12.03.1979
Neðri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3201 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég hafði talað áður við þessa umr. almennt um frv., sem hér er til umr., og skal ekki fara út í almennar umr. um þetta mál hér, hvorki það sem hefur komið fram í dag né áður, að öðru leyti en því, að ég vildi gera aths. við ýmislegt sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austurl., talsmanns Alþb., áður í þessum umr. Ég vil vekja athygli hæstv. forseta á því, að það vantar þennan þingflokk hér í salinn. Hvorki hv. talsmaður hans, hv. 1. þm. Austurl., né aðrir Alþb.-menn eru hér við. (Forseti: Hv. 1. þm. Austurl. hafði samráð við mig og óskaði eftir því að fá fjarvistarleyfi. Hann hefur það leyfi, þannig að ég á erfitt með að kveðja hann til starfa nú á þessari stundu.) Þá er rétt að ég að honum fjarverandi geri örstuttar aths. við það sem hann sagði.

Hv. þm. sagði að það hefði aldrei hvarflað að sér, að til þess gæti komið að markaðir tekjustofnar, eins og launaskattur, yrði teknir til annarra þarfa en ætlað er í lögum. Og hv. þm. margendurtók það, að þetta væri siðleysi. Ég ætlaði mér að varpa fram spurningu til hans um þetta atriði og biðja hann að svara því, með hvaða hætti hv. Alþb.-menn hugsuðu sér þá að afgreiða þetta frv. En þar sem hann er ekki viðstaddur vil ég biðja hæstv. fjmrh. að upplýsa hvort þessi skilningur hefur komið fram innan ríkisstj.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að skerða allverulega marga markaða tekjustofna með þeim hætti að þeir renni í ríkissjóð. Á bls. 147 í aths. við fjárlagafrv., sem afgreitt var hér fyrir þinghlé, er yfirlit yfir þessa mörkuðu tekjustofna og skerðingu þeirra. Hér er um að ræða byggingarsjóðsgjald af eignarskatti einstaklinga sem á að renna í Byggingarsjóð ríkisins, byggingarsjóðsgjald af eignarskatti félaga sem einnig á að renna í Byggingarsjóð ríkisins, hluta af eignarskatti sem á að renna í Byggingarsjóð ríkisins, erfðafjárskatt, en hann rennur í Erfðafjársjóð, byggingarsjóðsgjald af tekjuskatti einstaklinga sem á að renna í Byggingarsjóð ríkisins, einnig af tekjuskatti félaga sem rennur í sama sjóð, byggingarsjóðsgjald af innflutningi og einnig launaskatt, en þar er um langstærstu fjárhæðina að ræða. Þessar skerðingar skv. fjárlagafrv. á tekjustofnum, sem eiga að renna skv. lögum til annarra þarfa en ríkissjóðs, eru tæpar 700 millj. kr.

Í þessu frv. eru heimildir og beinlínis fyrirmæli um að skerða þessa tekjustofna og láta þennan hluta þeirra, sem er 10%, ganga í ríkissjóð. En það er ekki nóg með það, heldur er það svo t. d. með 15. gr. þessa frv., að þar er launaskattur skertur um 10%, eins og hann er áætlaður í des., og sá hluti hans látinn ganga í ríkissjóð. Allar hækkanir á launaskatti, sem verða á árinu 1979, eiga líka skv. þessari grein að ganga til ríkissjóðs. Ef laun hækka á þessu ári um milli 20–30%, sem ég held að sé alger lágmarksáætlun, þá mundi þetta þýða að ríkissjóður fengi þennan kúf óskiptan, og hann er ekki minni en 1–2 milljarðar. Ég sé að hæstv. fjmrh. brosir. Hann gerir sér grein fyrir því, hvað hér er á ferðinni. Ég vildi sem sagt benda á þetta. Og það kom mjög ákveðið fram í málflutningi hv. 1. þm. Austurl., formanns þingflokks Alþb., að Alþb. eða a. m. k. hann sjálfur lítur á þessa framkvæmd, að skerða þannig markaða tekjustofna sem ætlaðir eru til sérstakra þarfa, sem sérstakt siðleysi og að slíkt hljóti að vera öndvert honum og að manni skildist ætti að vera öndvert Alþ. að gera slíkt nema þá með sérstakri breytingu á þeim lögum sem fjalla um viðkomandi markaða tekjustofna.

Ég vil líka í þessu sambandi benda á það, að með 15. greininni, ef öll kurl koma til grafar, eru tekjur Byggingarsjóðs ríkisins skertar um 11/2–2 milljarða kr. — það fer eftir því hvað menn áætla launahækkanir miklar í landinu á þessu ári. Með 11. gr. er ráðstöfunarfé húsnæðismálastjórnar einnig skert um 2 milljarða kr. með því ákvæði sem þar greinir.

Ég vil spyrja hæstv. félmrh., ef hann vill svara því hér og nú, hvort þetta muni ekki valda því að Húsnæðismálastofnun ríkisins verði fjár vant á yfirstandandi ári og hvort hann telji þetta rétt skref í þá átt sem hann hefur áður sagst stefna að, að veita húsbyggjendum allt að 90% lán út á íbúðir.

Ég hefði gjarnan viljað fara fleiri orðum um þetta ef hv. 1. þm. Austurl. hefði sýnt deildinni þá virðingu að vera viðstaddur þessa umr., en ég skal ekki fjölyrða meira um þetta að sinni.