09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2448)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þetta verður aðeins örstutt aths. í tilefni af því sem fram hefur komið fyrr í umr. um þetta mál.

Hv. 4. landsk. þm., flm. þessarar till., lét í ljós þá skoðun sína að ég ruglaði saman tveimur atriðum, annars vegar því, þegar þn. íhugi að taka sjálf frumkvæðið um rannsókn tiltekinna mála, hins vegar því, að Alþ. samþykkti að fela utanrmn. að láta gera eitt eða annað. „Hér er um tvennt skylt, en ólíkt að ræða, sem ég held að sé ekki rétt að rugla saman,“ sagði hv. þm. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta.

Það má vafalaust hafa ýmsar skoðanir á þessu. Ég held þó að ég hafi ekki ruglað neinu saman í þessu sambandi. Ég vísa til þess sem um utanrmn. Alþingis segir í þingsköpum. Ég vona að ég finni þetta von bráðar, herra forseti, þannig að ég þurfi ekki að tefja fundinn of lengi. — þar segir, eins og þm. er að sjálfsögðu kunnugt um, að til utanrmn. skuli vísað utanríkismálum. Utanrmn. starfar einnig milli þinga og er ríkisstj. til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál, enda skal ríkisstj. ávallt bera undir hana slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.

Ég tel ekki að í þessu ákvæði þingskapa felist heimild eða skylda n. til þess að gerast rannsóknaraðili, jafnvel þótt Alþ. kunni að ákveða svo. Þetta skal ég viðurkenna að er umdeilt mál og má hver hafa sína skoðun á því, og hefur raunar verið nokkuð athugað á vegum Alþ. af öðru tilefni. En í fyrsta lagi vil ég með vísun til þessarar greinar nokkuð draga í efa að olíumengun á Suðurnesjum sé meiri háttar utanríkismál, og í öðru lagi vil ég enn fremur draga það í efa að utanrmn. sé skylt að gerast rannsóknaraðili. Ég vil m. a. s. draga í efa að n. sé það heimilt. En að sjálfsögðu mun n. taka þetta mál til yfirvegunar svo og önnur svipaðs eðlis sem til hennar hefur verið vísað, og ég vil á þessu stigi ekki fella neinn hæstaréttardóm um að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson hafi farið með rangt mál. g vil aðeins segja það sem mína skoðun, að ég er ekki að byggja málflutning minn á neinum misskilningi. Ég byggi málflutning minn á þeim skilningi sem ég hef á þessu tiltekna ákvæði þingskapa.

Meira var það raunar ekki sem ég taldi mig þurfa að segja við þessa umr. og sér í lagi vegna þess að ég sé að hv. þm. Jónas Árnason, 4. þm. Vesturl., er ekki í salnum. Hann benti mér af sinni alkunnu góðvild á að umrætt svæði, sem till. fjallaði um, héti Suðurnes, en ekki Keflavíkurflugvallarsvæði. Ég er fús til þess að taka þá aths. til greina, einkum ef það er skilningur þeirra, sem till. flytja og hana styðja, að það sé um aðra olíumengun að ræða á Suðurnesjum en þá sem frá hernum stafar.