12.03.1979
Efri deild: 68. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

218. mál, landhelgi, efnahagslögsaga og landgrunn

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa fyllsta stuðningi við þetta mál í einu og öllu. Ég get satt best að segja tekið undir hvert einasta orð sem hæstv. utanrrh. sagði og hygg að ég tali þar fyrir stjórnarandstöðuna í heild. Á því ekki að vera neinn vafi á því, að alger samstaða muni nást um mál þetta. Það kann að vera að hnika megi til orði og orði einhvers staðar, en það er þá til að gæta sameiginlegra hagsmuna og tryggja þá enn betur. En frv. er mjög vel úr garði gert, eins og vænta mátti þar sem Hans G. Andersen, okkar helsti sérfræðingur í hafréttarmálum og einn af okkar bestu lögfræðingum, hefur samið það. Það er stutt, einfalt, skýrt og afdráttarlaust, svo var og um skýringar hæstv. utanrrh., sem ég hygg að þm. geti allir tekið undir með glöðu geði.

Ég gat þess, að það væru kannske atriði sem mætti eitthvað hnika til. Ég bendi t. d. á 6. gr., þar sem í 1. mgr. er talað um nýtanlegar lífverur, sem annaðhvort eru „hreyfingarlausar á hafsbotni eða í honum eða geta ekki hreyft sig án stöðugrar snertingar við hafsbotninn“. Hér er auðvitað átt við t. d. krabbadýr ýmiss konar, sem við vitum ekki hvers eðlis kunna að vera á hafsbotninum utan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Á Hafréttarráðstefnunni hefur nokkuð verið skipst á skoðunum um hvaða orðalag þarna ætti að vera. Það hefur ýmist verið talað um „direct contact“ eða „constant“ og ég held að t. d. orðið „stöðugur“ mætti gjarnan niður falla. Við þurfum ekki nákvæmlega að þýða textann eins og hann nú er. Við getum gjarnan haft orðalagið ótvíræðara fyrir okkur, þannig að það sé alveg ljóst, að öll þau dýr, sem á hafsbotni lifa, heyri honum til, þótt þau séu ekki alveg í stöðugri snertingu við hann, heldur hreyfi sig með einhvers konar stökkum eða slíku. Þetta er náttúrlega lítið atriði, virðist vera, en kynni þó að skipta einhverju máli. Þetta orðalag er ekki orðið fast mótað í hafréttarsáttmálanum fremur en annað er þetta varðar, þ. e. a. s. hafsbotninn utan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Eins og hæstv. ráðh. réttilega gat um, er einna mest um það mál rætt nú og deilt og verður á þeim fundi Hafréttarráðstefnunnar sem nú er að hefjast. Þetta verður þar eitt meginmálið.

Ég tek eindregið undir þá skoðun hæstv. ráðh., að rétt hafi verið að fella niður úr lögum undanþáguna í reglugerð varðandi útfærsluna í átt til Jan Mayen, þannig að ótvírætt sé að við teljum okkur eiga fullan rétt á 200 mílunum óskertum þar. Þetta mál kemur auðvitað upp í þeim viðræðum við Norðmenn sem hafnar eru óformlega og verða væntanlega formlegar áður en langt um líður. Eins og hæstv. ráðh. gat um, getur verið þarna um gífurlega þýðingarmikið mál að ræða. Þessi sneið þarna norður frá er aukaatriði samanborið við þau gífurlega miklu réttindi sem þessar þjóðir væntanlega sameiginlega öðlast með 200 sjómílna efnahagslögsögu umhverfis Jan Mayen. En í samningum við Norðmenn hljótum við að keppa að því, að það stóra hafsvæði verði hagnýtt sameiginlega af þessum frænd- og vinaþjóðum og um það náist samkomulag, því að skoðun mín er sú, að Norðmenn geti ekki einir helgað sér þetta hafsvæði, en með samkomulagi við okkur geta þeir það og eftir þeim grundvallarreglum sem lausn hafréttarmála fyrst og fremst á að byggjast á samkv. drögum að hafréttarsáttmála, þ. e. a. s. að svona mál eigi að leysa með samningum eftir sanngirnissjónarmiðum þar sem allar aðstæður séu metnar. Það er inntak og meginregla hafréttarsáttmálans, og þess vegna hljóta Norðmenn og Íslendingar að semja um allt þetta hafsvæði, ekki eingöngu þessa sneið, sem við teljum okkur auðvitað eiga, heldur um hafsvæðið allt. Þeir samningar eru, eins og hæstv. ráðh. gat um, ýmist í undirbúningi eða hafnir óformlega og þeim verður fram haldið og við treystum og vonum að farsæl lausn finnist á því máli, því að eins og margsinnis hefur verið bent á er Jan Mayen á íslenska landgrunninu, en ekki hinu norska, og þess vegna taka auðvitað ákvæði III. kafla þessa frv. og væntanlegra laga til Jan Mayensvæðisins að mati okkar Íslendinga. Við teljum að við eigum þar hafsbotnsréttindi, og ef við gefum þau að einhverju leyti eftir í samningum við Norðmenn, þá öðlumst við þess í stað fiskveiðiréttindi, en eðlilegast er auðvitað, eins og ég áðan sagði, að þessar þjóðir sameiginlega semji um öll þessi mál.

Ég held að það hafi verið hyggilegt í aths. í 6. lið almennu aths. að sneiða alveg fram hjá Rockall, nefna Rokkinn ekki á nafn, eins og gert er. En hinu er ekki að leyna, að Bretar reyna að ásælast ekki einungis eignarrétt að Rockall, heldur beinlínis að ná efnahagslögsögu umhverfis þann klett. Ef það tækist mundu þeir í fyrsta lagi skerða okkar efnahagslögsögu ef miðlína ætti að ríkja. Það viðurkennum við auðvitað aldrei, og íslenska ríkisstj. hefur bæði beint og óbeint mótmælt öllu tilkalli Breta til þessa kletts og sérstaklega til efnahagslögsögu. Mitt mat er að það mætti gjarnan nota gott tækifæri til að herða á þeim mótmælum, og veit ég að hæstv. ráðh. mun hafa það í huga ef slíkt tilefni gefst, þannig að engum geti dulist hugur okkar Íslendinga í því efni. Hæstv. utanrrh. hefur raunar nýlega með orðsendingu, hygg ég, bent á að Íslendingar munu ekki undir neinum kringumstæðum breyta reglugerð sinni vegna Rockalls. Og því endurtek ég: Ég held að það hafi verið hyggilegt að sneiða hjá því að nefna hann nokkuð í aths., svo augljóst sem það er að umhverfis hann geti engin efnahagslögsaga orðið. Oslóar-samkomulagið gekk einmitt út frá því samkomulagi sem Bretar gerðu án fyrirvara um Rockall, að okkar lína ætti að gilda. Þar með viðurkenndu Bretar í verki og raunar með samningi að þeir ættu ekki þessi réttindi, og við það ber okkur auðvitað stíft að halda okkur. Jafnvel þótt svo kunni að vera að það hafi verið yfirsjón af þeirra hálfu að gera ekki þann fyrirvara, þá var þannig frá samningnum gengið að enginn fyrirvari af Breta hálfu var gerður, og við það höldum við okkur auðvitað að þeir geti engin réttindi átt þarna.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, verða þessi mál, hafsbotnsmálin, aðallega rædd nú á næsta fundi Hafréttarráðstefnunnar. Við skulum játa að við höfum verið nokkuð svifaseinir að gefa þeim málum gaum. Ég játa það fyrir mitt leyti, þó að ég hafi verið á nokkrum fundum Hafréttarráðstefnunnar, þá var það ekki fyrr en nú fyrir réttu ári á fundi úti í Genf, þegar kort af heimshöfunum var lagt fram og ég sá setlagasvæðin og þau hugsanlegu réttindi sem Íslendingar gætu átt, sem ég gerði mér grein fyrir því að þarna gæti verið stórmál á ferðinni. Við vorum auðvitað með allan hugann við fiskinn og efnahagslögsöguna, að gæta réttinda okkar þar. Nú eru þau að fullu tryggð, hygg ég, það er engin leið að snúa neitt til baka þar, og þess vegna sjálfsagt að lögfesta þau ákvæði og eins þau önnur sem í þessu frv. eru. En nú þurfum við að snúa okkur að hafsbotnssvæðunum.

Það eru þrjú svæði sem við leggjum áherslu á. Ég hef þegar rætt um Jan Mayen-svæðið. Þar teljum við okkur eiga réttindi a. m. k. til jafns við Norðmenn. Það er auðvitað gífurlega stórt og mikið svæði sem þar verður um samið milli þessara tveggja þjóða. Í öðru lagi er svo Reykjaneshryggurinn og umhverfi hans. Ég hygg að þar verði ekki árekstrar við aðrar þjóðir. Við munum teygja okkur þar suður í höf, væntanlega milli 100 og 200 sjómílna út fyrir efnahagslögsöguna. Það veit enginn hvaða verðmæti þar kunna að finnast. Væntanlega eru þar ekki málmar, olíur eða jarðgös. Hins vegar veit enginn um þær lífverur sem þar eru, en hafdýpi er ekki meira þar en svo að búast má við að þar verði hægt að koma við veiðarfærum fyrr en síðar, enda eru nú menn byrjaðir að toga á hafdýpi sem er álíka og á þeim landgrunnssvæðum sem hér um ræðir, þ. e. a. s. Jan Mayen-svæðinu, Reykjaneshryggnum og síðast, en ekki síst því svæði suður af Íslandi og suðvestur af Færeyjum sem við þurfum nú að gefa sérstakan gaum að. Það liggur nú fyrir, að á fundum Hafréttarráðstefnunnar munu Íslendingar og Færeyingar bera saman bækur sínar og taka upp samráð um að gæta sameiginlegra réttinda þjóðanna og réttargæslu á þessu hafsvæði. Þar er gífurlega stórt sokkið land sem menn ætla að kunni að geyma bæði málma, olíur, jarðgös og auk þess kunni að vera þar mikilvægar lífverur. Ég hef á það bent, að auðvitað hljótum við að halda til streitu öllum okkar réttindum þar, eins til olíuleitar og gastegunda, þó ekki væri til annars en að hindra aðra í því að gera þar jarðrask sem gæti stofnað lífi í Norður-Atlantshafi í hættu. Um þetta eru Íslendingar auðvitað allir sammála.

Ekki leikur nokkur vafi á því, að einróma samþykkt mun fást á þessu frv. eins og hæstv. utanrrh. hefur vikið að og vonast til, og ég get fullvissað hann um að af stjórnarandstöðunnar hálfu er vilji til þess.