09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

82. mál, útflutningsstarfsemi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 90 till. til þál. um samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi, ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera úttekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslunar landsmanna og leita leiða til þess að efla og samræma útflutningsstarfsemi fyrir íslenskar framleiðsluvörur og þjónustu. Um úttekt þessa, samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi skal hafa samráð við þá aðila sem nú annast útflutning og markaðsstarfsemi.

Í þessu sambandi skal áhersla lögð á eftirfarandi:

1. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að koma á fót samstarfi allra aðila, sem vinna að útflutningsstarfsemi, m. a. í því skyni að stuðla að á skipulegan hátt almennri kynningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis og þjálfun starfsfólks, sem vinna mun að hvers konar útflutningsstarfsemi;

2. að marka enn frekar þá stefnu í skatta- og tollamálum, svo og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum;

3. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að samræma eða sameina starf utanrrn. og viðskrn. á sviði útflutningsstarfsemi og efla starf utanríkisþjónustunnar í markaðsmálum.“

Till. þessi var flutt á tveimur síðustu þingum. Á fyrra þinginu fékk hún ekki afgreiðslu, en á síðasta þingi var henni að tillögu þáv. utanrmn. vísað til ríkisstj. án formlegs samþykkis Alþingis. Þetta urðu okkur flm. vonbrigði. Við viljum því freista þess að flytja till. á ný. Hún hlaut mjög góðar undirtektir þáv. utanrrh. og þeirra, sem fjölluðu um þessa till. hér á hv. Alþ., enda er till. fyrst og fremst um að gera ákveðna hluti í fullu samráði við þá, sem annast útflutningsstarfsemi, og miklu frekar um að kanna þetta mál en að hér sé Alþ. að setja einhverjar ákveðnar leikreglur fram í þessu efni.

Það er svo, að ég flutti á tveimur síðustu þingum mjög ítarlega ræðu um þessa till. og tel ekki ástæðu til, herra forseti, að fjalla ítarlega um hana í þriðja sinn, en vil þó leggja áherslu á nokkur atriði.

Hér á landi eru fjölmargir aðilar sem annast útflutningsstarfsemi. Ýmsir þessara aðila hafa náð góðum árangri, og er rétt að það komi skýrt fram að þessari tillögugerð er ekki ætlað að skerða á neinn hátt sjálfstæði þeirra, heldur þvert á móti að treysta og efla starfsemi þeirra, sem fyrir eru á þessu sviði. Meginatriði till. er að koma á samvinnu þessara aðila, þannig að það sé til einn samnefnari fyrir íslenska útflytjendur sem geti kynnt íslenska útflutningsvöru sem gæðavöru hvarvetna á útflutningsmörkuðum okkar. Það er svo nú, að það er einungis nefnd, sem starfar á vegum viðskrn., sem sér um vörusýningar erlendis, en hefur mjög lítil fjárráð, sem getur komið fram sem samnefnari fyrir íslenska útflytjendur. Því miður hefur starf hennar fyrst og fremst verið í því fólgið að styrkja með nokkrum smáupphæðum vörusýningar erlendis.

Í nágrannalöndum okkar hefur það gerst á síðustu árum, að viðkomandi stjórnvöld hafa aflað og lagt fram geysilega miklar fjárfúlgur til eflingar útflutningsstarfsemi. Því miður hefur lítið sem ekkert þokast í þessa átt hjá okkur. Ástæðan fyrir því, að ríkisstjórnir í nágrannalöndunum, t. d. á Norðurlöndum, leggja svo mikla áherslu á þetta og leggja svo mikið fé fram í þessu skyni er sú, að þegar samkeppni hefur harðnað vegna tollalækkana og vegna þess að höft eru lögð niður hafa menn gripið til ýmissa ráða í samkeppninni. Eitt af því, sem best hefur reynst, er einmitt efling útflutningsstarfsemi. Með þessari till. eru fskj., þar sem lýst er í stuttu máli tilhögun þessarar starfsemi á Norðurlöndum, og þar er bent á hversu mikið átak hefur verið gert í þessum efnum í þessum löndum.

Ég held sem sagt að hér sé á ferðinni mjög brýnt og veigamikið mál. Við vitum að Íslendingar eru mjög háðir utanríkisverslun. Við verjum sennilega um 40% af þjóðartekjum okkar til þess að kaupa vörur erlendis og verðum að sjálfsögðu að flytja vörur út í staðinn til þess að ná jöfnuði í viðskiptum okkar. Þess vegna er þetta mál e. t. v. enn þá brýnna fyrir okkur Íslendinga en aðrar þjóðir og sárt til þess að vita hversu skammt hefur þokast á þessum sviðum hjá okkur síðustu árin og áratugina.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þessa till. að sinni, herra forseti, en ég legg til að henni verði vísað enn til utanrmn. Ég vænti þess að utanrmn., sem hefur áreiðanlega í fórum sínum umsagnir um þessa till., sjái sér fært að afgreiða hana fljótt og vel þannig að Alþ. geti tekið efnislega afstöðu til hennar.