12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

197. mál, söluskattur

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er tekið til umr., fjallar um að undanþiggja vélavinnu við snjómokstur söluskatti.

Eitt af því, sem við er að stríða í samgöngumálum okkar Íslendinga, er snjórinn. Þjóðvegir teppast vegna snjóa og byggðarlög og heilir landshlutar einangrast í skemmri eða lengri tíma á vetrum svo sem kunnugt er. Með bættri vegagerð og uppbyggðu vegakerfi verður samgöngum stöðugt betur haldið uppi þrátt fyrir snjóa. En hvað sem því líður og hvað sem gert er í vegamálum verður aldrei komist hjá því að ryðja þurfi snjó úr vegi svo að haldið verði uppi eðlilegum samgöngum. Þess vegna hlýtur snjómokstur til að greiða fyrir samgöngum að vera mikilvægur þáttur samgöngumálanna.

Svo sem kunnugt er sér Vegagerð ríkisins um allan snjómokstur á þjóðvegum samkv. sérstökum reglum. Núgildandi reglur um snjómokstur á þjóðvegum eru frá 9. febr. 1977. Samkv. þessum reglum greiðir Vegagerðin allan kostnað við snjómokstur nokkurra mikilvægra samgönguleiða. Kveðið er á um hvað snjómokstur skuli vera tíður á hinum einstöku þjóðvegum. Ef þörf er skal moka suma vegi alla daga, aðra vegi alla virka daga, þá aðra vegi tvo daga í viku, en aðra vegi einu sinni í viku o. s. frv. Auk þess skal Vegagerðin greiða helming kostnaðar við snjómokstur, sem einstakir aðilar óska eftir. Heildarkostnaður Vegagerðarinnar af snjómokstri nam árið 1978 tæpum 819 millj. kr.

Til viðbótar framangreindum kostnaði af snjómokstri á þjóðvegum kemur svo sá kostnaður sem greiddur er að hálfu á móti Vegagerðinni. Þar er um að ræða kostnað sem borinn er af þeim aðilum sem óska eftir snjómokstri, svo sem einstökum sveitarfélögum, mjólkurbúum og öðrum aðilum.

En snjómokstur er ekki bundinn við þjóðvegi. Hann er einnig nauðsyntegur innan marka hinna einstöku þéttbýlisstaða. Sveitarfélögin ein, hvert í sínu umdæmi, standa undir þeim mikla kostnaði sem af snjómokstri leiðir.

Og enn er þess að geta, að,það er um að ræða snjómokstur á flugvöllum landsins þegar þörf krefur vegna flugsamgangna. Kostnaður af þessum snjómokstri er greiddur af rekstrarfé flugvallanna.

Snjómokstur, hvort sem er á þjóðvegum, í þéttbýli eða á flugvöllum, er nú aðallega unninn með stórvirkum vélum. Samkv. lögum ber að greiða 20% söluskatt af þessari vélavinnu. Þessi skattheimta er af ýmsum ástæðum bæði óeðlileg og ranglát. Þegar ríkið í einu eða öðru formi greiðir kostnaðinn af snjómokstri er það að greiða sjálfu sér söluskatt. Niðurfelling þessa söluskatts rýrir því í sjálfu sér ekki stöðu ríkissjóðs. Þegar aðrir en ríkið greiða söluskatt af snjómokstri kemur það oft verst við þá sem síst skyldi. Það kemur harðast niður á þeim sem í mesta fámenninu og mestu einangruninni eiga ekki annars úrkosta en að leggja í aukakostnað fram yfir aðra landsmenn vegna snjómoksturs.

Herra forseti. Það er með tilliti til þessa sem ég hef leyft mér að bera fram frv. það sem hér er til umr. og felur í sér, eins og áður sagði, að fella niður vélavinnu við snjómokstur. Ég vænti þess, að hv. þm. sjái að hér er um visst sanngirnis- og réttlætismál að ræða og að mál þetta fái greiðan gang hér í hv. deild.