leyfi, sem stafar af hráefnisskorti, komi þá heim og saman við tíma sem nýta mætti til sumarleyfa.

Ég gerði það að yfirveguðu ráði að orða svo brtt. að hún hlyti að skilyrða hina fyrri þáltill., vil aðeins biðja ónafngreinda alþm. afsökunar á því, að mál þetta bar svo brátt að við fyrri umr. um þáltill. að mér gafst ekki tóm til, þó ég vissi að fleiri vildu gjarnan vera meðflm. að þessari till., að sækja nöfnin þeirra á brtt.