12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3176 í B-deild Alþingistíðinda. (2473)

197. mál, söluskattur

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við frv. sem hér liggur fyrir til umr., og jafnframt tel ég rétt að vekja athygli á því, að það hefur verið baráttumál sveitarfélaga árum saman að fá því framgengt að söluskattur af tækjum sveitarfélaga við eigin framkvæmdir verði felldur niður. Þarna er um verulega skattheimtu að ræða, því að eins og margir vita hafa framkvæmdir sveitarfélaga aukist mjög á síðari árum, ekki síst í sambandi við gatnagerð og aðrar framkvæmdir, svo sem holræsagerð og vatnsveitur. Þetta hefur orðið til þess, að sveitarfélögin hafa í vaxandi mæli notað til þessa eigin tæki. Það hefur verið hagkvæmara og betra að koma við smærri framkvæmdum einmitt á þennan hátt. En af framkvæmdum, sem þessi eigin tæki eru notuð við, verður að greiða söluskatt, eins og hér kemur fram, í sambandi við snjómokstur o. fl. Það hefur verið reynt á undanförnum árum að fá á þessu leiðréttingu og hefur áður komið fram hér á Alþ. till. í þá átt að reyna að fá þessu aflétt, en ekki náð fram að ganga. Ég tel rétt að vekja á þessu athygli hér, og það er spurning, hvort ekki er rétt að kanna það í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar, hvort einhver grundvöllur væri fyrir því að fjmrn. vildi fallast á meiri breytingu en hér er lagt til.

Ég vil einnig taka undir það sem kom fram áðan hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. í sambandi við söluskattsmálin í heild, að það er vissulega kominn tími til þess að endurskoða sérstaklega þennan hátt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Það er rétt að nefna það hér, að eitt af því, sem hefur valdið mikilli óánægju, sérstaklega úti um landsbyggðina, í sambandi við söluskattinn, er söluskattur á frjálsa félagastarfsemi sem hv. þm. hafa sjálfsagt orðið varir við, að bæði íþróttafélög, ungmennafélög og aðrir, sem vinna að félagsstarfsemi úti um landið, þurfa að greiða af þessari starfsemi söluskatt. Þetta er mál sem þarf vissulega að fara að taka til leiðréttingar. Ég er sammála síðasta ræðumanni um nauðsyn þess að taka þessi mál til rækilegrar endurskoðunar þegar farið er að ræða um vissa þætti söluskatts, eins og hér er gert nú. Að öðru leyti mun ég fylgja þessu frv. En ég legg eindregið til að sú n., sem fær þetta mál, skoði þessa þætti varðandi söluskatt af tækjum sveitarfélaga um leið.