31.10.1978
Sameinað þing: 11. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

326. mál, niðurskurður fjárframlaga 1978

Fyrirspyrjandi (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég lagði fram hér fsp. til fjmrh. í þremur liðum: „1. Hver er heildarniðurskurður fjárframlaga á fjárl. þessa árs? 2. Hvernig skiptist hann á milli málaflokka á einstakar framkvæmdir eða framlög í hverjum málaflokki? 3. Hver gerði till. um þennan niðurskurð og hvaða reglur voru hafðar til hliðsjónar?“

Nú er lagt fram í dag skriflegt svar við öllum þremur fsp., en í framhaldi af því vil ég spyrjast fyrir um það varðandi þriðju spurninguna, hvort fjmrn. eða fjárlaga- og hagsýslustofnun, sem lagði þessar hugmyndir um lækkun ríkisútgjalda fram, hafi ekki haft samráð við viðkomandi rn. og ráðh. og hvort sá niðurskurður, sem gerður er í hinum ýmsu rn., sé ekki gerður í samráði og samstarfi við viðkomandi rn.

Í öðru lagi kemur fram í fsp. mínum, að óskist gefið skriflegt svar við annarri spurningunni. Þar kemur fram, hve þessi niðurskurður frá fjárl. nemur hárri upphæð og sömuleiðis hver hann er á heildarmálaflokka, en ekki kemur fram, eins og um er beðið, sundurliðun á einstökum framkvæmdum eða framlögum í hverjum málaflokki. Tökum til dæmis vegagerð, framkvæmdir lækka frá fjárl. um 100 millj. og ekkert meira sagt um það. Spurt er um, hvernig þetta skiptist á hinar einstöku framkvæmdir. Það er það, sem ég óska eftir að fá upplýsingar um. Það getur verið, að fjmrh. ætli að svara því munnlega.

Þá finnst mér athyglisvert, að niður er skorið framlag til Byggðasjóðs um 75 millj. Er ætlunin að breyta lögum um framlag ríkisins til Byggðasjóðs til samræmis við þetta? Ef þetta er gert án lagabreytinga er það ekki í samræmi við lög um tekjur Byggðasjóðs.

Þá þykir mér einnig skorta á í 2. lið í svari við þessum fsp. Talið er að stofnframlag til menntaskólanna á Ísafirði og í Kópavogi lækki um 25 millj. eða um þriðjung, en samkv. fjárl. er framlag til annars skólans 45 millj. og til hins 30 millj. Hvernig skiptist lækkunin á hvorn skóla um sig?

Áður hefur verið rætt nokkuð um gæsluvistarsjóðinn og skal ég ekki fara út í það frekar. En ég lýsi yfir mikilli óánægju minni með að skera hann niður um tæpan þriðjung.

Sömuleiðis finnst mér furðulegt að skera niður fiskileit, vinnslutilraunir og markaðsöflun. Þar var um að ræða 150 millj. kr. fjárframlag, sem var óbreytt að krónutölu frá árinu á undan. Miðað við öll þau verkefni, sem þar eru fram undan, og allt það, sem er ógert í þeim efnum, m.a. að framfylgja ýmsum þáltill., sem Alþ. hefur samþykkt í þessum efnum, sem stórauka kostnað í þessu skyni, þ. á m. framkvæmd þáltill., sem hæstv. fjmrh. flutti og samþ. var á Alþ., finnst mér þetta óskiljanlegur niðurskurður. Það er ekki til þess að standa við öll þau áform, sem hér er um að ræða, ef þetta á að lækka, sem fyrst og fremst getur skapað þjóðfélaginu stórauknar tekjur. Ég held að það hefði mátt leita að einhverju öðru frekar í þessum efnum.

En aðalatriði málsins er það, hvort hér sé um samráð og samstöðu að ræða við aðra ráðh. í sambandi við þennan niðurskurð. Þá er auðvitað sjáanlegt með öllu, að honum verður framfylgt ef samstaða er um hann.

Ég mun þá fyrir mitt leyti geyma mér frekari umr. um þetta mál þangað til fjárlagafrv., sem nú hefur komið á borð þm., kemur til umr. Sumir gárungar kalla það „Tómas Árnason metsölubók“, en það heitir á þingmáli frv. til fjárlaga. Þegar það kemur til umr, verður auðvitað úr nógu að moða. En þetta er það sem ég hef helst áhuga á að vita. Sömuleiðis óska ég eftir frekari sundurliðun á svari við annarri spurningu, en ef slíkt er ekki fyrir hendi, þá tel ég, herra forseti, að þessari fsp. sé ekki svarað.