09.03.1979
Sameinað þing: 65. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3168 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

85. mál, umboðsmaður Alþingis

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á yfirstandandi þingi hafa verið fluttar allmargar till. um skipun rannsóknarnefnda sem eiga að hafa það verkefni að taka til athugunar einstök verkefni, fyrirtæki eða stjórnsýslu, sem flm. telja að rannsaka þurfi vegna þess að réttur almennings sé fyrir borð borinn. Engan dóm skal leggja á tilgang eða réttmæti þessara till., en vegna þeirra hafa skapast miklar umr. innan þings sem utan um hlutverk slíkra rannsóknarnefnda og afstöðu Alþ. í þessu tilliti.

Nú fer ekki milli mála að það er hlutverk Alþ. að taka til rannsóknar mikilvæg mál sem almenning varða, enda reyndar beinlínis gert ráð fyrir því í stjórnarskrá lýðveldisins. Það er hins vegar athyglisvert, hversu sárasjaldan þingið hefur notfært sér þennan rétt. Að mínu mati eru skýringarnar einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi hafa till. um skipan rannsóknarnefnda oftast verið af pólitískum toga spunnar og bornar fram af stjórnarandstöðu til að koma höggi á ráðh. eða ríkisstj. Þær hefur því oftast dagað uppi eða verið beinlínis felldar. Í öðru lagi stafar að mínu mati tregða þingsins á að samþykkja slíkar till. af því, að yfirgnæfandi skoðun þm. hefur a. m. k. til skamms tíma verið sú, að það væri fremur hlutverk dómstóla að annast slíkar rannsóknir sem sprottnar væru af ásökunum eða grun um saknæmt atferli eða misbeitingu valds. Þannig held ég að mjög skýrt hafi komið fram skilningur Alþ. og alþm. á þeirri þrískiptingu sem stjórnarskráin og stjórnarfar okkar byggist á.

Hins vegar er það svo, að í seinni tíð hefur orðið æ ljósara að með aukinni stjórnsýslu og viðameira framkvæmdavaldi þyrfti að tryggja betur en áður að réttur væri ekki brotinn á einstaklingum og rangindum ekki beitt í stjórnsýslu. Þá er átt við að slíkur réttur sé brotinn eða rangindum beitt án þess að um bein lögbrot sé að ræða. Þess vegna hefur í vaxandi mæli verið talað um að einhverju eftirliti þyrfti að beita til þess að koma í veg fyrir slíkt athæfi.

Flestir eru sammála um að það sé afar erfitt fyrir Alþ. að taka sér slíkt eftirlitshlutverk. Á þessu þingi hefur verið flutt till., sem lýtur að þessu, og mér er kunnugt um að ein n. hefur í störfum sínum í vetur haft uppi hugmyndir um það og stefnt að því að taka að sér rannsóknarhlutverk í einu tilteknu máli. Á því hafa verið nokkrir erfiðleikar að hrinda þessu af stað og framkvæma þá rannsókn eins og til var stofnað og komið í ljós hjá fræðimönnum og hjá þeim, sem best þekkja til, að verksvið hinna reglulegu nefnda Alþingis nái ekki að fullu leyti til þessa verkefnis. Enn fremur hafa skiptar skoðanir manna á þingi og annars staðar um það, hvernig sú rannsókn skuli fara fram, valdið því, að málið hefur nokkuð þvælst fyrir þessari n. og afgreiðslu á því máli sem hér um ræðir.

Skipun sérstakra rannsóknarnefnda getur verið háð margvíslegum tilviljunum og jafnvel pólitískum valdahlutföllum á þingi. Það er engin sérstök trygging fyrir því, að réttmætar till. séu samþ., en jafnmiklar líkur á því, að óraunhæf og tilefnislaus mál verði samþ. til slíkra rannsókna. Það getur því verið erfitt fyrir alþm., ef þessi regla yrði tekin upp í ríkari mæli en verið hefur, að meta hvenær á að skipa rannsóknarnefnd og hvenær ekki, hvaða hlutverki hún raunverulega eigi að gegna, hvort hún eigi að kveða upp dóma eða þá að safna upplýsingum án þess að draga nokkrar ályktanir af þeim upplýsingum. Þá er aftur komið að því, til hvers er af stað farið ef niðurstaðan verður engin önnur en eingöngu upplýsingaöflun. Það yrði auðvitað mjög rík hætta á því, að slíkar rannsóknir drægjust inn í flokkspólitískar deilur, þannig að alþm., hvort sem þeir sitja í n. eða hér á þingi almennt talað, taki afstöðu til till. með hliðsjón af almennum stjórnmálaskoðunum sínum.

Síðast en ekki síst hefur verið vakin athygli á því og bent á það, að eins og starfsaðstöðu þingsins sé háttað nú og tíma þm. varið séu afar litlir möguleikar til þess fyrir Alþ. að taka að sér slíkar rannsóknir og sökkva sér niður í svo umfangsmikið mál sem slík hlutlaus ítarleg rannsókn hlýtur að vera.

Jafnframt því sem fallist er á, að einhvern veginn þurfi að koma til móts við hagsmuni einstaklinga og borgara, gefa þeim tækifæri til að leita réttar síns og tryggja að ekki sé gengið á réttindi þeirra og þeir rangindum beittir, hafa menn leitað leiða til þess að ná fram þeim markmiðum og tryggja rétt þennan.

Á þessum áratug hafa tíðum verið lagðar fram till. og jafnvel frv. um að setja á stofn sérstakt embætti umboðsmanns Alþingis. Þessari hugmynd var m. a. hreyft á þinginu 1970–1971 af hv. þm. Pétri Sigurðssyni, en efnislega var sú till. lík þeirri till. til þál. sem hv. þáv. varaþm., Kristján Thorlacius, hafði flutt ásamt fleiri þm. á þinginu 1966–1967. En ég nefni till. Péturs Sigurðssonar vegna þess að sú till. var samþ. sem þál. 19. maí 1972 og í framhaldi af þeirri samþykkt var lagt fram stjfrv. á þinginu 1972–1973 um umboðsmann Alþingis, en það frv. dagaði uppi.

Aftur var lagt fram frv. sama efnis af hv. þm. Benedikt Gröndal á Alþingi 1976–1977, og enn dagaði það frv. uppi.

Á árinu 1973 var lagt fram frv. af ríkisstj. um umboðsmann Alþingis. Það frv. var samið af Sigurði Gizurarsyni lögfræðingi og var með því frv. mjög ítarleg og fróðleg grg.

Við flm. þessarar till., sem nú er til umr., erum í öllum meginatriðum samþykkir því frv. sem Sigurður Gizurarson samdi og lagt var fram árið 1973. Við teljum að nú sé tímabært að leggja slíkt frv. fram aftur og reyna að knýja á um að það verði að lögum. Við teljum að sú aðferð sé heppilegust til að ná fram því, sem ég hef verið að fjalla um, að tryggja rétt einstaklinga og gefa ákveðnum embættismanni umboð til þess að taka til meðferðar mál sem einstaklingar eða samtök bera upp við Alþ. eða þennan embættismann, þannig að hann geti gengið úr skugga um hvort ásakanir, sem fram eru bornar, eigi við rök að styðjast. Við erum þeirrar skoðunar, að með þessari aðferð sé gengið til móts við þau sjónarmið, sem eiga nokkurn rétt á sér, að Alþ. hafi frekara eftirlit með framkvæmd laga en nú er, enda starfar þá umboðsmaðurinn í umboði Alþingis. Hann nefnist umboðsmaður Alþingis.

Þau mál, sem borin eru undir umboðsmanninn, ættu að fá skjótari meðferð en slík mál fengju ef þau væru til rannsóknar í þinginu. Þau ættu líka að fá skjótari meðferð en ef um er að ræða ákærur sem hljóta meðferð hjá dómstólum landsins. Hlutverk umboðsmannsins væri jafnframt víðtækara en hlutverk almennra dómstóla, svo sem sakadóms og saksóknara, er að því er varðar rannsóknarhlutverkið. Hann starfaði í þágu allra þegna þjóðfélagsins og auðveldaði að veita stjórnvöldum aðhald. Hann tæki við ýmsum kvörtunum, ásökunum eða ábendingum sem vörðuðu misbeitingu valds, vörðuðu rangindi. Hann gæti kannað mál á hlutlausan hátt með því að afla vitneskju með skýrslum frá stjórnvöldum og einstaklingum og sem sagt tekið að sér að hafa eftirlit með og rannsaka mál, enda þótt þau vörðuðu ekki beinlínis við lög í strangasta skilningi.

Ég held, herra forseti, að það sé ástæðulaust fyrir mig að hafa ítarlegra mál um þessa till. Kjarni málsins er sá sem ég hef nú rakið. Þetta er mönnum vel þekkt efnislega. Við leggjum til að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að leggja fram frv. til l. um umboðsmann Alþingis. Ef þessi till. verður ekki samþ. er auðvitað auðveldur leikur að leggja frv. fram í eigin nafni, en við teljum að eðlilegra væri að slíkt frv. yrði lagt fram í nafni ríkisstj. nú eins og endranær, þegar um svo viðamikið og flókið mál er að ræða sem hér er, og ríkisstj. hefði jafnframt möguleika til þess að lagfæra frv. þetta með hliðsjón af ýmsum þeim aths. og ábendingum sem fram hafa komið á undanförnum árum, einkum og ekki síst nú á síðasta ári, sem gæti verið til bóta þegar málið er nú aftur lagt fram.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessari till. til þál. verði vísað til allshn.