09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2456)

66. mál, hámarkslaun

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þeirrar till., sem hér er til umr. í dag um hámarkslaun, og vildi gjarnan leggja fáein orð í belg till. til stuðnings.

Meginefni hennar er það, að ríkisstj. verði falið að undirbúa löggjöf sem innifeli að hámarkslaun í landinu skuli ekki fara fram úr tvöföldum verkamannalaunum á hverjum tíma miðað við dagvinnu. Það er ákaflega athyglisvert og segir líklega nokkra sögu, að hv. 5. landsk. þm., sem talaði næst á undan mér, lét þau orð falla að samþykkt till. sem þessarar mundi brjóta í bág við siðgæðisvitund manna og þar af leiðandi væri jafnvel eðlilegt að slík lög, ef sett yrðu, væru að engu höfð. Það er ákaflega breytilegt, hvaða siðgæðishugmyndir menn ata með sér. Þær eru ólíkar. Ég hygg að þeir séu enn þá ærið margir í þessu landi sem telja, þveröfugt við skoðun hv. 5. landsk. þm., Friðriks Sophussonar, að það sé í rauninni siðlaust að greiða mönnum í kaup þreföld eða fjórföld verkamannalaun, að það sé siðleysi, en ekki hitt, að setja um það lög að einhver takmörk skuli vera fyrir launamismuninum í landinu.

Hv. þm. Friðrik Sophusson hafði orð á því, að löggjafinn ætti ekki að vera að skipta sér af því hvað greitt væri í laun. Það er vissulega rétt, að hjá verkalýðsfélögunum er sú krafa uppi að þau fái að halda frjálsum samningsrétti. Ég tel að sú krafa sé réttmæt og sjálfsögð. En þessi till. snertir ekki þann rétt. Það eru allt aðrir aðilar og launakjör þeirra sem verið er að fjalla um — þá sem nú bera úr býtum fyrir dagvinnu eina mun meira en svarar tvöföldum verkamannalaunum.

Ég vil segja fáein orð í tilefni af þessum ummælum hv. þm. Friðriks Sophussonar og líka í tilefni af orðum hans þegar hann minnti á að við Alþb.-menn hefðum á síðasta ári haldið uppi kröfunni um kjarasamningana í gildi. Hvað hafði þá verið að gerast í þessum efnum? Var virðing hv, þm. Sjálfstfl. fyrir hinum frjálsa samningsrétti verkalýðsfélaganna í landinu mjög áberandi þegar sett voru febrúarlögin á Alþ. í fyrra? Nei, það vantaði víst ærið mikið á að svo væri. Þá var verið að setja lög sem skertu mjög alvarlega lífskjör láglaunafólksins og hins almenna launafólks í landinu. Og þá varð ekki vart við neinn í hópi þm. Sjálfstfl. sem teldi ástæðu til að hafa orð á því að kjarasamningar, sem gerðir hefðu verið á milli aðila vinnumarkaðarins, frjálsir kjarasamningar, ættu að standa, þvert á móti.

En þegar hv. þm. Sjálfstfl. eru að minna okkur í Alþb. á kröfu okkar um kjarasamningana í gildi, sem við settum fram fyrir kosningar, og vilja halda því fram, að ef við látum okkur detta í hug að setja einhver takmörk á hæstu laun séum við að ganga gegn þessari okkar eigin kröfu, þá er þarna um að ræða málflutning sem á enga stoð í veruleikanum, vegna þess að við í Alþb. lítum á okkur, bæði nú og áður, sem talsmenn verkafólksins í landinu, talsmenn almenns launafólks í landinu, og þegar við gerum kröfur um að kjarasamningar fái að standa erum við að tala um kjarasamninga þess fólks. Við erum að sjálfsögðu ekki að tala um kjarasamninga hálaunahópanna í landinu: flugmanna, ráðuneytisstjóra, bankastjóra, lækna, hæstaréttardómara eða annarra slíkra. Ef við gerum kröfu um kjarasamningana í gildi er sú krafa miðuð við hið almenna launafólk. Og það hefur ekkert breyst í þeim efnum af okkar hálfu, þó að ártalið sé nú 1979, frá því sem var árið 1978.

Ég vil einnig minnast lítillega á það, sem gerst hefur síðustu daga í sambandi við þróun launamála og þá ekki síst þróun launabils í þjóðfélaginu, þar sem eru niðurstöður Kjaradóms fyrir nokkrum dögum. Með því launaþaki sem hæstv. núv. ríkisstj. setti á s. l. hausti, var mælt svo fyrir, að allir þeir, sem hefðu þá í laun það sem nú samsvarar að kaupmætti fyrir dagvinnu eina rétt um 300 þús. kr. á mánuði miðað við marslaun nú, skyldu fá fullar vísitölubætur á laun sín. Ég leyfi mér að halda því fram, að allur meginþorri almenns launafólks í landinu sé með laun innan við þetta mark fyrir dagvinnuna eina. Það má heita að svo sé um alla félagsmenn í verkalýðsfélögunum innan Alþýðusambands Íslands, sem eru langsamlega fjölmennustu samtök launafólks í landinu, og það er einnig svo um a. m. k. milli 80–90% af félagsmönnum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem eru næstfjölmennustu samtök launafólks í landinu, og þetta fólk allt hefur undanfarið hálft ár fengið verðbætur á laun að fullu. Samkv. þeirri ákvörðun, sem tekin var við upphaf núv. ríkisstj., var líka mælt fyrir um að þeir, sem hafa hærri dagvinnulaun, ekki 300 þús. kr, eða lægri, heldur t, d. 500 þús. kr. eða máske 1 millj. í dagvinnulaun á mánuði, skyldu ekki fá fullar verðbætur, heldur aðeins sömu krónutölu og þeir, sem hefðu 300 þús. kr. fyrir dagvinnu á mánuði. Þetta var rétt og sjálfsögð ákvörðun að mínu viti. En nú hefur það gerst, að Kjaradómur, meiri hluti hans, 3 menn af 5, hefur svipt þessu þaki af og kveðið á um að þeir, sem hafa t. d. millj. kr. í mánaðarlaun fyrir dagvinnutíma, skuli ef verðlagið í landinu hækkar um svo sem 10% á einhverju tímabili, fá 100 þús. kr. í verðbætur á laun á sama tíma og þeir, sem hafa 200 þús. kr. í mánaðarlaun fyrir dagvinnu, fái aðeins 20 þús. í verðbætur.

Ég vil einnig minna á annað. Hv. 5. landsk. þm., Friðrík Sophusson, segir að till. okkar um hámarkslaun, sem nemi eigi meira en tvöföldum verkamannalaunum, sé ekki langt frá því að samsvara því ástandi sem ríki nú í þessum efnum, að það sé í raun og veru ekki um öllu meiri launamun að ræða í landinu. Þetta var ein af þeim fjarstæðum sem hv. þm. hélt fram. Ég vil t. d. minna á að enda þótt laun lægst launaða fólksins í landinu séu enn innan við 200 þús. kr. á mánuði stendur einmitt yfir kjaradeila þessa daga og hefur staðið yfir undanfarnar vikur þar sem flugmenn, hópur manna sem hafa í laun frá því um 1/2 millj. kr., þeir sem eru algjörir byrjendur í starfi, og upp í rösklega 1 millj. á mánuði, gera launakröfur um nokkra hækkun á launum. Það er vitað að stjórnendur Flugleiða gætu kannske hugsað sér að koma þarna nokkuð til móts, ef slíkt kallaði ekki á nýjar launakröfur annars hóps með enn hærri laun, enda er krafan hjá viðkomandi flugmannahópi sett fram sem jafnréttiskrafa. Hvernig skyldi nú standa á því? Ósköp einfaldlega þannig, að um er að ræða enn annan hóp flugmanna, sem hefur enn þá hærri mánaðarlaun en þessu svarar. Og þeir, sem nú eiga í launabaráttu í flugmannahópnum og hafa hálfa til heila millj. í mánaðarlaun, réttlæta kröfur sínar með því að þarna séu aðrir við sambærileg störf enn þá hærri í launum. Svo talar hv. þm. um að það sé í raun og veru engin ástæða til að flytja till. af þessu tagí vegna þess að efni hennar sé í raun og veru í gildi nú þegar.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég koma því á framfæri, sem var kannske aðalefni þess sem ég hafði hugsað mér að segja við þessa umr. Hvort sem tekur lengri eða skemmri tíma að fá þessa þáltill. samþ. og hvernig sem það kann að ganga, verði hún samþ., að fylgja henni fram í reynd, — ég er við því búinn að það geti kostað ýmsa erfiðleika, — tel ég fulla ástæðu til þess samt að till. verði samþ. En hvað sem því líður er ástæða til þess nú, enda þótt enginn hæstv. ráðh. sé reyndar hér í salnum — af skiljanlegum ástæðum eru þeir fjarverandi — að orða það héðan úr þessum ræðustól á hinu háa Alþingi, sem er skoðun mín og í raun skýlaus krafa mín, að áður en hæstv. ríkisstj. leyfir sér að koma til verkalýðshreyfingarinnar í landinu og fara fram á meiri eða minni eftirgjöf af hennar hálfu hvað varðar greiðslur verðbóta á laun það sem eftir er af þessu ári, áður en slík spor verði stigin verði byrjað á því að lögleiða á ný launaþak af svipuðu tagi og hér hefur verið í gildi undanfarið hálft ár, þangað til að það var afnumið af Kjaradómi fyrir fáum dögum. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé alger frumforsenda þess að ríkisstj. geti leyft sér að biðja láglaunafólkið í landinu um eitt eða neitt í þessum efnum, að komið sá fyrst að því hálaunafólki og hæst launaða fólki í landinu, sem fékk stórkostlegar kjarabætur með afnámi launaþaksins fyrir fáum dögum. Ég tel reyndar að það sé ákaflega slæmt ef kjaradómurinn, — ég sé að hv. 7. þm. Reykv. er kominn í salinn og hann hefur kennt okkur að nota ýmis ágæt orð, m. a. orðið „kerfiskarlar“, sem ég hygg að sé frá honum komið, og ég vil leyfa mér að taka mér það í munn, — sá úrskurður, sem þessir þrír hallærislegu kerfiskarlar, eins og hv. 7. þm. Reykv. mundi orða það, — ef þessir þrír menn í Kjaradómi eiga að ráða og ef úrskurður þeirra á að standa, þá ætti ríkisstj. í fyrsta lagi ekki að orða nokkra beiðni við láglaunafólkið í landinu um skerðingu á verðbótum.

Það, sem ég vil segja til viðbótar, er að það er mjög slæmt að þessir þrír hallærislegu kerfiskarlar skuli geta vitnað til þess, að sjálfur forsrh. landsins, Ólafur Jóhannesson, hafi í frv. sínu, sem að vísu hefur aldrei verið lagt fram á Alþ., en hins vegar lagt fram í ríkisstj. og birt í fjölmiðlum, geri till. um að vísitöluþakið verði afnumið. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta öllu frekar, en von mín er sú, að ef ríkisstj. lifir af næstu viku, þó ekki væri nema fram að dánardægri Sesars 15. mars, muni hún fyrr ganga til þess verks að setja vísitöluþak á laun á nýjan leik en hún gengur til hins verksins, að fara hvort heldur sem er bónarveg eða lögskipanaveg í átt til skerðingar verðbóta launa láglaunafólksins og hins almenna launafólks í landinu.